Lovísa Arnardóttir
lovisaa@frettabladid.is
Föstudagur 17. mars 2023
20.02 GMT

Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu og barna­vernd Reykja­víkur eru nú með til sér­stakrar skoðunar á­hættu­hegðun barna í tengslum við mynd­bönd þar sem má sjá ungmenni beita ofbeldi og slást.

Myndböndin eru í dreifingu á samfélagsmiðlum og eru á sér­stökum reikningi sem er stofnaður að­eins til dreifingar á slíku efni og má þar sjá ó­líka ein­stak­linga slást eða beita aðra of­beldi. Í mynd­böndunum má einnig sjá ung­menni fylgjast með, hlæja og taka at­hæfið upp.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Barna­verndar­nefnd Reykja­víkur hefur til­kynningum um á­hættu­hegðun ekki fjölgað sér­stak­lega undan­farin ár en slík hegðun myndi flokkast undir það. Á grafinu hér að neðan má sjá að um fimm þúsund slíkar til­kynningar berast í Reykja­vík á ári hverju en flestar berast þær frá lög­reglu, skóla­kerfinu, heil­brigðis­stofnunum og svo al­mennum borgurum.

Mynd/Barnavernd Reykjavíkur

„Við vinnum með mál­efni þeirra ung­linga sem eru á okkar borði eða sem koma til­kynningar um. En við erum líka í alls­kyns sam­starfs­hópum þar sem er verið að fást við for­varnar­vinnu og þar sem er verið að kort­leggja það sem er í gangi og hverjir eru hvar og hvar er hópa­myndun,“ segir Elísa Ragn­heiður Ingólfs­dóttir skrif­stofu­stjóri Barna­verndar Reykja­víkur.

Öll atvik skoðuð sameiginlega

Spurð um verslunar­mið­stöðvar og aðra staði þar sem hópa­myndun er oft segir hún barna­vernd og lög­reglu í góðu sam­starfi við öryggis­verði og stjórn­endur og það sé alltaf á­varpað komi upp ein­hver sér­stök at­vik.

Hún segir að ferill svona máls hjá þeim hefjist alltaf með til­kynningu sem þau svo taka af­stöðu til.

„Þetta myndi flokkast undir á­hættu­hegðun og við verðum að taka af­stöðu innan sjö daga frá til­kynningu hvort við hefjum könnun máls og þegar það er um að ræða al­var­lega of­beldis­hegðun er það oftast þannig að við hefjum könnun á máli barnsins,“ segir hún og þá sé rætt við barnið, for­eldra þess eða for­ráða­menn, og staða þeirra skoðuð nánar.

„Hvað getur verið að valda þessu og hvaða úr­ræði er hægt að nota til að bregðast við,“ segir hún og að stundum séu þessi ung­menni þegar skjól­stæðingar þeirra og að þá séu þau sett í þyngri barna­verndar­úr­ræði.

„Allt miðast þetta við það að taka höndum saman um þetta og vera í sam­vinnu,“ segir hún og nefnir skóla­yfir­völd, lög­reglu og aðra.

„Þessi mynd­bönd eru gríðar­lega ó­hugnan­leg og okkur finnst þetta graf­alvar­legt,“ segir hún og að það valdi þeim líka á­hyggjum hversu margir horfi á.

Fréttablaðið/Anton Brink

„Þetta er litið mjög al­var­legum augum og við eigum úr­ræði eins og Stuðla, MST-með­ferð og með­ferðar­heimili úti á landi. Ef barn er komið í svona al­var­lega á­hættu­hegðun í­trekað þá erum við að beita okkar mest í­þyngjandi úr­ræðum með mark­vissum hætti,“ segir hún og að mikið sé lagt upp úr sam­starfi við lög­regluna sem kallast Saman gegn of­beldi þar sem börnum sem verða vitni að of­beldi er boðin á­falla­tengd að­stoð hjá til dæmis sál­fræðingi.

Samtalið mikilvægt

Elísa segir mikil­vægt að for­eldrar og forráðamenn ræði slíka hegðun við börnin sín, án þess þó að þau séu að halda ræðu um það sem má og ekki má.

„Það er mikil­vægt að vera for­vitin og spyrja ung­linginn hvaða mynd­bönd þau hafi séð og gera þannig ráð fyrir að þau hafi séð þau. Að spyrja þau hvernig þeim leið að sjá mynd­böndin og hvort þau þekki ein­hvern sem hafi orðið vitni að þessu og þannig halda boð­leiðum opnum og hafa sam­band ef þau verða aftur vitni að ein­hverju svona. Þá eru þau búin að búa til bjarg­ráð með barninu sem þau geta leitað í til þess að fækka þeim sem horfa að­gerðar­laus á. Það skiptir mjög miklu máli,“ segir Elísa en í mörgum mynd­bandanna sem eru í dreifingu er stór hópur barna að fylgjast með.

„Það er mikil­vægt að koma þeim skila­boðum út að þau eigi ekki standa að­gerðar­laus. En auð­vitað getur líka verið ein­hver ótti hjá þeim. Það er mikil­vægt að taka það til greina.“


Það er mikil­vægt að vera for­vitin og spyrja ung­linginn hvaða mynd­bönd þau hafi séð og gera þannig ráð fyrir að þau hafi séð þau


Tekur tíma að loka síðunum

Elín Agnes Kristínar­dóttir er að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn hjá lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu og hefur tekið þennan mála­flokk að sér. Hún segir að það taki alltaf á­kveðin tíma að fá svona síðum lokuðum en síða sem hefur verið að birta slíkt efni í mars hefur verið til­kynnt til þeirra og er unnið að því að fá henni lokað.

Spurð um tíðni svona of­beldis segir hún lög­regluna ekki endi­lega greina aukningu en segir þau merkja breytingu hvað varðar það hvernig börnin skil­greina og meta of­beldið.

„Við höfum á­hyggjur af því hvernig ung­menni og ungt fólk skil­greina of­beldi. Þau eru kannski spurð hvort þau hafi beitt of­beldi og segja nei en svara því svo játandi að hafa kýlt eða sparkað. Það er ein­hver bjögun á því hvernig þau upp­lifa of­beldi og hvað er of­beldi. Það segir okkur að það sé eitt­hvað eins og það á ekki að vera.“

Elín Agnes Kristínardóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Mynd/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Horfa á myndböndin

Elín segir að þegar svona mál koma á borð lög­reglunnar þá skoði þau bæði ger­endur og þol­endur.

„Ger­endur geta verið margir. Þú getur verið gerandi bara að taka upp en það getur líka verið að þau séu þvinguð til þess. Það eru ó­trú­lega margir snerti­fletir á þessu og okkar nálgun er sú að við finnum hverjir eiga í hlut, kalla alla til og sýnum þeim svo mynd­bandið. Það er sýnt með for­eldrum og barna­vernd, og þolanda og geranda. Það er erfitt fyrir þá sem beita of­beldi og þá sem verða fyrir því, og þá sem eru á­horf­endur [e. Bystanders]. Sem eru í stóru myndinni ger­endur en geta auð­vitað verið þol­endur. Maður veit ekki af hverju þau eru að taka upp,“ segir Elín og að þess vegna geti þetta sam­tal oft orðið flókið.

„Maður veit ekki hvar krakkarnir standa en það er mjög mikil­vægt að hvetja þau til þess að taka af­stöðu gegn of­beldi,“ segir hún.

Breyttur og hraðari heimur

Elín segir að við lifum í breyttum heimi og að það sé þörf á auknu sam­tali for­eldra við börn um tækin sem þau eru að nota og sam­fé­lags­miðla. „Við lifum í ó­trú­lega hröðum heimi þar sem krakkar eru að tjá og skoða og eru miklu klárari en við full­orðna fólkið erum. Við erum bara enn að berjast við fjar­stýringuna á sjón­varpinu á meðan þau eru í hraðari heimi,“ segir Elín og hlær.

Hún segir að það sé þörf á að greina hvar, hverjir og við hvaða að­stæður þessu of­beldi er beitt og segir að það sé þörf á að auka þjónustu sam­fé­lags­lög­reglunnar.

Samfélagslögga lykilatriði

„Það er núna verið að bæta þessu við á allar stöðvar. Verk­efnið hefur verið lengi í Kópa­vogi en það eru tvær hjá mér. Það er fólkið sem við viljum að hafi tíma í að taka þessi verk­efni að sér og ég myndi vilja miklu meira fjár­magn og fólk til að geta sett meiri fókus á þessi verk­efni. Sam­fé­lags­lög­gurnar eru að vinna þetta á sínum vakta­vinnu­tíma. Þær fara inn á fé­lags­mið­stöðvarnar, í körfu­bolta og í há­degis­mat með krökkunum. Þau fara í spjall um staf­ræna heiminn og þetta skilar sér til okkar í til­kynningum,“ segir Elín og að þannig sé lög­reglan að fá upp­lýsingar sem þau hefðu annars ekki fengið.


Þau eru kannski spurð hvort þau hafi beitt of­beldi og segja nei en svara því svo játandi að hafa kýlt eða sparkað. Það er ein­hver bjögun á því hvernig þau upp­lifa of­beldi


„Við erum að byggja upp traust því við viljum vera sá aðili sem að krakkarnir geta snúið sér til ef þau upp­lifa eitt­hvað svona. Við erum að ná því en okkur vantar þetta á miklu stærri skala,“ segir hún en nú er unnið að því að koma upp sam­fé­lags­lög­gu líka á Hverfis­götuna.

„Þetta sýnir að það vantar meiri sam­skipti því það er hagur okkar allra ef við náum að ala upp örugga og á­nægða ung­linga. Það eru lík­legri ein­stak­linga til að eiga gott líf og það er okkar ósk að allir eigi það. Það er jafn­vel það sem er mest gefandi við það að vera lögga. Að hitta ein­hvern sem kannski var í erfið­leikum sem svo er komin með börn og nýtt líf. Það er fátt meira sem gleður en það,“ segir Elín að lokum.

Athugasemdir