Sig­ríður Gísla­dóttir leiðir tíma­móta­verk­efnið Okkar heimur á vegum Geð­hjálpar en verk­efninu er ætlað að vera skjól og stuðningur fyrir börn for­eldra með geð­rænan vanda. Hún segist alltaf hafa vitað að hún myndi láta til sín taka í þessum mála­flokki.

„Ég veit hve­nær ég á­kvað það. Ég var 17 ára og búin að vera í þessum erfið­leikum með mömmu allt mitt líf,“ segir Sig­ríður sem ólst upp á­samt þremur syst­kinum hjá al­var­lega veikri móður og upp­lifði full­komið sinnu­leysi heil­brigðis­kerfis og þeirra er ættu að sinna vel­ferð barna.

„Allar þessar rann­sóknir eru til auk þess sem að gerðar voru laga­breytingar árið 2019 um börn sem að­stand­endur. Það var í raun og veru gert til þess að fag­aðilar veiti þessum börnum stuðning og fræðslu. Nú er árið 2021 og ég get lofað þér því að þessi lög eru brotin dag­lega. Það er fullt af heil­brigðis­starfs­fólki sem hefur ekki einu sinni hug­mynd um til­vist þeirra. Það er mér í raun hulin ráð­gáta hvers vegna staðan er enn svona.“

„Það hefur verið að sannað að 70 prósent barna sem alast upp hjá for­eldrum með geð­rænan vanda veikjast sjálf þegar komin á full­orðins­aldur en hægt sé að minnka líkur á því til muna með því að veita þeim að­stoð snemma. Ef maður hugsar bara um peninga þá er þetta hrika­lega dýrt fyrir heil­brigðis­kerfið,“ segir Sig­ríður og bætir við að hún hafi oft velt því fyrir sér hvort for­dómar gagn­vart fólki með geð­rænan vanda færist að ein­hverju leyti yfir á börn þeirra og það skýri úr­ræða­leysið.