Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Föstudagur 30. september 2022
23.00 GMT

Ásdís varð snemma háð hörðum fíkniefnum og fór í sína fyrstu meðferð aðeins 16 ára gömul. Hún segir ógreint ADHD alltaf hafa staðið henni fyrir þrifum auk þess sem meðvirkni og takmarkað innsæi inn í eigið tilfinningalíf hafi orðið til þess að hún fór úr einu fíkni- og ofbeldissambandinu í annað, missti forræði yfir tveimur elstu börnum sínum og bjó á götunni í mörg ár þar sem hún þráði ekkert heitar en að næsti skammtur yrði sá síðasti.

Fyrir fimm árum varð vendipunktur í lífi Ásdísar og tilgangur lífsins varð skýr, leiðin hefur þó legið um djúpa dali, en með því að ná botninum og þiggja alla mögulega hjálp stendur hún í dag keik með litlu drengina sína – sem hún segir óhikað hafa bjargað lífi sínu.

Þessar sögur enda oftast ekki vel

Við hittumst á Mánabergi, heimili fyrir börn og fjölskyldur á vegum Barnaverndar. Ásdís gengur inn um dyrnar í fyrsta sinn í níu mánuði, það er búið að loka máli fjölskyldunnar og þau komin með sitt eigið heimili. Það eru fagnaðarfundir þegar starfsfólk hittir Ásdísi, enda saga hennar sigursaga eins og forstöðukona Mánabergs orðar það.

„Þessar sögur enda oftast ekki vel,“ segir Ásdís. „Ég hef alltaf viljað fela mig en mér finnst rosalega mikilvægt að vekja athygli á að þetta er hægt.“


„Ég hef alltaf viljað fela mig en mér finnst rosalega mikilvægt að vekja athygli á að þetta er hægt.“


Ásdís var komin í skaðaminnkunarúrræði fyrir nokkrum árum síðan.

„Flestir minna neyslufélaga eru dánir og það var búið að afskrifa mig. Svo ég er þakklát fyrir þetta nýja upphaf.“

Fyrsta meðferðin 16 ára

Ásdís fæddist á Ísafirði og bjó þar ásamt foreldrum til níu ára aldurs.

„Það voru mikil viðbrigði að flytja í bæinn, en á Ísafirði höfðum við alltaf búið í sama húsinu og lífið var í ákveðinni rútínu. Þegar við fluttum suður varð ákveðinn losaragangur og basl.“ Ásdís segir foreldra sína bæði hafa barist við alkóhólisma og skilið þegar hún var 12 ára og ákveðið rótleysi hafi einkennt næstu ár.

„Ég byrjaði að drekka þegar pabbi var að fara í meðferð. Ég var ekki nema 14 ára og á tveimur árum var ég komin í mikið rugl og var fljót að fara í harðari efni.“

Ásdís fór í sína fyrstu meðferð aðeins 16 ára gömul.

„Ég var búin að mála mig út í horn og foreldrar mínir búnir að loka á mig. Það var aðferðin sem var notuð á þeim tíma, að loka á fíkilinn. Fólk vissi bara ekki betur enda hefur rosalega mikið breyst í þessum efnum síðustu 20-30 árin. Á þessum tíma var líka litið á mig sem fullorðna 16 ára en í dag væri ég enn þá barn.“


„Ég var búin að mála mig út í horn og foreldrar mínir búnir að loka á mig. Það var aðferðin sem var notuð á þeim tíma, að loka á fíkilinn."


Ásdís segir það hafa verið gríðarlegt sjokk að fjölskyldan lokaði á hana.

„Í framhaldi af meðferðinni fór ég í AA samtökin og reyndi að halda mér á beinu brautinni, en það upphófst ákveðið mynstur hjá mér sem var að eiga edrú tíma, detta svo í það og svo framvegis. Á þessum árum eignaðist ég þó tvö börn, mann og heimili. Hann var náttúrlega fíkill sem ég kynntist í AA samtökunum og ég þekkti svo sem ekkert annað.“

Missti börnin frá sér

Ásdís eignaðist tvö börn, stúlku og dreng sem í dag eru 25 og 28 ára.

„Ég missti þau frá mér í öllu þessu basli með að fóta mig í edrúmennskunni. Barnavernd skipti sér fljótlega af okkur enda var ég í harðri neyslu. Ég vissi sjálf að börn áttu ekki heima í kringum þessa neyslu en átti bara svo erfitt með að vera edrú sjálf svo ég kom þeim ítrekað í pössun og hvarf. Fljótlega vorum við því komin hingað í Mánaberg í þetta úrræði.“


„Ég missti þau frá mér í öllu þessu basli með að fóta mig í edrúmennskunni. Barnavernd skipti sér fljótlega af okkur enda var ég í harðri neyslu."


Ásdís á ekki margar myndir frá neyslutímanum en hér sést vel hvaða áhrif neyslan var farin að hafa á útlit hennar og líðan. Mynd/aðsend

Ásdís kom því fyrst í Mánaberg með börnin sín tvö fyrir hartnær 25 árum síðan. Hún var þá nýkomin út úr meðferð og bjó á áfangaheimili.

„Þá var þetta allt öðruvísi. Þau voru vistuð hér, áttu sitt herbergi og ég átti að koma á morgnana, fyrir leikskólann og svo aftur eftir leikskóla og vera með þeim fram að háttatíma.“

Þetta gekk illa hjá Ásdísi, hún hafði fleiri skyldum að gegna á áfangaheimilinu sem var langt í burtu og samgöngur erfiðar.

„Þetta var bara dauðadæmt fyrir mig á þeim stað sem ég var þá stödd, ung og ógreind,“ segir Ásdís sem í dag hefur fengið ADHD-greiningu.

„Barnsfaðir minn sótti mikið í mig. Hann var í bullandi neyslu og á endanum féll ég og þá voru börnin mín sett í fóstur.“

Barnaherbergi á Mánabergi en öll börn Ásdísar hafa verið vistuð þar. Þó það hafi verið með 20 ára millibili vildi svo til að þau fengu úthlutað sama herbergi og ýfði það upp gömul sár hjá Ásdísi. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Klúðraði sénsinum

Ásdís náði sér aftur á strik þegar dóttirin var 10 ára og sonurinn 7 ára.

„Ég fór þá aftur vestur og náði fínum árangri, fór í AA, tók sporin og varð fyrir andlegri vakningu. Eftir eitt ár edrú fékk ég börnin til mín aftur og hafði þau hjá mér í tvö ár og var virk í AA samtökunum. En eftir þrjú ár edrú féll ég aftur.“

Ásdís segist hafa ætlað sér of mikið, í dag viti hún að ADHD hafi þar haft mikil áhrif. „Ég hélt ég gæti gert allt eins og þeir sem eru „normal,““ segir hún.

„Ég skráði mig í fimm fög við menntaskólann á Ísafirði og var í fullri vinnu með tvö börn. Þetta varð of mikið. Þegar ég byrjaði að tala um líðan mín var það of seint. Boltinn var farinn að rúlla og ég náði ekki að stoppa hann og datt í það. Ári síðar eru þau farin frá mér endanlega. Ég fékk séns sem ég klúðraði.“

Yngra barnið fór vestur í fóstur og faðir eldra barnsins fékk forræði yfir því.

„Þá fannst mér barátta mín við neysluna vera töpuð. Mér fannst ég búin að reyna allt og þó læknir hefði bent á að líklega væri ég með ADHD þá er enginn að fara að flýta sér að því að greina svona fíkil. Mér fannst ég hafa klúðrað öllu þegar ég missti þau.“

Sjálfsmyndin hrunin

Ásdís hafði flutt til Keflavíkur með börnin, hún kynntist þar manni og vildi flýja Ísafjörð eftir fallið, skömmin var of mikil. Þegar sambandinu við manninn lauk endaði Ásdís hreinlega á götunni.

„Sjálfsmynd mín var hrunin, ég var búin að klúðra öllu og átti ekkert skilið að vera með börnin mín. Mér var bara ekki viðbjargandi og fannst ég þurfa að sætta mig við það,“ segir Ásdís en gatan varð heimili hennar næstu árin.

Ásdís gerði nokkrar tilraunir til að verða edrú.

„Yngri bróðir minn tók yngra barnið í fóstur og ég hafði þó manndóm í mér að verða edrú fyrir fermingu barnsins. Ég náði að borga salinn og skreytingar og reyndi að standa mig.

Börnin höfðu verið í fóstri hjá mömmu þegar bróðir minn var að alast upp og þessi dýrmæta tenging orðið,“ segir Ásdís sem vildi sýna þakklæti í verki fyrir að barnið væri aftur komið í fjölskylduna.


„Yngri bróðir minn tók yngra barnið í fóstur og ég hafði þó manndóm í mér að verða edrú fyrir fermingu barnsins."


Fyrir ferminguna fór Ásdís norður þar sem fjölskyldan bjó og reyndi að standa sig.

„Pabbi fermingarbarnsins var í fangelsi á þessum tíma en fékk leyfi til að koma í veisluna. Ég kunni ekkert að takast á við tilfinningar mínar. Þetta átti ekkert að vera svona, þegar hann fæddist og var lítill,“ segir Ásdís sem segir aðstæðurnar hafa fyllt hana miklu vonleysi.

„Ég bara féll, hafði engan grunn til að takast á við þessar tilfinningar. Ég sé þetta í allt öðru ljósi í dag. Ég er alin upp á þeim tíma þar sem krakkar máttu bara sjást en varla heyrast. Tengsl mín við fullorðna voru lítil þegar ég var að alast upp og ég kunni illa að mynda tengsl.“

Ekki bara vond - heldur verst

Ásdís kynntist þriðja barnsföður sínum eins og hún lýsir því sjálf, í rugli.

„Hann reykti gras en sjálf var ég í harðari efnum. Við vorum þó alltaf í samskiptum af og til enda allir aðrir búnir að loka á mig. Hann var kannski eðlilegasta manneskjan sem ég var í samskiptum við, þessi maður sem snerti ekki sprautur og slíkt. Hann var bara rólegur og mikið heima, hann átti heimili og ísskáp og ég þekkti orðið bara ekkert slíkt.“

Morfín var efni Ásdísar allt frá tvítugu og það fékk hún með því að sprauta sig. Hún notaði örvandi efni og morfín í bland.

„Ég var hætt að þola þetta líf á götunni og tók ítrekað of stóra skammta til að reyna að stytta dvöl mína í þessum heimi. Þetta var alveg ótrúlega vonlaust. Það var meira að segja búið að henda mér út úr húsnæði fyrir fólk í neyslu.

Ég hugsaði með mér: „Þetta húsnæði var gert, því einhvers staðar verða vondir að vera og ég er greinilega ekki bara vond – ég er verst.“

Ásdís segir að eftir að eldri börnin voru tekin af henni haf henni liðið sem hún hafi klúðrað öllu og leiðin lá hratt niður á við. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Eitthvað varð að breytast

Staðan var augljóslega napurleg og eins og Ásdís sjálf segir þá gekk ekkert heldur að drepa sig. Eitthvað varð að breytast.

„Ég átti svo samtal við fíknigeðlækni á Landsspítalanum sem kom mér inn í hugræna atferlismeðferð. Ég ákvað að láta á það reyna að vera edrú og fara rólega í sakirnar,“ segir Ásdís sem fékk leigt herbergi og naut aðstoðar teymis á Landspítala þangað sem hún sótti daglega lyf til að hjálpa henni við erfið fráhvörfin.

„Þá var ég komin með ADHD-greiningu og einhvern veginn gekk þetta, mjög rólega.“

Ásdís fór aftur að hitta manninn sem hún lýsti sem þeim eðlilegasta í kringum sig, manninn sem átti ísskáp og heimili.

„Hann vildi líka taka til í sínu lífi og hætti að reykja gras. Ég flutti til hans og við vorum í pínulítilli kúlu, ég nýtti mér það sem ég hafði lært í AA, fór ekki á gömlu staðina, fór aldrei niður í Mjódd um mánaðamótin og ekkert niður í miðbæ. Ég var ekki einu sinni að telja edrú dagana enda hafði það aldrei virkað áður, ég tók bara einn dag í einu.“


„Ég átti svo samtal við fíknigeðlækni á Landsspítalanum sem kom mér inn í hugræna atferlismeðferð. Ég ákvað að láta á það reyna að vera edrú og fara rólega í sakirnar,“


Ráðlagt að fara í þungunarrof

Ásdís var á þessum tíma komin með slæma lifrarbólgu sem hún fékk svo meðferð við árið 2018 og er laus við hana í dag.

„Við vorum búin að vera í sambúð og ég að standa mig þónokkuð vel í rúmlega ár þegar ég komst að því að ég væri ólétt. Ég veit ekki einu sinni hvernig mér datt í hug að taka óléttuprufu, enda hafði ég ekki farið á blæðingar í nokkur ár.

Það var búið að segja mér að líkaminn væri kominn í dvala, ég átti erfitt með að bæta á mig og þurfti að taka kvenhormón þar sem þau mældust svo lág. Ég var því viss um að ég væri hreinlega komin á breytingaskeiðið,“ segi Ásdís sem þarna var 39 ára gömul.

Ásdís viðurkennir að það hafi verið ákveðið áfall að vita að hún væri með barni og meðgangan hafi tekið á.

„Ég hafði verið á Subaxone sem er ákveðin viðhaldsmeðferð og einnig á þunglyndislyfjum. Ég tók ákvörðun um að hætta á hvoru tveggja, fyrir hann,“ segir Ásdís og á þá við son sinn sem í dag er fimm ára.

„Subaxone er gervimorfín og ef ég héldi áfram að taka það á meðgöngunni yrði hann háður því og þyrfti að fara í gegnum fráhvörf eftir fæðingu. Ég gat ekki hugsað mér að leggja það á lítið barn. Ég er búin að upplifa þessi fráhvörf sjálf.“


„Ég gat ekki hugsað mér að leggja það á lítið barn. Ég er búin að upplifa þessi fráhvörf sjálf.“


Ásdís hætti á báðum lyfjum og eins kom í ljós að blóðflokkar foreldranna ættu illa saman.

„Mér var ráðlagt að fara í fóstureyðingu enda væri meðgangan hættuleg og allt gæti gerst. En mér fannst hann vera kraftaverk. Ég hélt ég myndi ekki eignast fleiri börn. Það átti ekki að geta gerst eftir alla neysluna og ég hélt að guð væri búinn að úthýsa mér. Ég lít svo á að mitt líf og líf þessa sonar míns sé samvaxið. Hann er kraftaverkabarn sem bjargaði lífi mínu.“

Sonurinn ástin í lífinu

Sonurinn, Guðni, sem fæddist á 35 viku þurfti í framhaldi að fara í nokkrar blóðskiptiaðgerðir vegna fyrrgreinds vanda.

„Hann var lengi á spítalanum og mín staða var slæm. Barnsfaðir minn átti í vanda og við hættum saman á meðan ég var ólétt og það gekk ekkert fyrir mig að redda mér íbúð.“

Ásdís fékk inni á Kvennaathvarfinu þar sem hún fékk í fyrsta sinn fræðslu um áhrif ofbeldissambanda og varði öllum vökustundum á spítalanum hjá syninum næstu fimm vikur.

„Hann var ótrúlega sterkur og braggaðist hratt. Það var eins og ég hafi fengið tvö líf í einu lífi,“ segir Ásdís einlæg og á við að hennar líf hafi endurskapast með fæðingu Guðna.

Ásdís dvaldi í Kvennaathvarfinu þar til faðir sonarins kom aftur inn í líf þeirra.

„Við fórum bara að búa saman aftur – þetta var allt mjög alkóhólískt,“ segir Ásdís og hlær örlítið taugaveikluðum hlátri.

„Hann var edrú, nýskriðinn undan sænginni. Ég var í vikulegum viðtölum hjá lækni og áfram mikið í minni búbblu. Bara að fara með drenginn í ungbarnaskoðun var erfitt fyrir mig. Ég reyndi að styrkja tengslin við fjölskylduna og þetta gekk rosa vel.


„Ég reyndi að styrkja tengslin við fjölskylduna og þetta gekk rosa vel."


Guðni var ástin í lífi mínu og ég ætlaði ekki að láta neitt koma upp á milli mín og hans, þótt það væri pabbi hans. Ég og hann vorum farin að vaxa í sundur enda vildi hann aldrei leita sér hjálpar og þau fræ sem hafði verið sáð hjá mér í Kvennaathvarfinu voru farin að segja til sín.“

Aftur barnshafandi

Þegar Guðni var í kringum tveggja ára hafði Ásdís sem hafði upplifað sig fjárhagslega háða barnsföður sínum, samband við Félagsþjónstuna í leit að íbúð, hún ætlaði að slíta sambandinu.

„Það eru ekki mörg úrræði til að grípa konur í þessari stöðu. En svo verð ég bara ólétt aftur.“

Ásdís segir barnsföðurinn hafa lofað öllu fögru og þó áfallið hafi verið mikið hafi hún huggað sig við að gaman væri fyrir Guðna að eignast lítið systkin.

„Þegar ég fór til læknis var ég komin 14 vikur á leið og í ljós kom að um tvíbura væri að ræða,“ segir Ásdís og lýsir geðshræringunni sem þeim fréttum fylgdi.

„En við fórum bara að leita að stærri íbúð og svo framvegis. Ég var auðvitað stressuð en ég var þó í betra líkamlegu formi þarna en þegar ég gekk með Guðna.“

Í 20 vikna sónar kom í ljós blóðleysi hjá tvíburunum og ákveðið var að Ásdís færi til Svíþjóðar í blóðgjöf og hún vöruð við að fæðingin gæti þá farið af stað.


„Þegar ég fór til læknis var ég komin 14 vikur á leið og í ljós kom að um tvíbura væri að ræða,“


Eins kílóa tvíburar

„Þegar ég er komin tæpar 26 vikur fæðast þeir úti í Svíþjóð.“

Eftir nokkurra klukkustunda aðgerð þar sem reynt var að gefa tvíburunum blóð var ákveðið að sækja þá með keisara enda annar þeirra hætt kominn.

„Þetta var rosalega trámatísk reynsla og þegar ég vaknaði vissi ég ekkert hvar ég var en börnin voru ekki lengur innra með mér. Ég var svo keyrð að sjá þá, þá var annar tvíburinn í aðgerð en hinn var vaxtaskertur eftir að hafa ekki fengið nægilega næringu úr naflastreng.“

Litlu tvíburarnir Viktor og Þór fengu að kúra hjá mömmu sinni á Vökudeildinni. Mynd/aðsend

„Þetta var rosalega trámatísk reynsla og þegar ég vaknaði vissi ég ekkert hvar ég var en börnin voru ekki lengur innra með mér."


Tvíburarnir voru eineggja: Viktor tæpt kíló og Þór 1.2 kíló. Ásdís lýsir því hvernig þeir hafi passað í sitt hvorn lófann, alsettir slöngum.

„Þór var alltaf á fleygiferð og hefur varla stoppað frá því hann fæddist. En Viktor var sá rólegi. Það var svo skemmtilegt hversu ólíkir þeir voru strax.“

Hann dó í fangi mínu

Móðir og börn voru í Svíþjóð í 10 daga þar til þau fengu að fara heim. „Þeir voru sendir með sjúkraflugi en ég fór með venjulegu flugi,“ segir Ásdís og viðurkennir að flugið hafi reynt á móðurina.

Í framhaldi tók við tími á Vökudeild þar sem Ásdís flakkaði á milli heimilis og vökudeildar og deildi tímanum sínum á milli þriggja ungra sona.

„Þeir voru svo sterkir og duglegir en ég hafði aldrei séð svona pínulítil kríli. Þetta gekk allt rosalega vel en Viktor sem þrátt fyrir að vera minni tvíburinn hafði sýnt svo miklar framfarir, hafði verið fyrri til að hætta með súrefni og byrja að drekka pela og taka snuð, fékk þá sýkingu.“

Viktor hafði fengið NEC sýkingu í magann sem er algeng hjá fyrirburum. „Þetta var mikið sjokk enda hélt ég að allt væri orðið nokkuð öruggt. Þessi sýking kemur yfirleitt fyrstu fjórar vikurnar en hann var orðinn fimm vikna.“

Aðgerð var ekki möguleiki og nýburinn brást ekki vel við sýklalyfjunum, hann lést þremur dögum eftir að sýkingin uppgötvaðist.

„Hann dó í fangi mínu og það var það erfiðasta sem ég hef nokkurn tíma farið í gegnum,“ segir Ásdís og það er augljóst að það tekur á að rifja þessa stund upp.

Þór til vinstri og Viktor til hægri, Ásdís segist hugsa það svo að sál beggja hafi sameinast í Þór og þannig sé Viktor enn alltaf hjá þeim. Mynd/aðsend

„Hann dó í fangi mínu og það var það erfiðasta sem ég hef nokkurn tíma farið í gegnum."


Þeir þurftu bara mig

„Ég var gríðarlega hrædd eftir þetta. Ég var hrædd um að missa Þór og Guðna. Ég upplifði ofsakvíðaköst og var mjög hrædd við sýkingar.

Ég var þó dugleg við að nýta mér að tala við prestinn og félagsráðgjafann,“ segir hún. „Hér áður fyrr þegar eitthvað minna en þetta gerðist hefði ég alltaf farið út og dottið í það og horfið. Það var ekki valkostur þarna. Ég gat ekki látið pabbann um strákana né komið þeim í pössun. Þeir þurftu bara mig.“

„Systir mín kom í bæinn og var dugleg að hjálpa mér. Það komu dagar eftir jarðarförina sem ég bara gat ekki farið á spítalann og þá fór hún í staðinn fyrir mig.

Eineggja sál sameinuð

Viktor dó þann 16. nóvember 2019 og Þór kom heim á Þorláksmessu. „Fyrsta árið fannst mér ég sjá hann við hlið Þórs og hélt ég væri að missa vitið,“ segir Ásdís sem átti lengi erfitt með að sjá tvíbura og tvíburakerrur.

„Rétt áður en Viktor hrakaði svo rosalega mikið fór ég með Þór í fanginu að hitakassanum hans. Ég hafði mikið spáð í þessari tvíburatengingu og datt í hug að Þór gæti gefið bróður sínum kraft.

Þegar ég var komin með hann alveg upp að hitakassanum kveinkuðu þeir sér alveg eins og samtímis og sofnuðu svo strax, báðir tveir. Svo byrjaði Viktor að hraka og Þór sem var alltaf úti um allt varð svo rólegur.

Ég hugsaði með mér að fyrst þeir voru eineggja í tveimur líkömum að kannski hafi þeir fengið eineggja sál sem sameinaðist þarna. Mér finnst gott að hugsa þetta þannig. Þannig er Viktor enn alltaf hjá okkur, í Þór.“


„Ég hugsaði með mér að fyrst þeir voru eineggja í tveimur líkömum að kannski hafi þeir fengið eineggja sál sem sameinaðist þarna. Mér finnst gott að hugsa þetta þannig.


Eftir að Þór var útskrifaður af Vökudeild féll faðir drengjanna aftur. „Hann bara datt í það, þannig tæklaði hann þetta. Ég gerði það ekki enda var ég búin að læra að tjá mig, lækningin er í tjáningunni. Ég bara talaði og talaði og það hélt mér. Ég hugsaði: Ég á þessa tvo yndislegu litlu stráka mína.“

Fjölskyldan einangraðist

Þessi jól setti Ásdís barnsföður sínum stólinn fyrir dyrnar.

„Ég segi við hann að hann geti ekki reykt gras inni á heimilinu og hann lamdi mig - með litla fyrirburann minn í fanginu.“ Þá fékk hún endanlega nóg, kallaði til lögreglu og flutti út með drengina.

Ásdís flutti með þá í leiguíbúð og á sama tíma skall heimsfaraldur á.

„Þór var með óþroskuð öndunarfæri og ég óttaðist enn allar sýkingar og þar af leiðandi einangruðumst við mikið.

Ég hætti að mæta á vikulegu fundina á spítalanum til að fá minn stuðning og tók þá frekar símleiðis. Ég sótti mér ekki áfallaráðgjöf, stuðningsnetið minnkaði og við vorum mikið þrjú heima. Lífið varð svo skrítið. Pabbinn sótti mikið í okkur og kom og fór.“


„Ég segi við hann að hann geti ekki reykt gras inni á heimilinu og hann lamdi mig - með litla fyrirburann minn í fanginu.“


Eitt og hálft ár leið á þessum nótum eða þar til atburður sá varð sem orsakaði að litla fjölskyldan fluttist á Mánaberg, þangað sem Ásdís hafði áður komið með fyrstu börnin sín tvö. Og í framhaldi misst þau.

„Ég var bara að drukkna í daglegu lífi. Guðni var orðinn erfiður og ég skildi ekkert hvers vegna.

Ég var bara rjúkandi rúst, það láku bara tár hér og þar og var orðin mjög þunglynd, mjög einangruð með óunnin áföll á bakinu og barnsföður minn sífellt inni á gafli.

Ég kunni ekki að setja mörk og hafði engin verkfæri til að vinna úr mínum málum. Þetta gat ekkert gengið svona lengur og ég gat þetta ekki meir. Ég var búin að bíða eftir aðstoð hjá Félagsþjónustunni en í Covid lengdust allir biðlistar og kerfið sprakk.

Ég var komin á þann stað að mig langaði hreinlega að deyja. Mér fannst ég hræðileg mamma og hugsaði með mér að þetta væri allt misskilningur, mér væri ekkert ætlað þetta hlutverk. Vanmátturinn tók yfir.“


„Ég var komin á þann stað að mig langaði hreinlega að deyja. Mér fannst ég hræðileg mamma og hugsaði með mér að þetta væri allt misskilningur, mér væri ekkert ætlað þetta hlutverk.


Fallið afdrifaríka

„Þetta var á fimmtudegi, ég man það alltaf. Pabbi strákanna hafði komið við og ég bað hann að passa þá rétt á meðan ég aðeins skryppi.

Ég tók strætó niður í Mjódd í ríkið og ég man eftir að hafa hugsað á leiðinni heim: Ég þarf bara aðeins að slaka á!“ segir Ásdís sem hafði á þessum tímapunkti verið edrú í fimm ár.

„Ég ætlaði að fá mér einn bjór þegar þeir væru sofnaðir en barnsfaðir minn var varla farinn út úr dyrunum þegar ég var búin að opna þann fyrsta og klukkan var bara þrjú. Þetta var bara hræðilegt.

Sem betur fer hringdu nágrannarnir á lögregluna. Þau höfðu séð mig úti í garði með strákana, sjálf man ég eftir rigningunni, kuldanum og dótinu en svo man ég ekki meir.“


„Sem betur fer hringdu nágrannarnir á lögregluna. Þau höfðu séð mig úti í garði með strákana, sjálf man ég eftir rigningunni, kuldanum og dótinu en svo man ég ekki meir.“


Lögreglan bankaði upp á

Nágranni fjölskyldunnar hafði aftur á móti orðið var við Ásdísi í garðinum með litlu drengina og veitt því athygli að ekkert þeirra var í skóm.

„Við vorum svo komin aftur inn og hann tók eftir að strákarnir voru að henda fullt af dóti fram af svölunum. Ég man svo bara eftir því að lögreglan bankaði upp á.“

Þegar lögreglan og fulltrúi Barnaverndar kom var klukkan orðin sex, aðeins þremur tímum eftir að Ásdís man eftir að hafa opnað fyrsta bjórinn.

„Óttinn var rosalegur og þeir fóru í fylgd af heimilinu enda ég ekkert fær um að sjá um þá sauðdrukkin.“

Ásdís var lögð inn á spítala á sjálfsvígsvakt enda hafði hún opnað sig við lögreglu um sjálfsvígshugsanir sem sótt höfðu á hana undanfarið.

„Það var svakalegt að vakna á sjúkrahúsinu. Ég vissi ekkert hvert hefði verið farið með drengina og var sjálf hvorki með síma né húslykla.“

Mömmur gera þetta ekkert

Farið hafði verið með drengina til móður Ásdísar og hún fór heim daginn eftir ásamt eldri dóttur sinni.

„Óttinn og óvissan tók yfir og mórallinn var gríðarlegur. Þeir eru mjög uppátækjasamir en sem betur fer hentu þeir bara dóti fram af svölunum.

Það hefði hvað sem er getað gerst og ég ekki einu sinni munað eftir því enda í blakkáti. Ég sem hélt að þessi manneskja væri grafin en þarna var hún bara mætt! Þetta var botninn. Þarna skall ég harkalega.“


„Það hefði hvað sem er getað gerst og ég ekki einu sinni munað eftir því enda í blakkáti."


Drengirnir voru vistaðir á Mánabergi með samþykki Ásdísar.

„Maður þarf svolítið að sanna sig eftir svona atvik,“ segir hún og á þá ekki aðeins við út á við, heldur einnig gagnvart sjálfri sér.

„Mömmur gera þetta ekkert. Það er ekki nóg að segja fyrirgefðu, þetta gerist ekki aftur. Það dugir ekki í svona aðstæðum og maður veit það.

Maður þarf líka að hugsa hvað er best fyrir börnin. Er best fyrir börnin mín að vera hjá mér? Ég vil bara það besta fyrir þá og hef alltaf viljað. Eins og þegar ég var að hugsa að ég vildi bara deyja fannst mér það vera það besta fyrir þá.“


„Mömmur gera þetta ekkert. Það er ekki nóg að segja fyrirgefðu, þetta gerist ekki aftur. Það dugir ekki í svona aðstæðum og maður veit það."


Bræðurnir Ingvi og Þór eru samrýndir enda stutt á milli þeirra. Mynd/aðsend

Annað tækifæri í móðurhlutverkinu

Við komuna á Mánaberg var Ásdísi sagt að hún fengi annað tækifæri í móðurhlutverkinu, þetta væri öðruvísi en áður þegar eldri börn hennar voru vistuð þar tveimur áratugum fyrr.

„Mér var sagt að við fengjum kennslu og greiningar. Minnug fyrri reynslu hafði ég litla trú. Fyrstu dagana var rosalega erfitt að koma og ég titraði og skalf. Það bætti ekki úr skák að þeir voru settir í sama herbergi og eldri börnin mín höfðu verið í.“

Ásdísi bauðst að dvelja á Mánabergi með drengina í tvo mánuði sem síðar var lengt í fjóra mánuði að hennar ósk og segist hún hafa ákveðið fyrir fram að vera dugleg að tala við ráðgjafa og starfsfólk.


„Fyrstu dagana var rosalega erfitt að koma og ég titraði og skalf. Það bætti ekki úr skák að þeir voru settir í sama herbergi og eldri börnin mín höfðu verið í.“


Það voru fagnaðarfundir þegar Ásdís heimsótti Mánaberg eftir níu mánuði og hitti þær Arnbjörgu Eddu Kormáksdóttur ráðgjafa sinn hjá Barnavernd og Huldu L. Blöndal forstöðukonu Mánabergs. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Ég er mjög fegin að ég gerði það. Ég vissi alveg að ég þyrfti að læra margt í móðurhlutverkinu.

Á meðan ég var að bíða eftir aðstoð frá Félagsþjónustunni hafði ég sjálf verið að hugsa að ég væri til í að vera með myndavél á heimilinu svo ég gæti svo skoðað upptökur eftir daginn enda átti ég erfitt með að sjá hvar vandinn lá hjá mér sem móðir. Á Mánabergi fékk ég eiginlega þessa myndavél í gegnum starfsfólkið. Þær sáu allt og gátu leiðbeint mér.

Það var rosalega mikill léttir. Það er ekkert skammarlegt að þurfa að læra. Þetta er besta tækifæri sem ég hef fengið í lífinu. Maður fær það aðeins einu sinni og ég ákvað að gefa mig alla í þetta.“


„Þetta er besta tækifæri sem ég hef fengið í lífinu. Maður fær það aðeins einu sinni og ég ákvað að gefa mig alla í þetta.“


Leikherbergi barnanna í Mánabergi en nú stendur yfir söfnun til stuðnings heimilisins. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Mér finnst það mikil forréttindi að hafa fengið að koma hingað. Það var blessunin í því böli að hafa dottið í það.

Tíminn okkar hér er tíminn sem strákarnir mínir fengu aftur glampann í augun. Þeir elska Mánaberg og brosa alltaf þegar við tölum um tímann hér. Af því hér fengum við aftur hvert annað og urðum fjölskyldan sem við viljum vera. Hér fékk ég aðstoð við að rísa upp og nú get ég labbað“

Ég er tilbúin í þetta

Aðspurð um framtíðardrauma segist Ásdís hógvær.

„Ég vil að þeir séu glaðir, með sjálfstraustið í lagi og beri virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Að þeir séu með verkfærin til að vinna úr tilfinningum og líðan sem ég hafði ekki. að geta sett mörk og staðið með sjálfum sér, þetta heilbrigða og eðlilega.“

Hún óttast ekki að falla.

„Ég hræðist það ekki á meðan ég held áfram á þessari braut. Ég er að tala og ég er ekki með leyndarmál.

Ég er meðvituð og ég þekki einkennin betur og veit hversu mikilvægt það er að grípa inn í áður en allt fer úrskeiðis. Lífið er bara þannig að það munu koma krefjandi tímar eins og góðir tímar. En ég er tilbúin í þetta,“ segir Ásdís augljóslega spennt fyrir framtíðinni enda búin að vinna vinnuna.

Á Mánabergi er mikið lagt upp úr hlýrri og heimilislegri stemningu. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Styrktartónleikar fyrir Mánaberg

Þriðjudaginn 4. október munu tónlistarmennirnir og bræðurnir Jón Jónsson og Friðrik Dór halda tónleika í Sky Lagoon og mun allur ágóði renna til vistheimili Barnaverndar Reykjavíkur.

Góðgerðarfélagið 1881, Sky Lagoon og Tix munu standa saman að söfnun fyrir vistheimili Mánabergs og annarra vistheimila sem heyra undir Barnavernd Reykjavíkur.

Tónleikarnir fara fram þann 4. október næstkomandi í Sky Lagoon og er miðaframboð takmarkað. Húsið opnar kl 19.00 þar sem Dj Sóley tekur á móti gestum. Bræðurnir stíga á svið kl. 20.00 og ætla þeir að skapa ógleymanlega upplifun.

Allir aðilar gefa sína vinnu sem framlag til söfnunarinnar sem rennur óskert til Barnaverndar Reykjavíkur.

Miðasala er hafin á tix.is

https://tix.is/is/event/14107/go-ger-artonleikar-i-sky-lagoon/

Athugasemdir