Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og barnavernd Reykjavíkur eru nú með til sérstakrar skoðunar áhættuhegðun barna í tengslum við myndbönd þar sem má sjá ungmenni beita ofbeldi og slást.
Myndböndin eru í dreifingu á samfélagsmiðlum og eru á sérstökum reikningi sem er stofnaður aðeins til dreifingar á slíku efni og má þar sjá ólíka einstaklinga slást eða beita aðra ofbeldi. Í myndböndunum má einnig sjá ungmenni fylgjast með, hlæja og taka athæfið upp.
Samkvæmt upplýsingum frá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hefur tilkynningum um áhættuhegðun ekki fjölgað sérstaklega undanfarin ár en slík hegðun myndi flokkast undir það. Á grafinu hér að neðan má sjá að um fimm þúsund slíkar tilkynningar berast í Reykjavík á ári hverju en flestar berast þær frá lögreglu, skólakerfinu, heilbrigðisstofnunum og svo almennum borgurum.

„Við vinnum með málefni þeirra unglinga sem eru á okkar borði eða sem koma tilkynningar um. En við erum líka í allskyns samstarfshópum þar sem er verið að fást við forvarnarvinnu og þar sem er verið að kortleggja það sem er í gangi og hverjir eru hvar og hvar er hópamyndun,“ segir Elísa Ragnheiður Ingólfsdóttir skrifstofustjóri Barnaverndar Reykjavíkur.
Öll atvik skoðuð sameiginlega
Spurð um verslunarmiðstöðvar og aðra staði þar sem hópamyndun er oft segir hún barnavernd og lögreglu í góðu samstarfi við öryggisverði og stjórnendur og það sé alltaf ávarpað komi upp einhver sérstök atvik.
Hún segir að ferill svona máls hjá þeim hefjist alltaf með tilkynningu sem þau svo taka afstöðu til.
„Þetta myndi flokkast undir áhættuhegðun og við verðum að taka afstöðu innan sjö daga frá tilkynningu hvort við hefjum könnun máls og þegar það er um að ræða alvarlega ofbeldishegðun er það oftast þannig að við hefjum könnun á máli barnsins,“ segir hún og þá sé rætt við barnið, foreldra þess eða forráðamenn, og staða þeirra skoðuð nánar.
„Hvað getur verið að valda þessu og hvaða úrræði er hægt að nota til að bregðast við,“ segir hún og að stundum séu þessi ungmenni þegar skjólstæðingar þeirra og að þá séu þau sett í þyngri barnaverndarúrræði.
„Allt miðast þetta við það að taka höndum saman um þetta og vera í samvinnu,“ segir hún og nefnir skólayfirvöld, lögreglu og aðra.
„Þessi myndbönd eru gríðarlega óhugnanleg og okkur finnst þetta grafalvarlegt,“ segir hún og að það valdi þeim líka áhyggjum hversu margir horfi á.

„Þetta er litið mjög alvarlegum augum og við eigum úrræði eins og Stuðla, MST-meðferð og meðferðarheimili úti á landi. Ef barn er komið í svona alvarlega áhættuhegðun ítrekað þá erum við að beita okkar mest íþyngjandi úrræðum með markvissum hætti,“ segir hún og að mikið sé lagt upp úr samstarfi við lögregluna sem kallast Saman gegn ofbeldi þar sem börnum sem verða vitni að ofbeldi er boðin áfallatengd aðstoð hjá til dæmis sálfræðingi.
Samtalið mikilvægt
Elísa segir mikilvægt að foreldrar og forráðamenn ræði slíka hegðun við börnin sín, án þess þó að þau séu að halda ræðu um það sem má og ekki má.
„Það er mikilvægt að vera forvitin og spyrja unglinginn hvaða myndbönd þau hafi séð og gera þannig ráð fyrir að þau hafi séð þau. Að spyrja þau hvernig þeim leið að sjá myndböndin og hvort þau þekki einhvern sem hafi orðið vitni að þessu og þannig halda boðleiðum opnum og hafa samband ef þau verða aftur vitni að einhverju svona. Þá eru þau búin að búa til bjargráð með barninu sem þau geta leitað í til þess að fækka þeim sem horfa aðgerðarlaus á. Það skiptir mjög miklu máli,“ segir Elísa en í mörgum myndbandanna sem eru í dreifingu er stór hópur barna að fylgjast með.
„Það er mikilvægt að koma þeim skilaboðum út að þau eigi ekki standa aðgerðarlaus. En auðvitað getur líka verið einhver ótti hjá þeim. Það er mikilvægt að taka það til greina.“
Það er mikilvægt að vera forvitin og spyrja unglinginn hvaða myndbönd þau hafi séð og gera þannig ráð fyrir að þau hafi séð þau
Tekur tíma að loka síðunum
Elín Agnes Kristínardóttir er aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og hefur tekið þennan málaflokk að sér. Hún segir að það taki alltaf ákveðin tíma að fá svona síðum lokuðum en síða sem hefur verið að birta slíkt efni í mars hefur verið tilkynnt til þeirra og er unnið að því að fá henni lokað.
Spurð um tíðni svona ofbeldis segir hún lögregluna ekki endilega greina aukningu en segir þau merkja breytingu hvað varðar það hvernig börnin skilgreina og meta ofbeldið.
„Við höfum áhyggjur af því hvernig ungmenni og ungt fólk skilgreina ofbeldi. Þau eru kannski spurð hvort þau hafi beitt ofbeldi og segja nei en svara því svo játandi að hafa kýlt eða sparkað. Það er einhver bjögun á því hvernig þau upplifa ofbeldi og hvað er ofbeldi. Það segir okkur að það sé eitthvað eins og það á ekki að vera.“

Horfa á myndböndin
Elín segir að þegar svona mál koma á borð lögreglunnar þá skoði þau bæði gerendur og þolendur.
„Gerendur geta verið margir. Þú getur verið gerandi bara að taka upp en það getur líka verið að þau séu þvinguð til þess. Það eru ótrúlega margir snertifletir á þessu og okkar nálgun er sú að við finnum hverjir eiga í hlut, kalla alla til og sýnum þeim svo myndbandið. Það er sýnt með foreldrum og barnavernd, og þolanda og geranda. Það er erfitt fyrir þá sem beita ofbeldi og þá sem verða fyrir því, og þá sem eru áhorfendur [e. Bystanders]. Sem eru í stóru myndinni gerendur en geta auðvitað verið þolendur. Maður veit ekki af hverju þau eru að taka upp,“ segir Elín og að þess vegna geti þetta samtal oft orðið flókið.
„Maður veit ekki hvar krakkarnir standa en það er mjög mikilvægt að hvetja þau til þess að taka afstöðu gegn ofbeldi,“ segir hún.
Breyttur og hraðari heimur
Elín segir að við lifum í breyttum heimi og að það sé þörf á auknu samtali foreldra við börn um tækin sem þau eru að nota og samfélagsmiðla. „Við lifum í ótrúlega hröðum heimi þar sem krakkar eru að tjá og skoða og eru miklu klárari en við fullorðna fólkið erum. Við erum bara enn að berjast við fjarstýringuna á sjónvarpinu á meðan þau eru í hraðari heimi,“ segir Elín og hlær.
Hún segir að það sé þörf á að greina hvar, hverjir og við hvaða aðstæður þessu ofbeldi er beitt og segir að það sé þörf á að auka þjónustu samfélagslögreglunnar.
Samfélagslögga lykilatriði
„Það er núna verið að bæta þessu við á allar stöðvar. Verkefnið hefur verið lengi í Kópavogi en það eru tvær hjá mér. Það er fólkið sem við viljum að hafi tíma í að taka þessi verkefni að sér og ég myndi vilja miklu meira fjármagn og fólk til að geta sett meiri fókus á þessi verkefni. Samfélagslöggurnar eru að vinna þetta á sínum vaktavinnutíma. Þær fara inn á félagsmiðstöðvarnar, í körfubolta og í hádegismat með krökkunum. Þau fara í spjall um stafræna heiminn og þetta skilar sér til okkar í tilkynningum,“ segir Elín og að þannig sé lögreglan að fá upplýsingar sem þau hefðu annars ekki fengið.
Þau eru kannski spurð hvort þau hafi beitt ofbeldi og segja nei en svara því svo játandi að hafa kýlt eða sparkað. Það er einhver bjögun á því hvernig þau upplifa ofbeldi
„Við erum að byggja upp traust því við viljum vera sá aðili sem að krakkarnir geta snúið sér til ef þau upplifa eitthvað svona. Við erum að ná því en okkur vantar þetta á miklu stærri skala,“ segir hún en nú er unnið að því að koma upp samfélagslöggu líka á Hverfisgötuna.
„Þetta sýnir að það vantar meiri samskipti því það er hagur okkar allra ef við náum að ala upp örugga og ánægða unglinga. Það eru líklegri einstaklinga til að eiga gott líf og það er okkar ósk að allir eigi það. Það er jafnvel það sem er mest gefandi við það að vera lögga. Að hitta einhvern sem kannski var í erfiðleikum sem svo er komin með börn og nýtt líf. Það er fátt meira sem gleður en það,“ segir Elín að lokum.