Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands, telur að maðurinn sem pyntaði og drap skógarþröst fái að öllum líkindum bara viðvörun fyrir athæfið.

„Þetta er klárlega dýraníð, ekki spurning. Það sem er sláandi við þetta mál er að við erum að fást við einstaklinga í okkar samfélagi sem eru ekki venjulegir. Það er eitthvað sem gerir það að verkum að þessum manni finnst eðlilegt að gera þetta á meðan almenningur bregst mjög harkalega við þessu,“ sagði Hallgerður í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Aðspurð segir Hallgerður samfélagsmiðla spila stór hlutverk í að koma upp um dýraníð á Íslandi. „Þó það sé ekki gaman að horfa á svona myndbönd þá eru þau nauðsynleg til að koma upp um svona.“

Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands.
Fréttablaðið/Gunnar V. Andrésson / GVA

Fréttablaðið greindi frá því síðustu helgi að íslenskur karlmaður á fertugsaldri hafi deilt myndbandi af sér að stinga skógarþröst ítrekað með hníf á Instagram.

Á myndbandinu má sjá að maðurinn er með tvo ketti á heimili sínu og telur Hallgerður nauðsynlegt að fjarlægja þá af heimili mannsins.

„Í þessu máli, af því að það á alltaf að beita vægustu úrræðum fyrst, fær þessi maður væntanlega einhvern séns,“ sagði hún.

Sagðist hún ósátt við hvað úrræði á Íslandi séu mild, sérstaklega í málum sem þessum þar sem það blasir við að maðurinn eigi ekki að hafa dýr á heimili sínu.

Tveir kettir eru á heimili mannsins.
Myndir: Skjáskot