Áslaug Björgvinsdóttir lögmaður og héraðsdómararnir Ástráður Haraldsson, Kjartan Bjarni Björgvinsson og Skúli Magnússon gefa kost á sér í embætti umboðsmanns Alþingis, en Tryggvi Gunnarsson tilkynnti í febrúar síðastliðnum að hann hyggist fara á eftirlaun eftir rúma tvo áratugi í embætti.

Nýr umboðsmaður tekur til starfa 1. maí næstkomandi en Alþingi kýs umboðsmann lögum samkvæmt.

Undirnefnd forsætisnefndar Alþingis sem er skipuð Steingrími J. Sigfússyni, Guðjóni S. Brjánssyni og Bryndísi Haraldsdóttur, hefur gengið frá skipan ráðgjafarnefndar sem ætlað er að vera undirnefndinni til aðstoðar við að gera tillögu um einstakling sem forsætisnefnd tilnefnir við kosningu í embættið, en umboðsmaður er kjörinn á þingfundi.

Eftirtaldir sérfræðingar skipa ráðgjafarnefndina: Helgi I. Jónsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, sem er jafnframt formaður nefndarinnar, Herdís Pála Pálsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og mannauðsstjóri Deloitte, og Kristín Benediktsdóttir, dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Starfsmaður nefndarinnar er Heiðrún Pálsdóttir, ritari forseta Alþingis.

Undirnefnd forsætisnefndar og ráðgjafarnefndin starfa samkvæmt verklagsreglum sem forsætisnefnd hefur sett og gilda um undirbúning fyrir kosningu umboðsmanns og ríkisendurskoðanda.

Öll með dómarareynslu

Áslaug Björgvinsdóttir lét af embætti dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur árið 2015. Hún hefur síðan þá verið afar gagnrýnin á starfshætti innan dómskerfisins. Hún er starfandi lögmaður í dag.

Ástráður Haraldsson er dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Hann hefur ítrekað sóst eftir embætti dómara við Landsrétt en hann er einn umsækjenda sem fengið hefur bætur frá ríkinu vegna Landsréttarmálsins.

Kjartan Bjarni Björgvinsson er einnig dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur en er tímabundið settur umboðsmaður Alþingis við hlið Tryggva Gunnarssonar, sem vinnur nú að gerð námsefnis í stjórnsýslurétti fyrir opinbera starfsmenn.

Skúli Magnússon hefur verið dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur frá árinu 2004. Hann var skipaður dómstjóri við réttinn í síðustu viku.