Fanndís Birna Logadóttir
fanndis@frettabladid.is
Laugardagur 25. júlí 2020
07.00 GMT

„Eitt af því sem ég legg upp úr er að vinna með stelpum og vinna við að hjálpa ungum konum að átta sig á þeim hæfileikum sem þær hafa fram að færa,“ segir Silja Bára um starf sitt hjá Háskóla Íslands og bætir við að mörgum konum hafi verið kennt frá ungum aldri að þær eigi frekar að draga úr eigin getu, heldur en að viðurkenna hana.

„Ég lít á það sem mitt hlutverk í lífinu að berja fullkomnunaráráttu úr ungum konum,“ segir hún fremur létt í bragði og minnist þess að þegar hún kom inn í deildina, hafi margir nemendur aldrei áður séð kvenkynskennara þar.

„Þannig að ég velti líka bara fyrir mér þessum fyrirmyndaráhrifum. Núna erum við orðnar fjórir prófessorar við deildina, þá allt í einu sjá stelpur, eða ég vona að stelpur sjái, að þetta sé leið sem er fær og aðgengileg.“

„Eitt af því sem ég legg upp úr er að vinna með stelpum og vinna við að hjálpa ungum konum að átta sig á þeim hæfileikum sem þær hafa fram að færa.“

Fór óvænt að kenna

„Ég datt svolítið inn í þetta,“ segir Silja Bára um kennsluna. „Ég flutti heim frá Bandaríkjunum árið 2003 og hafði þá verið úti í rúmlega áratug,“ segir Silja, sem hafði þá ekki starfað á Íslandi síðan hún var undir tvítugu.

Hún hafði því ekki miklar tengingar né meðmæli til að vísa til hér á landi og flutti út á land og fékk starf hjá Jafnréttisstofu, þar sem hún vann í rúm tvö ár. Hún var þó alltaf opin fyrir nýjum tækifærum og hafði sent út ferilskrár á nokkra staði.

Meðan Silja Bára var búsett á Akureyri ákvað hún að taka nokkra áfanga um íslensk stjórnmál og stjórnsýslu og það var þá sem Margrét Björnsdóttir, sem er í dag verkefnisstjóri innan stjórnmálafræðideildar, benti henni á mögulegt tækifæri við deildina.

„Þá mundi hún eftir að hafa séð ferilskrána mína og segir: „Heyrðu, ert þú ekki þessi sem er með alþjóðasamskiptin? Okkur vantar fólk til að kenna, við erum búin að skipuleggja nýtt nám sem við erum að fylla í og það er eitthvað af þessu sem þú gætir kennt,“ og þannig dett ég í rauninni inn sem stundakennari til að byrja með,“ segir Silja en samhliða kennslunni var hún áfram í fullu starfi á Akureyri.

„Síðan vatt þetta upp á sig og það losnaði starf við Alþjóðamálastofnun. Ég var ráðin þangað og var forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar í önnur tvö eða þrjú ár og alltaf að kenna með.“ Hún fór síðan yfir í aðjúnktsstöðu, en markmiðið var alltaf að klára doktorsnámið svo hún gæti orðið lektor.

Fór krókaleið að stöðunni

Silja Bára kláraði doktorsnámið 2017 og var ráðin í stöðu lektors 2018. Hún segist lengi hafa þráð stöðu prófessors og að það hafi verið ákveðin viðurkenning að hljóta stöðuna. „Það eina leiðinlega við að skipta yfir er að kenna minna, mér finnst kennslan ótrúlega skemmtileg,“ segir Silja og hlær.

Leiðin að stöðunni hafi þó verið allt annað en auðveld. „Ég fór mikla krókaleið að þessu. Í raun og veru hætti ég í doktorsnámi úti í Bandaríkjunum, bæði þá dó leiðbeinandinn minn og ég varð fyrir líkamsárás, og það var bara orðið svolítið mikið af áföllum í samhengi við það,“ segir hún. „Þannig að ná að klára þetta líka er frekar mikilvægt fyrir mig.“

Silja hefur mikið rannsakað stöðu kvenna á alþjóðavettvangi og setið í ófáum stjórnum samtaka sem berjast fyrir jafnrétti kynjanna. Hún er formaður Jafnréttisráðs og segist aðspurð ætla að beita sér, sem prófessor, fyrir auknu jafnrétti.

Óhrædd við að hafa skoðanir

Silja Bára hefur samhliða kennslunni verið áberandi sem álitsgjafi í fjölmiðlum, ekki síst þegar alþjóða stjórnmál og þá helst bandarísk, eru annars vegar. Sjálf segist hún vera óhrædd við að segja sína skoðun, hvort sem það er í kennslustofunni eða á opinberum vettvangi.

Silja Bára ætlar sem prófessor að beita sér fyrir auknu jafnrétti.
Fréttablaðið/Ernir

„Ég lít ekki á hlutleysi sem eftirsóknarverðan kost. Hlutlægni, það er að segja að taka gögnin sem liggja fyrir og meta þau, það er eitthvað sem skiptir mig máli.“ Hvað skoðun hennar á bandarísku stjórnkerfi varðar, segir hún að sýn hennar á bandarísk stjórnmál litist ekki aðeins af því að hún sé Íslendingur, heldur einnig að hún sé femínisti.

„Íslenskt stjórnmálakerfi liggur töluvert meira til vinstri heldur en bandarískt kerfi. Staða jafnréttismála er auðvitað gerólík í þessum samfélögum, sérstaklega þegar kemur að stjórnmálum, og sú orðræða sem tíðkast í Bandaríkjunum er oft alveg ótrúlega afturhaldssöm,“ segir Silja og bætir við að ýmsir hlutir sem Bandaríkjamenn telja vera í lagi, væru óásættanlegir fyrir Íslendinga.

Þá fer hún hvergi leynt með að hún er ekki aðdáandi Donalds Trump Bandaríkjaforseta.

„Auðvitað hef ég skoðanir alveg eins og flestir aðrir. Það er ekki mjög mikið jákvætt sem Trump hefur gert og eins og ég segi, verandi Íslendingur og komandi úr velferðarsamfélagi, þá eru það hlutirnir sem fara gegn því sem mér finnst óþægilegir, við hvernig hann er að vinna.“

Þá sé henni erfitt, sem alþjóðastjórnmálafræðingi, að horfa upp á leiðtoga stórveldis draga ríki sitt út úr alþjóðastofnunum.

Hillary Clinton tapaði forsetakosningunum árið 2016, þrátt fyrir að hafa fengið töluvert fleiri atkvæði.
Fréttablaðið/AFP

Silja Bára bendir á að þar sem hún leiti alltaf í gögnin, hafi hún sem fræðimaður talið að Hillary Clinton myndi sigra forsetakosningarnar 2016. Vegna þess að gögnin bentu til þess, sem rættist síðan ekki. Hún segir allt geta gerst þegar hún er spurð út í komandi kosningar þar sem Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrata, mælist sterkari í könnunum.

„Það voru allir svo sannfærðir um að tölurnar [fyrir kosningarnar árið 2016] væru sannar, að þær væru spádómur, en ekki líkindi. Þannig að maður reynir bara að halda sig við gögnin,“ segir hún og áréttar að þó að gögnin séu mjög afgerandi núna, séu þau ekki spádómur. „Kosningarnar eru ekki fyrr en eftir þrjá mánuði og það er ýmislegt sem getur breyst, og það getur breyst mjög hratt.“

Kallað eftir breytingum

Einn helsti þátturinn sem kemur til með að hafa áhrif á kosningarnar er efnahagsmál, en vegna COVID-19 heimsfaraldursins hefur samdráttur verið í efnahag Bandaríkjanna og töluvert er um atvinnuleysi.

„Áður en að kórónaveirufaraldurinn gekk yfir, þá voru efnahagsmálin þannig í Bandaríkjunum að það voru bara sterkar líkur á því að hann myndi ná endurkjöri,“ segir Silja um Trump.

„Það eru enn þá stuðningsmenn Repúblikana sem að telja að fólk muni muna, þegar kemur að kosningum, að ástandið hafi verið gott og muni verðlauna það, sem er alveg möguleiki, en reynslan og mynstrið í kosningum hingað til styður ekki þá ályktun.“

Annað atriði sem mun eflaust hafa áhrif er ákall samfélagsins, þá sérstaklega Black Lives Matter- hreyfingin sem braust út eftir að George Floyd lést eftir að lögreglumaður kraup á hálsi hans við handtöku í maí. Í kjölfarið hefur fólk víðs vegar í Bandaríkjunum vakið athygli á kerfisbundinni mismunun gegn svörtum og barist fyrir breytingum í samfélaginu. Sú barátta gæti leitt af sér betri kosningaþátttöku, sem Silja segir vera lykilatriði þegar kemur að niðurstöðum kosninga.

Black Lives Matter hreyfingin gæti leitt af sér betri kosningaþátttöku.
Fréttablaðið/AFP

„Mér fannst rosalega áhrifamikið þegar bróðir George Floyd mætti til Minneapolis og ávarpaði mótmælendahóp sem var í eyðileggingarfasa, það var að rífa og brjóta og bramla, og hann segir; „Ekki gera þetta, ekki eyðileggja. Skráið ykkur frekar til að kjósa. Mætið á kjörstað til að breyta einhverju til framtíðar.“

Að geta tekið persónulegan harmleik og sett hann í það samhengi að hann sýni kerfislægar aðstæður sem að þarf að breyta með tækjum valdsins.“

Ýmislegt breyst síðan síðast

Aðspurð um hvað skilji þessar kosningar frá kosningunum árið 2016 segir Silja að vissulega spili kóróna­veirufaraldurinn og Black Lives Matter-hreyfingin inn í myndina, en ýmislegt annað sé sömuleiðis að baki.

„Árið 2016 erum við auðvitað að koma út úr því að fyrsti svarti maðurinn hafi verið forseti Bandaríkjanna og það er kona í framboði, þannig að þú ert með bakslag, rétt eins og þegar kona varð forseti hér, þá varð þetta svona: „Já, já nú þarf ekki að vera kvenforseti aftur í 30 ár,“ svona þannig stemning.“

Einnig hafi kerfislægar breytingar orðið í Bandaríkjunum á þessum tíma og því hafi margir upplifað að hvítum hafi verið gert erfiðara uppdráttar í samfélaginu. „Það skapast spenna milli kynþátta, að einhverju leyti, sem Trump síðan nýtir sér. Hann dregur fram þennan hóp. Síðan virkjast líka einhver ákveðinn hópur sem nær að stilla Clinton upp sem óvini.“


„Það skapast spenna milli kynþátta, að einhverju leyti, sem Trump síðan nýtir sér. Hann dregur fram þennan hóp.


Þar sem Biden hefur ekki komið jafn oft opinberlega fram og hann gerði fyrir faraldurinn, hefur Trump aftur á móti ekki fengið eins mörg tækifæri til þess að mála Biden sem ákveðinn óvin.

„Það dregur úr krafti Trumps í raun og veru, að Biden sé ekki út um allt. Biden er mjög óheppinn í orðalagi, þannig að það er mjög heppilegt að hann sé ekki mikið að spinna út um allar trissur,“ segir Silja, en hún segir Trump þrífast á því að hæðast að öðrum og sú aðferð virki á ákveðinn hóp sem valdatákn.

„Núna er Biden ekki að gefa honum nein skotfæri og það auðvitað vekur líka spurningar um stefnu Trumps, ef hann hefur ekkert fram að færa annað en að pota í andstæðinga, þá gæti það vakið spurningar um hvort þetta sé veikt framboð.“

Hefði viljað sjá kynslóðaskipti

Þrátt fyrir að Silja Bára sé ekki aðdáandi Trumps þá segist hún ekki hafa talið að Biden væri besti kosturinn til þessa gegn Trump, heldur hafi hann frekar verið ákveðin lending.

„Ég var ekkert sérstaklega hrifin af Biden sem frambjóðanda, mér fannst hann ekki heillandi árið 2008 og ekkert frekar núna. Hann er náttúrulega með rosalega langa sögu í stjórnmálum, margt sem er hægt að setja spurningarmerki við, en hann hefur líka reynt að sýna fram á að hann hafi breyst.“

„Maður hefði verið til í að sjá aðeins meiri kynslóðabreytingu, að hugsa lengra til framtíðar og einhvern sem gæti haft áhrif á flokkinn til lengri tíma eftir valdatímann,“ segir hún, en bætir þó við að það verði áhugavert að sjá hvern Biden tekur með sér sem varaforseta, sjálfur hefur hann gefið út að það verði kona og hafa nöfn nokkurra stjórnmálakvenna verið nefnd sem mögulegra kandídata.

Margir telja að Biden muni velja svarta konu með sér og hafa þar konur á borð við Kamölu Harris, Val Demings og Stacey Abrams verið nefndar á nafn. Þá hefur það einnig vakið athygli að Biden hafi staðfest að hann komi til með að taka konu með sér, þar sem þó nokkrir telja að Biden gæti látist meðan hann situr í embætti, ef hann á annað borð sigrar kosningarnar. Þannig gæti það atvikast að Bandaríkjunum verði í fyrsta sinn stjórnað af konu.

Það mun einnig bæta upp fyrir aldur Biden, ef hann tekur með sér manneskju sem táknar ákveðna framtíð. „Obama stillti þessu auðvitað öfugt upp, verandi ungur og segja ég ætla að taka reynsluna með mér og hafa Biden í eyranu; „Þið getið treyst mér af því að hérna er karlinn úr kerfinu sem að kann þetta allt saman.“ En þá er Biden að segja öfugt, að hann sé með framtíðina við hliðina á sér,“ segir Silja.

Gæti neitað að virða úrslit

Líkt og áður hefur komið fram stendur Biden betur heldur en Trump eins og staðan er í dag, en Trump vakti athygli fyrr í vikunni þegar hann neitaði að svara því hvort hann kæmi til með að virða úrslit kosninganna, þar sem hann telur skoðanakannanir vera falsaðar og er viss um að hann muni sigra. Ef Biden sigrar og Trump neitar að virða úrslitin, verður það í fyrsta sinn í sögu Bandaríkjanna sem það gerist.

„Hann hefur auðvitað sýnt vilja til þess að brjóta alls konar fordæmi og ganga gegn því sem er svona viðtekin venja og það sem fólk hefur talið vera jafnvel gildandi lög, þó þau séu ekki skrifuð. Ef þetta verður raunin þá erum við bara að tala um átök. Þá erum við komin á einhvern mjög skrýtinn stað,“ segir Silja, um hvað myndi gerast ef það færi svo að Trump afneitaði úrslitunum.

Erfitt verk fyrir höndum

Óháð því hvor sigrar er ljóst að það verður áfram klofningur innan Bandaríkjanna. „Ef Trump vinnur aftur þá erum við að horfa á lengri tíma afleiðingar innanlands og utan, það er þessi herta innflytjendalöggjöf, til dæmis, sem að getur komið gríðarlega illa niður á vísindastarfi í Bandaríkjunum og það getur komið illa niður á landbúnaði í Bandaríkjunum,“ segir Silja og bætir við að ef Bandaríkin dragast aftur úr í vísindastarfi þá væru þau að missa forystu sína að mörgu leyti.

„Ef þau síðan halda áfram að draga sig út úr alþjóðastofnunum þá eru þau líka að missa mjúka valdið sem að er þar, og þar með tækifæri til þess að hafa áhrif. Þannig að þú ert að tala um ríki sem er bara að fara í svipaðan einangrunarfasa og Bandaríkin gerðu eftir fyrri heimsstyrjöldina.“

Sigri Biden aftur á móti, telur Silja að hægt verði að vinda ofan af úrsögnum ríkisstjórnarinnar og bæta samskipti við alþjóðastofnanir og önnur ríki. Þá muni Biden vera reiðubúinn til þess að taka á kröfum um samfélagslegar breytingar, eitthvað sem mun ekki gerast ef Trump verður áfram forseti. Á móti kemur að Trump er þegar farinn að ýja að því að hann muni ekki virða úrslitin, sem gæti orðið til frekari átaka.

„Síðan er bara spurning hvort Bandaríkin þurfi bara að skipta sér upp og vera bara tvö ólík ríki.“

„Svo er auðvitað stórt verkefni að koma hagkerfinu aftur í gang. Eins og í flestum löndum þá hefur þessi faraldur sýnt bresti ríkja og í Bandaríkjunum er það auðvitað brestur að þegar það er ekki velferðarkerfi og fólk á á hættu að missa heimili sín eftir tveggja mánaða atvinnuleysi, að þá er eitthvað töluvert mikið að.“

Því er um gríðarlega mikilvægt verkefni að ræða, hvort sem Trump eða Biden sigrar. Aðspurð um sína skoðun á framtíð Bandaríkjanna og hvort mögulegt sé að lagfæra þann klofning sem hefur átt sér , segir hún að Bandaríkjamenn gætu verið að sjá fram á mjög slæmt ástand. „Síðan er bara spurning hvort Bandaríkin þurfi bara að skipta sér upp og vera bara tvö ólík ríki.“

Athugasemdir