Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri stofnunarinnar, segjast ekki hafa þekkt nafnið á fyrirtæki föður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.
Bankasýslan situr nú fyrir svörum á fundi fjárlaganefndar Alþingis í morgun vegna útboðsins.
Fyrirtæki föður Bjarna, Hafsilfur ehf., tók þátt í útboði Bankasýslunnar og keypti hlut í Íslandsbanka fyrir 55 milljónir króna.
Björn Leví Gunnarsson, fulltrúi Pírata, í nefndinni spurði Lárus og Jón Gunnar hvort aðkoma einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla hefði verið skoðuð. Svöruðu þeir til að það væri á forræði fjármálafyrirtækjanna.
Þá benti Björn Leví á að þeir hefðu sagt í svari til Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, fulltrúa Viðreisnar í nefndinni, að Bankasýslan hefði ekki haft bolmagn til að skoða hvort faðir fjármálaráðherra hefði verið á meðal kaupenda í útboðinu.
Benti Björn Leví á að ef hann flettir uppi nafni fyrirtækisins, Hafsilfri, í fyrirtækjasjá komi í ljós að forráðamaður þess er Benedikt Sveinsson.
„Ég geri ráð fyrir því að þið þekkið bæði fyrirtækið og þetta nafn mjög vel,“ sagði Björn Leví en Lárus og Jón Gunnar sögðust þekkja nafnið en ekki nafn félagsins sem um ræðir.