Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustjóri Hæstaréttar lætur af störfum í haust vegna aldurs. Hann hefur þá gegnt stöðunni í sautján ár. Staða hans hefur verið auglýst og sóttu 17 um stöðuna. Það er forseti Hæstaréttar sem skipar í stöðuna frá 1. ágúst næstkomandi til fimm ára. Þorsteinn hefur gegnt embættinu frá árinu 2004.

Meðal umsækjenda er Ólöf Finnsdóttir, framkvæmdarstóri dómstólasýslunnar, Karl Óttar Pétursson, fyrrverandi bæjarstjóri Fjarðarbyggðar, lögmennirnir Elvar Örn Unnsteinsson, Páll Eiríksson, Eva Margrét Ævarsdóttir og Margrét Gunnlaugssdóttir., Agnes Guðjónsdóttir, yfirlögfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Dagmar Sigurðardóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu og Skúli Þór Gunnsteinsson, lögfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu sem einnig er formaður nefndar um eftirlit með lögreglu.

Hafdís Helga sækir um

Þá er Hafdís Helga Ólafsdóttir, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, einnig meðal umsækjenda. Hafdís hafði nýverið betur í dómsmáli sem menntamálaráðherra höfðaði gegn henni til að fá ógildaða niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála í tengslum við skipun ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins. Menntamálaráðherra hefur áfrýjað málinu til Landsréttar.

EIns og Fréttablaðið greindi frá í gær er sambærileg staða í Landsrétti einnig laus en Björn L. Bergsson sem gegnt hefur starfi skrifstofustjóra Landsréttar frá stofnun réttarins var nýverið skipaður dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Tuttugu og þrír sóttu um embættið í Landsrétti en sautján um embættið í Hæstarétti. Níu sóttu um bæði embættin.

Umsækjendur um stöðu skrifstofustjóra Hæstaréttar

 • Agnes Guðjónsdóttir, yfirlögfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu
 • Birgir Hrafn Búason, yfirlögfræðingur hjá EFTA dómstólunum
 • Dagmar Sigurðardóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu
 • Dagrún Hálfdánardóttir, lögmaður og framkvæmdastjóri félags forstöðumanna ríkisstofnana
 • Elvar Örn Unnsteinsson, lögmaður
 • Erna Sigríður Sigurðardóttir, settur skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu
 • Eva Margrét Ævarsdóttir, lögmaður
 • Guðfinnur Stefánsson, aðstoðarmaður héraðsdómara
 • Hafdís Helga Ólafsdóttir, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu
 • Hilda Valdemarsdóttir, aðstoðarmaður hæstaréttardómara
 • Hildigunnur Guðmundsdóttir, í námi til löggildingar fasteigna- og skipasala og vinnur jafnframt á lögmannsstofu
 • Karl Óttar Pétursson, fyrrverandi bæjar- og hafnarstjóri
 • Katrín Helga Hallgrímsdóttir, skrifstofustjóri hjá Barnavernd Reykjavíkur
 • Margrét Gunnlaugsdóttir, lögmaður
 • Ólöf Finnsdóttir, framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar
 • Páll Eiríksson, lögmaður
 • Skúli Þór Gunnsteinsson, lögfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.