Richard Alexender Murdaugh, þekktur bandarískur lögmaður, hefur verið ákærður fyrir að myrða eiginkonu og son sinn. Þar að auki er hann grunaður um að hafa sviðsett eigin dauðdaga og framið talsvert fleiri glæpi.

Hin 52 ára gamla Maggie Murdaugh og 22 ára gamall sonurinn Paul voru skotin til bana fyrir utan heimili sitt í Suður Karólínuríki fyrir rúmu ári síðan. Það var Richard, sem er betur þekktur sem Alex sem gerði lögreglu viðvart um málið.

BBC fjallar um málið. Alex Murdaugh, sem er 54 ára gamall, neitar að hafa orðið þeim að bana, eða átt hlut í máli. Hann gæti átt yfir höfði sér þrjátíu ára fangelsisdóm, eða jafnvel dauðarefsingu.

Murdaugh-ættin er þekkt í Suður Karólínu, en langafi, afi og faðir hans voru allir valdamiklir og virtir lögmenn í ríkinu.

Í kjölfar morðanna sakaði lögfræðistofa fjölskyldunnar, sem er meira en aldargömul, Alex Murdaugh, um að stela milljónum dollara frá fyrirtækinu.

Líkt og áður segir er hann einnig grunaður um að sviðsetja eigin dauðdaga, en það gerðist eftir morðin á Maggie og Paul. Hann hefur játað sök í umræddu máli, en talið er að hann hafi ætlað eftirlifandi syni sínum að eignast 10 milljón króna líftryggingarfé.