Rit­höfundurinn Bragi Páll Sigurðar­son er gáttaður á því að ríkið hyggist brátt senda úr landi hundruð flótta­menn sem fengið hafa synjun um al­þjóð­lega vernd hér á landi. Bragi skrifar Face­book færslu vegna málsins.

Fram kemur í Frétta­blaðinu í dag að brott­vísanir hælis­leit­enda séu hafnar frá Ís­landi eftir að hafa að mestu legið niðri undan­farin tvö ár vegna heims­far­aldurs Co­vid-19. „Að taka þann hóp núna og reka úr landi er á­mælis­vert og ekki í anda sam­fé­lags mann­úðar og kær­leika,“ sagði Magnús Davíð Norð­dahl við Frétta­blaðið í dag.

Vantar fólk

Bragi Páll bendir á að hér vanti fólk í vinnu. „Fólk með alls­konar menntun og reynslu. Fólk sem vill setjast hér að með fjöl­skyldur sínar. Fólk sem er að flýja hræði­legar að­stæður. Sem hefur upp­lifað meiri hrylling en orð fá lýst.“

Bragi hefur eitt­hvað til síns máls miðað við rann­sókn Sam­taka at­vinnu­lífsins á at­vinnu­markaðnum sem Frétta­blaðið greindi frá í mars. Þar kemur fram að tólf þúsund manns þurfi að flytja til Ís­lands á næstu fjórum árum, en störfum mun fjölga um fimm­tán þúsund þennan tíma á meðan allt lítur út fyrir að starfs­fólki muni einungis fjölga um þrjú þúsund manns.

„En þessu fólki ætlar ríkið að moka úr landi. Aftur til Grikk­lands þar sem ekkert tekur á móti þeim nema gatan,“ skrifar Bragi og rekur þess næst sögu vinar síns sem kominn er með vinnu, hús­næði og bíl.

„Vill ekki krónu frá Ís­lenska ríkinu. Þráir ekkert heitar en annað tæki­færi til að hefja hér nýtt líf með fjöl­skyldu sinni. En ríkið segir nei. Segir farðu. Okkur vantar fólk. Bara ekki fólk sem er ekki hvítt.“