Alma D. Möller landlæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að staðan sem við værum í núna með tilliti til Covid-19 væri áhyggjuefni. „Við þurfum að halda áfram að vera á varðbergi og skerpa á öllum þáttum sóttvarna og þeim aðgerðum sem eru í gangi."

Í gær greindust alls 39 ný smit innanlands og fimm einstaklingar eru inniliggjandi á Covid göngudeild Landspítalans, þar af einn í öndunarvél.

Róðurinn byrjaður að þyngjast innan heilbrigðiskerfisins

Þá segir Alma að róðurinn innan heilbrigðis- og velferðarkerfisins sé byrjaður að þyngjast, ekki síst á Landspítalanum en um þrjú hundruð starfsmenn spítalans eru ýmist í einangrun eða sóttkví.

„Það hefur þurft að fresta skurðaðgerðum og það auðvitað bagalegt en ekkert annað að gera í stöðunni eins og er. Það er augljóst að besta leiðin til að geta veitt þá heilbrigðisþjónustu sem við þurfum er að halda smitum niðri í samfélaginu og það hefur miklar afleiðingar að fá smit inn á sjúkrahús líkt og gerðist á Landspítalanum," segir Alma.

Hún segir þá að ekki hafi þurft að draga úr annarri heilbrigðisþjónustu að sér vitandi og hvetur fólk til að halda áfram að sækja sér heilbrigðisþjónustu hvort heldur er vegna líkamlegra eða geðrænna vandamála.

211 skráðir í bakvarðarsveitina

„211 einstaklingar hafa skráð sig í bakvarðarsveitina og helmingur þeirra hefur boðist til að sinna sjúklingum með Covid-19. Hinn helmingurinn býður sig fram til annarra starfa," segir Alma. Fólk sem býður sig fram þarf að merkja við hvar það geti starfað og getur valið ýmist heilsugæsluna, Landspítalann eða heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni.

Að sögn Ölmu hafa 55 einstaklingar sagt að þeir geti unnið hvar sem er en það vantar áfram í bakvarðarsveit í velferðarþjónustu á landsbyggðinni, bæði faglært og ófaglært fólk en þá sérstaklega hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða um allt land.