Á annað hundrað síðum úr viðkvæmri rannsókn Héraðssaksóknara á meintri spillingu innan fíkniefnalögreglunnar var lekið til fjölmiðla í gær.
Gögnin innihalda meðal annars frásagnir fjölmargra lögreglumanna, undir fullu nafni, samskipti og vinnuandann innan deildarinnar og þann grun sumra lögreglumanna að einhverjir samstarfsmenn væru að þiggja mútur frá undirheimamanninum. Af lestri gagnanna er greinilegt að sá orðrómur hefur haft mikil áhrif á starfsemi deildarinnar. Af gögnunum er einnig ljóst að umræddur umdirheimamaður var upplýsingagjafi hjá fíkniefnadeild lögreglunnar í um áratug, að því er virðist með vitund og samþykki yfirmanns deildarinnar á þeim tíma.
RÚV greinir frá því í dag að Héraðssaksóknari skoði nú dreifingu gagnanna til fjölmiðla, hvort um lögbrot sé að ræða og hvort grípa þurfi til einhverra aðgerða.
Í orðsendingu frá uppljóstraranum á sölusíðunni bland.is, þar sem hann deildi gögnunum einnig, segir meðal annars að undirheimamaðurinn hafi lengi verið grunaður í undirheimunum um að vera upplýsingarveita hjá lögreglunni, hafi starfað beggja megin línunnar, svíkjandi vini sína til að bjarga sjálfum sér. Hann sé vel efnaður og hafi nýlega selt eign á 330 milljónir. Gögnin hafi gengið manna á milli í undirheimunum en enginn þorað að opinbera þau af ótta við manninn.
Undirheimamaður gaf sig fram
Rannsóknin, sem hófst síðla árs 2015 byggði, eins og áður segir, bæði á frásögnum á þriðja tug þáverandi og fyrrverandi lögreglumanna sem starfað höfðu í deildinni, um meinta refsiverða háttsemi eins og mögulega fleiri lögreglumanna í samskiptum við umræddan upplýsingagjafa.
Upplýsingagjafinn gaf sig sjálfur fram við lögregluna, eftir að hann fékk veður af því að lögreglumaðurinn væri til rannsóknar fyrir spillingu og gaf ítarlega skýrslu um samskiptin, eftir að hafa óskað eftir skriflegri yfirlýsingu um að hann yrði ekki saksóttur fyrir þátt sinn í málinu.
Endurrit af skýrslu sem tekin var af manninum eru 47 blaðsíður en hún tók um það bil klukkustund. Í skýrslunni segist hann meðal annars hafa fengið upplýsingar um hvort og hvenær hann hafi verið hleraður, en ljóst er að það olli honum miklu hugarangri að vita ekki hvort sími hans væri öruggur. Hann var einnig ítrekað spurður hvort hinn kærði lögreglumaður hafi þegið reglulegar greiðslur frá honum en hann neitaði því.
Samband hófst á Litla-Hrauni eða Goldfinger
Honum og hinum kærða lögreglumanni kom hins vegar ekki saman um hvenær meint samstarf um upplýsingagjöf hafi hafist að öðru leyti en því að það hafi staðið í um áratug.
Hinn kærði lögreglumaður hélt því fram að sambandið hafi komist á þegar undirheimamaðurinn var í gæsluvarðhaldi árið 2006 vegna gruns um innflutning fíkniefna, en hann hafi þá rætt við hann á Litla-hrauni. Undirheimamaðurinn lýsti upphafinu á allt annan hátt. Hann sagðist hafa hitt hinn kærða lögreglumann á Goldfinger árið 2005 þar sem lögreglumaðurinn hafi beðið hann að hitta sig nokkrum dögum síðar, annars hefði hann verra af. Hótunin hafi svo raungerst að sögn undirheimamannsins því hann hafi í kjölfarið mátt þola hleranir í 11 mánuði og að lokum fyrrnefnt gæsluvarðhald. Eftir þá þolraun hafi hann ekki þorað annað en gerast upplýsingagjafi lögreglunnar.
Fyrrverandi yfirmaður fíkniefnalögreglunnar bar vitni að þessi lýsing gæti engan veginn staðist enda þyrfti dómsúrskurð til hlustunar. Sá lögreglumaður sem tók við stjórn deildarinnar af honum og var yfirmaður hennar þegar rannsókn Héraðssaksóknara fór fram sagði að sér hafi verið tilkynnt, þegar hann tók við stöðu yfirmanns deildarinnar að nafngreindur undirheimamaður væri upplýsingagjafi deildarinnar.
Ekkert hæft í ásökunum
Niðurstaða rannsóknar héraðssaksóknara var mjög afdráttarlaus um að ásakanir á hendur lögreglumanninum ættu ekki við rök að styðjast, en málið ætti rætur að rekja til ágreinings innan fíkniefnadeildarinnar.
Í kjölfar rannsóknarinnar dæmdi Hæstiréttur hinum kærða lögreglumanni 1,5 milljónir í bætur í máli sem hann höfðaði gegn íslenska ríkinu vegna tímabundinnar brottvikningar frá störfum.
Þáverandi yfirmanni fíkniefnadeildarinnar voru einnig dæmdar bætur í máli sem hún höfðaði eftir að hún var færð til í starfi vegna málsins.