Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Föstudagur 20. nóvember 2020
23.00 GMT

Guðmundur hefur hlotið þónokkrar viðurkenningar fyrir störf sín og í gær bættist enn ein rósin í hnappagat hans, viðurkenning Barnaheilla sem veitt er fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra.
Hvernig endar maður í að verja flestum dögum ársins í að leita að týndum börnum?

„Já, það er nú það,“ svarar Guðmundur eins og hann sé sjálfur að leita svarsins.

„Sigríður Björk, sem þá var nýtekin við embætti lögreglustjóra í Reykjavík, hringir í mig og lýsir verkefni sem hún hefði áhuga á að fara í og hvort ég sé til í að taka það að mér.“

Verkefnið var að halda utan um beiðnir um leit að börnum yngri en 18 ára og fylgja þeim eftir.

Guðmundur sem hafði í 14 ár verið starfsmaður Ríkislögreglustjóra í fjarskiptamiðstöðinni Skógarhlíð, tók tilboðinu sem hugsað var til eins árs. Nú eru aftur á móti komin sex ár frá því að Guðmundur færði sig úr þægilegri innivinnu í Skógarhlíð í að vera meira og minna á vaktinni allan sólarhringinn, allan ársins hring enda einn í deild týndu barnanna ef svo má að orði komast þó svo hann heyri undir kynferðisafbrotadeild lögreglunnar.

„Upphaflega átti ég að búa til verklag fyrir aðra að vinna eftir en þar sem ég er ekki með stúdentspróf og er framsóknarmaður, þá eignaði ég mér verkefnið sjálfur,“ segir Guðmundur í léttum tón.


„Upphaflega átti ég að búa til verklag fyrir aðra að vinna eftir en þar sem ég er ekki með stúdentspróf og er framsóknarmaður, þá eignaði ég mér verkefnið sjálfur.“


Við grínumst með að hann hafi gert sig ómissandi í starfi en því gríni fylgir þó nokkur alvara enda hefur Guðmundur leitað 330 barna frá því hann hóf störf við verkefnið en beiðnirnar verið umtalsvert fleiri eða 1340.


Traustið mikilvægt


Þetta eru því oft sömu börnin sem leitað er að ítrekað og hefur Guðmundur áunnið sér traust meðal þeirra. Hann leggur mikið upp úr því trausti og segist til að mynda strax í upphafi hafa tekið ákvörðun um að segja börnunum alltaf satt, og reyna að semja við þau, það hafi reynst honum farsæl ákvörðun. Þau hringja jafnvel í hann af fyrra bragði og biðja hann að sækja sig eða vini sína sem þau sjá í vanda.

Á hverju ári er beðið um að leitað sé að 80 til 100 börnum að sögn Guðmundar.

„Helmingur þeirra kemur aðeins einu sinni fyrir á því ári og helmingur þeirra er nýr á hverju ári. Fjórðungi þessa fjölda leita ég fjórum sinnum eða oftar og í kringum 5 til 10 prósent þeirra þarf ég að leita að í kringum 10 sinnum yfir árið. Ég hef leitað sama einstaklingsins 18-19 sinnum á einu ári og sá sem ég hef leitast oftast að hefur náð í kringum 50 skiptum en á um fjögurra ára tímabili.“

Aðspurður hvort það sé auðveldara að leita þeirra sem hann þekkir segir hann tvær hliðar á því.

„Þau sem eru komin í djúpa neyslu eru búin að læra á mig og ég á þau. Þau vita hvernig þau geta dulist lengur en oftar en ekki fara þessir einstaklingar að skilja eftir sig brauðmola eins og Hans og Gréta. Þá eru þau orðin þreytt og vilja fara að komast út úr þessu.“

Langstærsta hópnum þurfi hann þó ekkert sérstaklega að leita að, eitt SMS frá honum dugi.

„Þetta er Gummi lögga, það er komin leitarbeiðni á þig. Hvað er planið?“


„Þetta er Gummi lögga, það er komin leitarbeiðni á þig. Hvað er planið?“


Flest fari heim þegar þau fái skilaboðin og oft sé um sakleysislega tilraun að ræða.

„Oft eru þetta krakkar sem eru að sofa hjá í fyrsta skipti og eru að heiman yfir nótt. Þau eru að kanna hversu langt þau komist með foreldra sína. Þessi börn koma yfirleitt bara einu sinni inn á borð til mín og aldrei aftur."


Þetta er rosalega lítill hópur

Stundum er maður að banka upp á hjá strangheiðarlegu fullorðnu fólki þar sem barn sem ég er að leita að, hefur gist. Fólkið fölnar þegar maður mætir eða hringir og hafði þá ekki kveikt á að barnið hafi ekki látið vita af sér. Þetta eru þá venjulegir krakkar sem eru ekki í neyslu. Um leið og þetta eru börn í neyslu er fólk meira með varann á sér.“

Guðmundur segir fjölda beiðna í ár svipaðan og áður.

„En við erum að tala um færri einstaklinga og fleiri beiðnir. Núna þegar verið er að herða á samkomutakmörkunum ná þau illa að komast inn einhvers staðar.

En það eru nokkrir ungir krakkar sem eru að koma snöggt inn og ítrekað og þá finnst manni kerfið ekki taka nógu fljótt á málum. Það er ekkert eðlilegt að ég sé að leita mjög oft að krakka á fermingaraldri. Það er minna um neyslu finnst mér, sérstaklega á lyfseðilsskyldu lyfjunum en aukning á þeim var skelfileg síðustu tvö ár.“


„Það er ekkert eðlilegt að ég sé að leita mjög oft að krakka á fermingaraldri."


Guðmundur bendir þó á að varhugavert sé að túlka tölur í þessum efnum.

„Í hverjum árgangi eru sirka fjögur þúsund einstaklingar og ég hef kannski afskipti af 20 til 30 þeirra. Þetta er rosalega lítill hópur í heildina, núll komma eitthvað prósent hvers árgangs.“

Notar hitamyndavél til leitar


Sími Guðmundar hringir og tek ég eftir að hann er mað forláta Caterpillar snjallsíma, þegar ég hef orð á því segist hann nota þennan síma þar sem hann býr yfir hitamyndavél.

„Hana nota ég til að leita þeirra krakka sem reyna að hlaupa og skjóta sér einhvers staðar inn í skot eða runna.“

Að meðaltali koma beiðnirnar meira en annan hvern dag og stundum geta þær orðið allt að sex á sólarhring en þá segir hann algengt að tenging sé á milli þeirra.

Guðmundur segir auðvelt fyrir krakka að kynnast og tengjast í gegnum samfélagsmiðla.

„Ég hef stundum heyrt frá foreldrum þegar á að setja barn þeirra í neyðarvistun á Stuðla, að þau hafi áhyggjur af því hverjum barnið þeirra kynnist þar. Ég segi þeim þá að skoða símana þeirra, þau þekkja öll hvort annað í gegnum snapchat, instagram og svo framvegis. Sérstaklega þau sem eiga við einhvern vanda að stríða.“


„Ég segi þeim þá að skoða símana þeirra, þau þekkja öll hvort annað í gegnum snapchat, instagram og svo framvegis. Sérstaklega þau sem eiga við einhvern vanda að stríða.“


Guðmundur segir vanda barnanna vera þríþættan: Hegðunarvandi, neysluvandi og svo þau sem glíma við erfiðar heimilisaðstæður.

„Þá eru börnin ekki vandinn heldur aðstæður heima fyrir og þau eru að flýja þær. Sem betur fer eru þau fá en það sem einkennir þau mál er að börnin hafa verið að heiman í marga daga áður en leitarbeiðni kemur. Það hefur komið mér á óvart að skólinn grípi ekki fyrr inn í þeim tilfellum.“


Fimmtán ára í fangaklefa


Guðmundur segir að þegar 15 ára stúlka í mikilli neyslu hafi verið sett í fangaklefa vegna skorts á öðrum lausnum árið 2018 hafi skapast mikil umræða.

„Þetta var gert til að tryggja öryggi hennar og annarra og með samþykki bæði foreldra hennar og Barnaverndar en við fórum með málið í fjölmiðla. Hún fékk ekki pláss á Stuðlum þetta kvöld en eftir að málið komast í hámæli var farið í framkvæmdir á Stuðlum til að þar væri aldrei fullt."

Guðmundur segist ekki hafa fundið fyrir miklum breytingum þetta undarlega ár heimsfarsóttar, 2020 en minnist þó á að landadrykkja hafi aukist til muna á meðal unglinga. „Það heyrist mikið í talstöð lögreglunnar að krakkar eru að hópast saman við vissar skólalóðir til að drekka landa.“


„Það heyrist mikið í talstöð lögreglunnar að krakkar eru að hópast saman við vissar skólalóðir til að drekka landa.“


Guðmundur bendir jafnframt á aukningu í líkamsárásarmálum á meðal barna undir lögaldri eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum.

„En þetta eru ekkert endilega krakkar sem eru að dúkka upp hjá mér þó það sé kannski einn og einn. Mér finnst vera aukning á vanda krakkana en það er ekki endilega að verða til þess að þau fari í strok, þau fara heim.“


35 þúsund kílómetrar á ári

Ef barn skilar sér ekki heim og forráðamenn leita til lögreglu er þeim gefið samband við Barnaverndarnefnd sem er á bakvakt allan sólarhringinn. Þegar Barnaverndarnefnd hefur tekið við beiðni er sendur tölvupóstur á fjarskiptamiðstöð sem svo berst til Guðmundar.


„Þá fer ég yfirleitt strax af stað. Beiðnirnar koma allan sólarhringinn þó algengast sé að þær komi milli tíu á kvöldin til þrjú á næturnar. Ég byrja þá á að hringja og senda sms og í mjög mörgum tilfellum dugar það. Annars fer ég út að keyra og það hefur stundum verið talað um að ég keyri svipað og ákveðinn þingmaður en ég ek um 35 þúsund kílómetra á ári,“ segir Guðmundur og brosir.

„Þau eru á ferðinni. Þau eru með strætókort sem þýðir að þau geta farið hvert sem er. Þegar ég byrjaði á þessu verkefni árið 2014 gat ég gengið að hópunum vísum á ákveðnum stöðum. Fyrsta árið fann ég þau alltaf niðri á Ingólfstorgi og svo í Kringlunni en nú er þetta flóknara.“


Löggjafinn mætti breyta reglum


Guðmundur bendir á að liðka mætti fyrir aðgengi upplýsinga um börn undir 15 ára aldri.

„Það er til dæmis hellings mál að fá gögn frá símafyrirtækjum. Mér finnst að löggjafinn mætti laga þetta fyrir mig þegar kemur að þessum yngstu börnum. Ég geri alveg greinarmun á börnum undir og yfir 15 ára aldurinn. Ég myndi vilja fá sólarhringsþjónustu frá símafyrirtækjunum og það ætti að duga að beiðni komi frá Barnavernd. Ekki að ég þurfi að finna forráðamann til að fá leyfi sem þarf að senda í gegnum kerfi sem er aðeins opið á milli 9 og 4 á daginn. Um páska hef ég til að mynda ekki aðgang að neinum frá miðvikudegi til þriðjudags, það getur verið svolítið langur tími fyrir barn undir fimmtán ára.“

Beiðnirnar koma til Guðmundar allan sólarhringinn en algengast er að þær komi frá 10 á kvöldin til þrjú að nóttu. Fréttablaðið/Stefán

Aðspurður segir Guðmundur í léttum tón að vinnutími hans sé daglega frá 8 til 7:59.

„Ég er skilgreindur sem dagvinnumaður með sveigjanlegan vinnutima,“ segir Guðmundur sem er fráskilinn og drekkur ekki áfengi svo oftast er hann tilbúinn í útkall.


Viðbragðstími styttur til muna


„Áður tók það að meðaltali átta klukkustundir frá því að beiðni kom þar til búið var að skrá málið og kalla út lýsingu á barninu og gera það eftirlýst í kerfinu. Eftir að verkefnið hafði staðið í eitt ár vorum við komin með meðaltímann niður í 17 mínútur.“

Aðspurður viðurkennir Guðmundur að full þörf væri á manneskju á móti honum í starfið.

„Ég hef verið að leita í fjóra sólarhringa sem svo alltaf slitna á 11 klukkustunda fresti vegna lögboðinnar hvíldar. Ég er líka að eldast og fer að hætta að nenna þessu næturbrölti,“ segir Guðmundur sem er 55 ára.

„Ég veit þó ekki hvort það sé hægt að búa til atvinnuauglýsingu, það þarf að finna karakter.“

Guðmundur segir mikilvæga eiginleika í starfinu vera þolinmæði, að geta farið út við hvaða aðstæður sem er og hvenær sem er og svo sé það umburðarlyndi gagnvart krökkunum.

Þau vita að þetta endar


Guðmundur segir krakkana sem ítrekað er leitað að þekkja ferlið og vita hvað eigi eftir að gerast.

„Ég segi við þau: „Ef þú svarar mér veit ég að þú ert í lagi en ef þú svarar mér ekki fer ég eins og foreldrar þínir að mála skrattann á veginn. Ég fer að hringja út um allt og banka út um allt. Ónáða fullt af fólki í kringum þig.“


„Ef þú svarar mér veit ég að þú ert í lagi en ef þú svarar mér ekki fer ég eins og foreldrar þínir að mála skrattann á veginn. Ég fer að hringja út um allt og banka út um allt. Ónáða fullt af fólki í kringum þig.“


Svo þau eru búin að læra að svara mér. Þau vita að ef ég heyri að þau eru í lagi geta þau mögulega samið við mig. Til dæmis að við heyrumst aftur um kvöldmat. Það samtal á sér alveg stað. Þau vita að þetta endar, að þau fara heim eða á Stuðla.

Svo eru það krakkarnir sem eru á mjög vondum stað. Þau vita alveg að þau enda inni á neyðarvistun. Þegar þau átta sig á að ég er kominn á slóðina eru þau kannski aðeins að undirbúa sig fyrir það sem framundan er og vilja tíma í það.

Langfæst hlaupa, ég geri auðvitað stólpagrín af sjálfum mér og sérstaklega ef ég er að hitta þau í fyrsta skipti, og segi við þau:

„Í alvöru, ætlarðu að hlaupa – heldurðu að ég sé að fara að hlaupa á eftir þér?“ segir Guðmundur í léttum tón og heldur um bumbuna.

En Guðmundur þarf ekki alltaf að hringja, sum eiga það til að hringja í hann og biðja hann að ná í sig.

„Þá eru þau orðin þreytt en ekki alveg tilbúin til að feisa foreldra sína.

En auðvitað eru einstaklingar inni á milli sem vilja ekki nást. Ef þau hlaupa veit ég bara að ég verð að fá fleiri með mér og þau vita að þau nást þannig.“


Ég tek ekki þátt í slíku


Guðmundi verður tíðrætt um traustið sem hefur tekið hann tíma að vinna upp.


„Ég hef aldrei logið að þeim, aldrei gabbað þau. Það er eitthvað sem ég ákvað í upphafi því ég vil halda traustinu. Foreldrar eiga það til að segja við þessi börn: „Komdu heim, það verður allt í lagi,“ en eru búin að biðja okkur að koma og fara með þau í neyðarvistun. Ég tek ekki þátt í slíku. Ég segi þeim einfaldlega að þau séu að fara í neyðarvistun, en þau ráði hvort það sé í góðu eða illu.“


„Ég hef aldrei logið að þeim, aldrei gabbað þau. Það er eitthvað sem ég ákvað í upphafi því ég vil halda traustinu."


Guðmundur gefur ekki mikið fyrir staðalímyndir sem eigi heima í huga margra.

„Eins og til dæmis að við séum að finna ungar stelpur heima hjá eldri mönnum og þar fram eftir götunum. Það er ekki lengur þó auðvitað það gerist einstaka sinnum. Eldri hópurinn sem er í neyslu er búinn að læra það að ef þau hleypa þessum yngri inn þurfi þau að eiga við mig. Það vilja þau ekki.“


Tvær ungar stúlkur í hættu

Aðspurður um erfiðustu reynsluna segir Guðmundur frá því þegar hann kom að íbúð sem virtist tóm en inn um glugga sá hann glitta í skó.

„Þá hafði 15 ára stelpa verið skilin eftir ein og meðvitundarlaus en ég gat komið henni undir læknishendur.

Annað tilfelli er þegar ég fann stelpu sem var svo lítil og grönn að það var búið að troða henni fyrir aftan sæti í bíl og setja úlpu yfir hana. Hún var meðvitundarlaus þegar ég fann hana.“


„Annað tilfelli er þegar ég fann stelpu sem var svo lítil og grönn að það var búið að troða henni fyrir aftan sæti í bíl og setja úlpu yfir hana. Hún var meðvitundarlaus þegar ég fann hana.“


Árið 2018 reið yfir mikið ópíóða æði hér á landi og fann Guðmundur þá fjögur ungmenni meðvitundarlaus inni á hótelherbergi eftir neyslu þeirra og mátti ekki tæpara standa.

„Þetta voru tvær stelpur undir lögaldri og tveir 18 ára strákar. Ég nánast fullyrði það að ef ekki væri fyrir þetta verkefni þá væru þær látnar. Önnur þeirra sat í stól meðvitundarlaus, þannig að höfuðið hafði dottið fram á bringu og hefti súrefnisflæði til heila.“

Gummi, manstu ekki eftir mér?


Guðmundur segir slíkar uppákomur reyna á en þær séu hluti af starfinu og eftir 35 ár í lögreglunni sé hann ýmsu vanur.

„En auðvitað er maður hræddur þar til maður finnur lífsmark. En sem betur fer, af þessum 330 krökkum hefur enginn látist undir 18 ára aldri þó tvö þeirra séu nú farin. Einn framdi sjálfsvíg fljótlega eftir 18 ára afmælið og annar lést af of stórum skammti 21 árs eftir að hafa verið edrú í langan tíma.

Markmiðið og mælikvarðinn var og er mannslífin því þessir krakkar voru að deyja hér áður.

Það hýrnar sannarlega yfir Guðmundi þegar hann er spurður hvort hann mæti krökkum sem komin eru á beinu brautina í dag.

„Ó já, það er gaman,“ segir hann hlæjandi. „Þegar maður er að mæta þeim úti á götu með barnavagn. Mörg þeirra eru vinir mínir á Facebook svo maður fær að fylgjast með lífi þeirra.

Í fyrravetur fór ég á ráðstefnu í Hörpu og þar var stelpa sem var hópstjóri í einu verkefnanna, hún brosti til mín en ég áttaði mig ekki strax. Hún kom þá til mín og spurði: „Gummi manstu ekki eftir mér?“ þá áttaði ég mig á því hver hún var – það var geggjað!“ segir hann og stoltið leynir sér ekki.


„Hún kom þá til mín og spurði: „Gummi manstu ekki eftir mér?“ þá áttaði ég mig á því hver hún var – það var geggjað!“


„Það er svo gaman að sjá þau ná fótfestunni og jafnvel krakka sem maður hafði ekki trú á að myndu gera það. En inn á milli eru líka krakkar sem eru í dag góðkunningjar lögreglunnar en sem betur fer eru þau ekki mörg. Þau jafnvel hafa samband við mig þegar þau eru komin í einhver vandræði og eru tilbúnari til að ég sæki þau en einhver annar.“

Í það minnsta til í að hlusta


Eins og heyra má hefur Guðmundur lag á að nálgast þessi börn og segist hann lítið reyna að vanda um fyrir þeim en bjóðist þó alltaf til að hjálpa.

„Ef ég get það á einhvern hátt og þó úrræðin séu ekki mörg er ég í það minnsta til í að hlusta.“

Guðmundur er ekki með leyninúmer og krakkarnir kunna númerið hans.

„Þau hafa stundum komið með þá afsökun að þau hafi ekki komist heim því þau missstu af síðasta strætó og svo framvegis. Þá hef ég sagt: „Hringdu þá frekar og ég sæki þig.“

En svo eru gullmolar inni á milli sem hafa hringt: „Hey, ég er í partýi, geturðu komið og skutlað okkur heim? Guðmundur segist stundum hafa sagt já en þegar hringt sé nokkra daga í röð bendi hann viðkomandi á að það gangi ekki.
„En þau hafa líka hringt ef þau sjá félaga sinn illa drukkinn eða illa vímaðan og vilja að ég komi honum heim. Þeim finnst það þá þægilegra en að hringja í 112 og fá merktan lögreglubíl og einkennisklædda löggu.“


„En þau hafa líka hringt ef þau sjá félaga sinn illa drukkinn eða illa vímaðan og vilja að ég komi honum heim. Þeim finnst það þá þægilegra en að hringja í 112 og fá merktan lögreglubíl og einkennisklædda löggu.“


Guðmundur segir að þó hann hafi aldrei séð fyrir sér að hann færi þessa leið í starfi gefi það honum mikið.

„Ég hef gaman af þessu starfi og á meðan ég fæ að gera þetta á þann hátt sem ég geri, fer ég ekki að gera neitt annað.“

Athugasemdir