Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur heitið því að senda fleiri alríkislögreglumenn inn í borgir þar sem mikið er um glæpi en Trump hafði áður sent lögreglumenn til Portland, ákvörðun sem margir gagnrýndu harðlega. Að því er kemur fram í frétt BBC um málið verða lögreglumennirnir sendir til þriggja borga þar sem Demókratar fara með völd.
Líkt og áður hefur komið fram hafa fjölmenn mótmæli staðið yfir víðs vegar um Bandaríkin í kjölfar dauða George Floyd, sem var í maí myrtur af lögreglu við handtöku, en mótmælendur berjast gegn lögregluofbeldi og kynþáttamismunun. Flest mótmælin hafa farið friðsamlega fram en Trump hefur ásakað Demókrata um að beita sér ekki gegn ofbeldi og stjórnleysi sem ríkir í sumum borgum.
„Þessar síðustu vikur hefur hreyfing farið af stað um draga til baka fjármagn, að rífa í sundur, og að leysa upp lögregludeildir okkar. Öfgastjórnmálamenn hafa tekið þátt í þessari krossferð gegn lögreglunni og miskunnarlaust lastað hetjur okkar innan lögreglunnar,“ sagði Trump á blaðamannafundi í gær.
Gífurleg aukning ofbeldisfullra glæpa
Þá bætti Trump við að þessar aðgerðir hafi leitt til „ótrúlegrar sprengingar í skotárásum, morðum og svívirðilegra glæpa og ofbeldis,“ og greindi þá frá því að hann komi til með að senda fleiri alríkislögreglumenn til borga þar sem stjórnleysi ríkir. „Þessum blóðsúthellingum verður að ljúka. Þessum blóðsúthellingum mun ljúka,“ bætti hann við.
Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, William Barr, greindi frá því á fundinum í gær að um 200 lögreglumenn hafi verið sendir til Kansas City í Missouri og að sambærilegur fjöldi yrði sendur til Chicago og Albuquerque í Nýju-Mexíkó á næstunni. Gífurleg aukning hefur verið í ofbeldisfullum glæpum í þeim borgum upp á síðkastið.