Á annað hundrað síðum úr við­kvæmri rann­sókn Héraðs­sak­sóknara á meintri spillingu innan fíkni­efna­lög­reglunnar var lekið til fjöl­miðla í gær.

Gögnin inni­halda meðal annars frá­sagnir fjöl­margra lög­reglu­manna, undir fullu nafni, sam­skipti og vinnu­andann innan deildarinnar og þann grun sumra lög­reglu­manna að ein­hverjir sam­starfs­menn væru að þiggja mútur frá undir­heima­manninum. Af lestri gagnanna er greini­legt að sá orð­rómur hefur haft mikil á­hrif á starf­semi deildarinnar. Af gögnunum er einnig ljóst að um­ræddur um­dir­heima­maður var upp­lýsinga­gjafi hjá fíkni­efna­deild lög­reglunnar í um ára­tug, að því er virðist með vitund og sam­þykki yfir­manns deildarinnar á þeim tíma.

RÚV greinir frá því í dag að Héraðssaksóknari skoði nú dreifingu gagnanna til fjölmiðla, hvort um lögbrot sé að ræða og hvort grípa þurfi til einhverra aðgerða.

Í orð­sendingu frá upp­ljóstraranum á sölu­síðunni bland.is, þar sem hann deildi gögnunum einnig, segir meðal annars að undir­heima­maðurinn hafi lengi verið grunaður í undir­heimunum um að vera upp­lýsingar­veita hjá lög­reglunni, hafi starfað beggja megin línunnar, svíkjandi vini sína til að bjarga sjálfum sér. Hann sé vel efnaður og hafi ný­lega selt eign á 330 milljónir. Gögnin hafi gengið manna á milli í undir­heimunum en enginn þorað að opin­bera þau af ótta við manninn.

Undirheimamaður gaf sig fram

Rann­sóknin, sem hófst síðla árs 2015 byggði, eins og áður segir, bæði á frá­sögnum á þriðja tug þá­verandi og fyrr­verandi lög­reglu­manna sem starfað höfðu í deildinni, um meinta refsi­verða hátt­semi eins og mögu­lega fleiri lög­reglu­manna í sam­skiptum við um­ræddan upp­lýsinga­gjafa.

Upp­lýsinga­gjafinn gaf sig sjálfur fram við lög­regluna, eftir að hann fékk veður af því að lög­reglu­maðurinn væri til rann­sóknar fyrir spillingu og gaf ítar­lega skýrslu um sam­skiptin, eftir að hafa óskað eftir skrif­legri yfir­lýsingu um að hann yrði ekki sak­sóttur fyrir þátt sinn í málinu.

Endur­rit af skýrslu sem tekin var af manninum eru 47 blað­síður en hún tók um það bil klukku­stund. Í skýrslunni segist hann meðal annars hafa fengið upp­lýsingar um hvort og hve­nær hann hafi verið hleraður, en ljóst er að það olli honum miklu hugar­angri að vita ekki hvort sími hans væri öruggur. Hann var einnig í­trekað spurður hvort hinn kærði lög­reglu­maður hafi þegið reglu­legar greiðslur frá honum en hann neitaði því.

Samband hófst á Litla-Hrauni eða Goldfinger

Honum og hinum kærða lög­reglu­manni kom hins vegar ekki saman um hve­nær meint sam­starf um upp­lýsinga­gjöf hafi hafist að öðru leyti en því að það hafi staðið í um ára­tug.

Hinn kærði lög­reglu­maður hélt því fram að sam­bandið hafi komist á þegar undir­heima­maðurinn var í gæslu­varð­haldi árið 2006 vegna gruns um inn­flutning fíkni­efna, en hann hafi þá rætt við hann á Litla-hrauni. Undir­heima­maðurinn lýsti upp­hafinu á allt annan hátt. Hann sagðist hafa hitt hinn kærða lög­reglu­mann á Gold­fin­ger árið 2005 þar sem lög­reglu­maðurinn hafi beðið hann að hitta sig nokkrum dögum síðar, annars hefði hann verra af. Hótunin hafi svo raun­gerst að sögn undir­heima­mannsins því hann hafi í kjölfarið mátt þola hleranir í 11 mánuði og að lokum fyrrnefnt gæslu­varð­hald. Eftir þá þolraun hafi hann ekki þorað annað en gerast upp­lýsinga­gjafi lög­reglunnar.

Fyrr­verandi yfir­maður fíkni­efna­lög­reglunnar bar vitni að þessi lýsing gæti engan veginn staðist enda þyrfti dóms­úr­skurð til hlustunar. Sá lög­reglu­maður sem tók við stjórn deildarinnar af honum og var yfir­maður hennar þegar rann­sókn Héraðssaksóknara fór fram sagði að sér hafi verið til­kynnt, þegar hann tók við stöðu yfir­manns deildarinnar að nafn­greindur undir­heima­maður væri upp­lýsinga­gjafi deildarinnar.

Ekkert hæft í ásökunum

Niður­staða rann­sóknar héraðs­sak­sóknara var mjög af­dráttar­laus um að á­sakanir á hendur lög­reglu­manninum ættu ekki við rök að styðjast, en málið ætti rætur að rekja til á­greinings innan fíkni­efna­deildarinnar.
Í kjöl­far rann­sóknarinnar dæmdi Hæsti­réttur hinum kærða lög­reglu­manni 1,5 milljónir í bætur í máli sem hann höfðaði gegn ís­lenska ríkinu vegna tíma­bundinnar brott­vikningar frá störfum.
Þá­verandi yfir­manni fíkni­efna­deildarinnar voru einnig dæmdar bætur í máli sem hún höfðaði eftir að hún var færð til í starfi vegna málsins.