„Því miður þá ákvað skipstjóri eftirlitsbáts Marglytta að fresta sundinu,“ segir Sigrún Þ. Geirsdóttir meðlimur Marglyttuhópsins í fréttatilkynningu. Marglytturnar stefndu á að hefja boðsund sitt yfir Ermasundið í nótt en hafa nú frestað því þar til klukkan fjögur í dag.

Að sögn skipstjórans hefur bæst í vindinn miðað við spánna í gærkvöldi. „Því er þessi veðurgluggi því miður búinn að lokast, nú er næsti gluggi seinni partinn í dag þó með sama fyrirvara, veðrið getur alltaf breyst, segir skipstjóri Rowen. 

Marglytturnar eflaust svekktar í nótt.

Vildu fara þrátt fyrir vindinn

 „Við vorum alveg í gírnum og tilbúnar að leggja af stað þrátt fyrir þennan vind, en svona er þetta með Ermarsundið, það eru margir áhrifaþættir. Við erum vongóðar að vind lægi og að við getum nýtt gluggann seinna í dag,“ segir Sigrún.

Marglytturnar hafa beðið undanfarna daga eftir hagstæðum skilyrðum til að leggjast til sunds en auk veðurs þurfa sjávarföll að vera hagstæð. Ermarsundið er oft kallað Everest sjósundsfólks en það er 34 km leið á milli borgarinnar Dover í Englandi og höfðans Cap Gris Nez í Frakklandi. Vegna strauma þá er vegalengdin sem synt er oft helmingi lengri. Áætlað er að boðsundið taki 16-18 tíma og mun hver og ein sundkona synda í eina klukkustund í senn í fyrir fram ákveðinni röð og því eru líkur á því að hver Marglytta syndi tvisvar til þrisvar.

Vekja athygli á plastmengun

Markmiðið með boðsundinu er að vekja athygli á áhrifum plastmengunar á lífríki sjávar en Marglyttur eru að safna áheitum fyrir umhverfisverndarsamtökin Bláa herinn. Landsmenn geta stutt Marglyttur í AUR appinu í síma 7889966 og með því að leggja inn á reikning 0537-14-650972, kt. 250766-5219

Hér má sjá Marglytturnar í Dover þar sem þær hafa beðið átekta síðustu daga.