Félagarnir Magnús Már Kristinsson og Vilhjálmur Þór Kristjánsson hafa lengi verið þekktir meðal kraftbjóraunnenda hérlendis. Ásamt því að vera hlutaeigendur Session Craft bar hafa þeir komið að bruggun á ýmsum bjórum, meðal annars hjá Malbyggi og Reykjavík Brewing.

Þegar heimsfaraldurinn skall á og ölhúsum borgarinnar var lokað ákváðu þeir hins vegar að finna sér nýja áskorun: Kokteila. Þeir ákváðu því að opna sinn eigin kokteilbar á Skólavörðustíg, Stereo Bar, með það í huga að taka öðruvísi snúning á kokteila en aðrir staðir á Íslandi.

Á Stereo verður einblínt á kokteila á krana til að flýta fyrir afgreiðslu. Niturgas er notað svo það þurfi ekki að hrista drykkina en að þeirra sögn er það í fyrsta sinn sem niturgas verður notað til að hrista kokteila.Hægt verður að fá allt frá Espresso Martini á krana yfir í óáfenga kokteila.

Einnig verður boðið upp á Hard-seltzer á krana en viðskiptavinir geta síðan valið á milli fimm til sex bragðtegunda líkt og í ísbúð.

Langaði að feta nýjar slóðir

„Við vildum prófa að gera eitthvað nýtt í þessu Covid-ástandi. Það lá vel við að nýta tímann,“ segir Vilhjálmur Þór. „Við höfum báðir verið í bjórbransanum lengi og okkur vantaði nýja áskorun,“ bætir Magnús Már við. „Það halda margir að við séum rosalega góðir barþjónar en þegar kemur að kokteilum þá vitum við ekki neitt,“ segir Magnús Már og hlær. „Við kunnum bara að brosa bak við barinn og vera fyndnir,“ bætir hann við.

„Það eru mjög margir góðir kokteilbarir í Reykjavík en okkur langaði að koma með eitthvað nýtt. Við erum mjög góðir að setja bjórkúta undir dælur og þess vegna ætlum við að vera með kokteila á kút,“ segir Magnús léttur. „Það sparar tíma og ætti koma út í lægra vöruverði fyrir neytandann án þess að gæðin ættu að skerðast neitt svakalega.“

Vilhjálmur Þór hannaði staðinn sjálfur en hann vann áður hjá Haf Studio. Staðurinn er mjög litríkur en Vilhjálmur segir það vera hugsað til að lífga upp á veturinn á Íslandi. „Það er gott að hafa bjart rými og smá liti þegar grámyglan hellist yfir mann,“ segir Vilhjálmur.

„Litavalið eru í raun litir sem eru of æpandi til að hafa heima hjá þér en þeir eru góðir í svona rými.“Þeir félagar hafa ráðið til sín kokteilabarþjón til að hrista sérpantaða drykki. „Hann heitir Andreas og er Svíi,“ segir Magnús. Stereo Bar opnar dyr sínar í fyrsta sinn í dag klukkan 17.00 og mun DJ flugvél og geimskip spila fyrir gesti.