Byrlanir hafa verið til mikillar umræðu síðustu misseri, en um helgina var lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynnt um fjögur mál sem áttu sér stað aðfaranótt sunnudags þar sem grunur er um byrlun. Fjallað var um málið í Fréttavaktinni í kvöld.

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir ekki algengt að lögreglunni sé tilkynnt um svona mörg mál á einni nóttu. Þó þurfi að skoða tíðnina yfir lengra tímabil.

„Það eru ýmis lyf sem eru notuð, en þau algengustu eru smjörsýra og rohypnol,“ segir Halla, sem segist þó ekki vita til þess að lögregla hafi gert slík slík lyf upptæk undanfarið.

Hún segir að lögregla eigi til einhverja tölfræði um byrlunarmál, en bendir á að ekki öll þeirra fari á borð lögreglu. „Þessi mál eru alvarleg, og við lýtum alvarlega á þau. Við höfum verið að taka vel utan um þau, meðal annars með þessu verklagi,“ segir Halla og vísar til samstarfs lögreglunnar við bráðamóttökuna.

Aðspurð út í hvort lögregluþjónar væru sérstaklega þjálfaðir til að takast á við byrlunarmál sagði Halla: „Þegar það kemur upp mál þar sem grunur er um byrlun, þá fer það í vissan farveg.“ Auk þess segir að hún að blóðsýni séu tekin í öllum þeim málum þar sem grunur er um byrlun.

Fælingarmáttur fyrir gerendur

„Byrlanir hafa verið vandamál mjög lengi í miðbænum, í fleiri ár. Við opnun staðarins var tekin sú ákvörðun að taka strax fyrir það og reyna að tækla þetta eftir bestu getu, gera sem sagt allt sem skemmtistaður getur til að koma í veg fyrir svona mál,“ segir Kolbrún Birna Bachman, lögfræðingur og forvarnarfulltrúi Bankastræti Club.

Hún segir að verklag staðarins í byrlunarmálum snúist um að allt starfsfólk sé þjálfað og viti af einkennum byrlunar, og þá séu fjöldi öryggismyndavéla á staðnum. Auk þess segir Kolbrún að öll mál séu skráð og tilkynnt til lögreglu, þannig að ef að mál fari í kæruferli þá geti staðurinn lagt sitt að mörkum.

„Það er ákveðinn fælingarmáttur fyrir gerendur að vita að við erum með aukið eftirlit og við munum fara yfir efni úr myndavélum.“ segir hún.

Kolbrún biðlar til fólks að afskrifa hegðun fólks ekki endilega sem ofurölvun.
Fréttablaðið

Spurð út í hvað beri að varast með tilliti til byrlunar þegar fólk fari út á lífið segir Kolbrún: „Auðvitað vill maður ekki vera að benda fólki á að passa drykkinn sinn, en í málum sem þessum er það auðvitað það eina sem þú getur gert sem einstaklingur. En líka það að vera vakandi fyrir fólkinu í kringum þig, og afskrifa ekki allt sem einhverja ofurölvun. Heldur átta sig á því þegar fólk er orðið stjórnlaust og veit ekki hvar það er, og grípa í starfsmann eða hringja á lögregluna í þeim tilfellum þar sem þess þarf.“

Hægt er að horfa á innslagið úr Fréttavaktinni hér fyrir neðan.