Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir stéttarfélagið vera á fullu að ákveða og framkvæma næstu skref í máli Ólafar Helgu Adolfsdóttur. Ólöfu var sagt upp störfum í ágúst síðastliðinn en hún var trúnaðarmaður hlaðdeildar Icelandair.
Icelandair hefur sagst vera ósammála túlkun Eflingar á efnisatriðum málsins, svo sem það að viðkomandi starfsmaður hafi verið trúnaðarmaður þegar til uppsagnar kom, eins og kom fram í svari fyrirtækisins við fyrirspurn Fréttablaðsins á þriðjudag.
Í viðtali við Morgunblaðið sem birtist í morgun segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, að fyrirtækið hafi farið eftir lögum og kjarasamningum sem einnig eigi við um lög sem kveða um vernd trúnaðarmanna.
Skora á Icelandair að draga uppsögnina til baka
„Þetta eru náttúrulega bara algjörlega fráleitar fullyrðingar,“ segir Sólveig Anna í samtali við Fréttablaðið.
„Eins og við höfum sagt, eins og Ólöf hefur sagt, og eins og gögn sýna fram á, þá var ekki aðeins full vitneskja um það að Ólöf væri trúnaðarmaður heldur var svo mikil vitneskja um það að fyrirtækið var í samskiptum við hana sem slíkan,“ segir Sólveig. „Hún var ávörpuð sem trúnaðarmaður í þeim samskiptum og það eru tölvupóstar sem sýna fram á það.“

Vinnueftirlitið hefur staðfest að Ólöf hafi verið skráð öryggistrúnaðarmaður á þeim tíma sem henni var sagt upp.
Lögmaður Eflingar sendi Icelandair bréf, 1. og 13. september, þar sem skorað var á fyrirtækið að draga uppsögn Ólafar til baka, samkvæmt vefsíðu stéttarfélagsins. Þeim barst svar frá lögmanni Samtaka atvinnulífsins þar sem áskoruninni var hafnað. Hlaðmenn á Reykjavíkurflugvelli sendu einnig sömu áskorun á Boga Nils Bogason forstjóra Icelandair en hafa ekki fengið svar.
Margar leiðir færar
„Þessi barátta er rétt hafin,“ segir Sólveig en sem stendur er stéttarfélagið í mikilli vinnu við að ákveða og hrinda af stað næstu skref.
„Við erum að vinna með tímalínu aðgerða sem nær fram að því að málið verði tekið fyrir í félagsdómi,“ segir Sólveig. „Við munum halda áfram að notfæra okkur þær leiðir sem eru mögulegar fyrir okkur á þessum tímapunkti til að vekja athygli á málinu. Þannig sköpum við þrýsting á Icelandair.“ Hún segir margar leiðir vera færar.
Þá segir Sólveig að stéttarfélagið sé einnig að horfa til stærstu hluthafa Icelandair og þeirra markmiða og reglna sem þeir vinna eftir þegar kemur að ábyrgri fjárfestingu og samfélagsábyrgð.
„Til dæmis Gildi, lífeyrissjóður Eflingarfélaga sem er einn stærsti hluthafi Icelandair. Þegar að Icelandair tapar málinu fyrir félagsdómi, ætla þessir hluthafar þá að halda áfram að eiga í fyrirtæki sem fer fram með svo svívirðilegum hætti gagnvart starfsfólki?“ spyr Sólveig.