Þétt hrina smá­skjálfta á sér nú stað við Fagra­dals­fjall. Frá há­degi hefur fjöldi skjálfta mælst norðan við Fagra­dals­hraun í Geldinga­dölum, þar sem eld­gosið í fyrra hófst. Veður­stofa Ís­lands vaktar svæðið vel.

„Þetta er stöðug smá­skjálfta­virkni sem við sjáum þarna á svæðinu núna og við erum að fylgjast með henni jafnt og þétt og reyna að stað­setja það sem við getum,“ segir Einar Hjör­leifs­son, náttúru­vá­r­sér­fræðingur hjá Veður­stofu Ís­lands.

Að­spurður hvort þetta sé eitt­hvað hefð­bundið segir Einar: „Þetta er ekki hefð­bundið. Við sjáum að jarð­skjálfta­virkni virðist vera að taka sig aftur upp á Reykja­nes­skaganum.“

„Eins og er hafa ekki mælst stórir skjálftar í þessari hrinu, svo við höfum ekki fengið til­kynningar af fólki sem hefur fundið fyrir skjálftunum,“ segir hann.

Einar segir að síðast þegar eld­gos hófst á svæðinu að þá hafi skjálfta­virkni koðnað niður rétt á undan. „Þannig að þetta er ein­hver spenna að losna úr jarð­skorpunni,“ segir hann.

Tveir skjálftar yfir 3 af stærð hafa mælst síðan skjálftahrinan hófst. Þá var einn 3,7 af stærð klukkan 13:47 og annar 3,5 af stærð klukkan 14:02. Það eru þó óyfirfarin gögn og því gæti stærð skjálftanna breyst þegar Veðurstofan fer yfir gögnin og staðfestir þau.

Eldgos í Geldingadölum hófst 19. mars 2021. Hraunflæði frá gígnum lauk 18. september, en það var ekki fyrr en 16. desember sem Veðurstofa Íslands lýsti því formlega yfir að eldgosinu væri lokið.

Fréttin var uppfærð klukkan 14:22