Dagur B Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segist hafa verið mjög brugðið vegna skotárásarinnar á fjölskyldubíl hans síðastliðna helgi. Hann segir mikilvægt að opna umræðuna um hótanir í garð opinberra aðila.

Dagur var gestur Sigmars Guðmundssonar í Silfrinu á RÚV í dag.

Skotið var tvívegis á bíl Dags síðastliðna helgi. Málið er í rannsókn lögreglu en tveir karlmenn hafa verið handteknir í tengslum við málið. Talið er að skotið hafi verið á bílinn fyrir aftan heimili Dags í miðbæ Reykjavíkur þar sem hann býr ásamt eiginkonu sinni og fjórum börnum.

Erfið vika

Dagur sagði að fjölskylda sín hafi tekið málinu með ótrúlegu æðruleysi en að þessu fylgi auðvitað erfiðar tilfinningar. „Það er eitthvað óöruggi sem grípur um mann og við horfum öll aðeins öðruvísi út um gluggann á meðan það er enn mikil óvissa í þessi öllu saman, sagði Dagur.

Lögreglan hefur vaktað hús fjölskyldunnar um helgina.

Hann segist hafa orðið var við gat í farþegahurðinni í framsæti bílsins þegar konan hans kom að sækja hann síðastliðinn laugardag. Hann hafi tekið mynd af hurðinni og sett sig í samband við lögreglu. „Lögreglan bregst hratt við og tekur bílinn inn til rannsóknar og við fáum þær fréttir á sunnudeginum að byssukúlur hafi fundist í bílnum," útskýrði Dagur.

Hann sagði að sér þætti mikilvægt að draga ekki ályktanir eða gefa sér eitthvað í þessu strax, málið sé enn óupplýst og að lögregla vinni hörðum höndum við að rannsaka það.

Dagur sagðist hugsi yfir því að árásir á húsnæði stjórnmálaflokka hefðu ekki verið ræddar opinberlega fyrr.

„Það sem vakti athygli mína er þegar skotið var skrifstofu Samfylkingarinnar þá spyrst það út af því það er nálægt íbúahverfi. Ég held að Samfylkingin hafi ekki haft neitt ráðrúm til að ákveða hvort það yrði sagt frá málinu. Þá kemur á daginn að undanfarin tvö ár allavega, þá hafa átt sér stað svipaðir viðburðir á skrifstofum annarra stjórnmálaflokka. Ég skal viðurkenna það að ég er hugsi yfir því, hvers vegna þessi mál séu ekki tekin til umræðu, sett á borðið og rannsökuð."

Dagur segist hafa fengið sterkan stuðning í vikunni. „Fólk bæði úr stjórnmálum og fjölmiðlum hefur haft samband og sagt sögur af því að hafa orðið fyrir hótunum. Flestar þessar frásagnir hafa verið þannig að ákveðið var að segja ekki frá. Ég held að það sé mikilvægt núna, þegar þetta er orðið opinbert að við ræðum þetta og spyrjum okkur hvernig samfélagi við viljum búa í," sagði Dagur.

Þegar talið barst að myndbandi sem Vigdís Hauksdóttir og Bolli Kristinsson gerðu un Óðinstorg og heimili Dags rifjað hann upp að hann hafi sagt um jólaleytið að það ylli honum vonbrigðum að heimili hans væri gert að skotskífu.