Tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands 2019 voru tilkynntar í dag en verðlaunin eru árlega veitt hönnuði, arkitekt, hönnunarteymi eða stofu fyrir framúrskarandi ný verk; einstakan hlut, verkefni eða safn verka. Hönnunarmiðsöð Íslands stendur að verðlaununum.

Þeir sem hlutu tilnefningu í ár eru eftirfarandi:

Wave frá Genki instruments

„Wave er hringur hannaður af Genki instruments sem ætlað er að auka upplifun og túlkun í tónlist,“ segir í tilkynningu Hönnunarmiðstöðvar.

Lauf fyrir True grit

„True grit er nýtt malarhjól sem byggir á hönnun Lauf forks á léttasta hágæða demparagaffli í heimi. Gaffallinn sem hefur rutt brautina fyrir hönnun reiðhjóla undir vörumerki Lauf.

Mynd/Lauf

Heima eftir Búa Bjartmar og Unicef

„Heima er áhugavert hönnunarverkefni sem skoðar móttöku flóttabarna í leit að alþjóðlegri vernd frá sjónarhóli barnanna.

Listasafnið á Akureyri, Kurt og pí arkitektastofa

„Með hönnun nýrrar viðbyggingar við Listasafnið á Akureyri hefur orðið til nýtt kennileiti í borgarlandslagi Akureyrar.

Endurmörkun - Þjóðminjasafnið, Jónsson & Le’macks

„Hönnun og endurmörkun Þjóðminjasafns Íslands er einföld og látlaus en um leið glæsileg lausn á heildarásýnd stofnunar sem snertir alla landsmenn.”

Hönnunarverðlaun íslands eru peningaverðlaun að upphæð 1.000.000 krónur, sem hafa verið veitt af ráðherra ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunar.

Hönnuðir þurfa að vera félagar í einu af aðildarfélögum Hönnunarmiðstöðvar Íslands eða fagmenn á sínu sviði til að hljóta verðlaunin.

Hönnunarverðlaun Íslands 2019 fara fram þann 14. nóvember næstkomandi og málþing þeim tengt.

Í dómnefnd sitja Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, hönnuður, Sigrún Birgisdóttir, arkitekt og deildarforseti hönnunar og arkitektúrdeildar LHÍ, Hörður Lárusson, grafískur hönnuðu, Sigrún Halla Unnarsdóttir, fatahönnuður, Daniel Golling, sýningarstjóri sænska arkitektúrsafnsins og Edda Björk Ragnarsdóttir, lögfræðingur og viðskiptastjóri á hugverkasviði Samtaka iðnaðarins.

Sjá má nánari útlistun á tilnefningum Hönnunarmiðstöðvar hér.