„Konurnar segja ósatt og varaformaðurinn lætur hafa sig að fífli,“ segja þeir Brynjólfur Ingvarsson, oddviti Flokks fólksins á Akureyri, og Jón Hjaltason, þriðji maður á lista flokksins, um yfirlýsingar þriggja kvenna sem skipuðu efstu sæti á lista flokksins á Akureyri í vor.

Þetta kemur fram í aðsendri skoðanagrein þeirra sem birt var á vef Vísis. Þeir segja eina ofbeldið sem þær mögulega geti kvartað undan vera þegar barið var í borð á fundi og ein þeirra var krafin svara við.

Málfríður Þórðardóttir, Tinna Guðmundsdóttir og Hannesína Scheving lýstu ofbeldi, kynferðislegri áreitni og einelti sem þær urðu fyrir af forystumönnum Flokk fólksins í aðdraganda kosninga í vor og eftir þær.

Þær stigu fram eftir að Guðmundur Ingi Kristinsson, varaformaður flokksins, sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði sig knúinn til að bregðast við vegna þess ofbeldis og ástands sem hefði liðist innan flokksins á Akureyri.

Konurnar nauðbeygðar

„Okkur er gefið að sök að hafa „sífellt lítilsvirt og hunsað“ konurnar þrjár og sagt þær „vitlausar“ og „geðveikar,“ segja Brynjólfur og Jón en þeir segja konurnar þrjár setja ásakanirnar fram „nauðbeygðar“ í kjölfar yfirlýsingar Guðmundar Inga á Facebook-síðu hans.

„Fullyrðingar kvennanna eru svo fjarri öllum sanni sem hugsast getur. Síðan Brynjólfur náði kjöri í bæjarstjórn Akureyrar hefur forustusveit flokksins fundað býsna reglulega. Sú sveit er skipuð okkur undirrituðum og konunum þremur sem nú bera okkur þungum sökum.

Á þessum trúnaðarfundum hafa þær aldrei – við undirstrikum aldrei – verið lítilsvirtar, hvað þá kallaðar vitlausar eða geðveikar. Þvert á móti hafa þar allir setið við sama borð, verið jafningjar, og þær ekki síður en undirritaðir haft orðið,“ segja þeir félagar jafnframt.

Barið í borð fyrir svör

Brynjólfur og Jón segja Málfríði hafa mætt grátandi á fund flokksins 10. september síðastliðinn og að vel hafi verið tekið á móti henni. „ Það hvessti hins vegar þegar umræðan hófst um tilraun hennar og stallsystra til að hrekja Brynjólf úr bæjarstjórn. Sem að vísu átti að gerast undir yfirskini mannkærleika.“

Semja hafi átt tilmæli þar sem Brynjólfur væri hvattur til að taka sér veikindaleyfi en þá hefði Jón sagt að slík tilmæli ætti fyrst að ræða persónulega við sjúklinginn sjálfan, Brynjólf. Jón hafi spurt Málfríði hvort hún væri honum ósammála en þegar engin svör hafi borist hafi Jón barið í borðið til að heimta svar.

„Þetta er allt „ofbeldið“ sem þessar konur geta mögulega kvartað undan,“ segja þeir Brynjólfur og Jón um málið í grein sinni.

Brynjólfur og Jón segjast hafa krafist þess að konurnar þrjár taki „ömurleg og mannorðsskemmandi ummæli sín til baka, biðjist opinberlega afsökunar og geri það sem allra fyrst. Sú krafa er hér með ítrekuð.“