Lárus Blön­dal, stjórnar­for­maður Banka­sýslu ríkisins og Jón Gunnar Jóns­son, for­stjóri stofnunarinnar, segjast ekki hafa þekkt nafnið á fyrir­tæki föður Bjarna Bene­dikts­sonar fjár­mála­ráð­herra.

Banka­sýslan situr nú fyrir svörum á fundi fjár­laga­nefndar Al­þingis í morgun vegna út­boðsins.

Fyrir­tæki föður Bjarna, Haf­silfur ehf., tók þátt í út­boði Banka­sýslunnar og keypti hlut í Ís­lands­banka fyrir 55 milljónir króna.

Björn Leví Gunnars­son, full­trúi Pírata, í nefndinni spurði Lárus og Jón Gunnar hvort að­koma ein­stak­linga í á­hættu­hópi vegna stjórn­mála­legra tengsla hefði verið skoðuð. Svöruðu þeir til að það væri á for­ræði fjár­mála­fyrir­tækjanna.

Þá benti Björn Leví á að þeir hefðu sagt í svari til Þor­bjargar Sig­ríðar Gunn­laugs­dóttur, full­trúa Við­reisnar í nefndinni, að Banka­sýslan hefði ekki haft bol­magn til að skoða hvort faðir fjár­mála­ráð­herra hefði verið á meðal kaup­enda í út­boðinu.

Benti Björn Leví á að ef hann flettir uppi nafni fyrir­tækisins, Hafsilfri, í fyrir­tækja­sjá komi í ljós að for­ráða­maður þess er Bene­dikt Sveins­son.

„Ég geri ráð fyrir því að þið þekkið bæði fyrir­tækið og þetta nafn mjög vel,“ sagði Björn Leví en Lárus og Jón Gunnar sögðust þekkja nafnið en ekki nafn fé­lagsins sem um ræðir.