„Við höfum skoðað ýmsa jaðarhópa og heimilisofbeldi, svo sem fatlaða, innflytjendur og hinsegin fólk, en þegar við skoðuðum hinsegin fólk kom í ljós að það er ofboðslega lítið til af haldgóðum upplýsingum um heimilisofbeldi meðal hinsegin fólks,“ segir Halldóra Dýrleifar Gunnarsdóttir, verkefnastýra Saman gegn ofbeldi, samstarfsverkefnis Reykjavíkurborgar, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Kvennaathvarfsins og Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu um heimilisofbeldi. Upplýsingabæklingur um hinsegin fólk og heimilisofbeldi var nýlega gefinn út og kynntur á fundi ofbeldisvarnarnefndar í síðustu viku.

Bara hommar í slag

Halldóra segir ýmsar mýtur á lofti þegar kemur að ofbeldi í samböndum hinsegin fólks og að markmiðið með útgáfu bæklingsins sé að koma upplýsingum um heimilisofbeldi hinsegin fólks sem víðast ásamt því að miða þjónustu sem í boði sé að þeim hópi. „Það eru til dæmi þar sem lögregla er kölluð til vegna til dæmis heimilisofbeldis í sambandi tveggja karlmanna en í stað þess að litið sé á ofbeldið sem heimilisofbeldi er litið á það sem róstur á milli tveggja karlmanna,“ segir Halldóra.

Viðmælandi Fréttablaðsins sem upplifði ofbeldi í hinsegin sambandi en vill ekki koma fram undir nafni segist hafa upplifað sig annars flokks þegar hann reyndi að kæra ofbeldið til lögreglu. „Viðbrögð lögreglu voru mjög til baka og þetta fór að snúast um að við værum hommar og bara í slag,“ segir hann.

Kærur látnar niður falla

„Þegar ég náði að flýja blóðugur á sokkaleistunum var mér skutlað aftur til hans meðan þeir tóku skýrslu af honum, ég var látinn bíða úti í bíl með risaskurð,“ segir hann og bætir við að hann hafi kært ofbeldið oftar en einu sinni en að hver ákæran á fætur annarri hafi verið látin niður falla.

„Ég held að lögreglan hér sé bara eins og barn í svona málum,“ bætir hann við. „Þarna upplifði ég fordóma og ég held að hinsegin fólk sé mögulega ekki tilbúið að ræða þetta við lögreglu þar sem það heldur að hjálpin sé í raun ekki til staðar,“ segir hann.

Bæklingnum hefur verið dreift víðs vegar um borgina, þar á meðal á allar lögreglustöðvar höfuðborgarsvæðisins. „Við vonum að sem flestir, þar með talið lögreglan, lesi bæklinginn og kynni sér málefnið. Með því er ólíklegra að við dettum í þessa fordómapytti eða fyrir fram gefnu skoðanir sem við höfum,“ segir Halldóra.

Nýr bæklingur auki þekkingu

Hún segir einnig að þörf sé á breytingum á þjónustu við hinsegin fólk þegar kemur að heimilisofbeldi og bæklingurinn geti að öllum líkindum komið þekkingu um málefnið til fagaðila. „Núna eru einnig komnir sérfræðingar í hinsegin málefnum og heimilisofbeldi inn á allar þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar og með því erum við til dæmis að reyna að mæta þeirri þörf sem við höfum fundið fyrir og að skapa frekari þekkingu,“ segir Halldóra.

„Hönnunin á bæklingnum er svo þannig að regnbogaflaggið er mjög áberandi svo að augljóst sé að ef hann liggur frammi einhvers staðar og fólk sér hann sé það vísbending um að þar fái hinsegin fólk góða þjónustu,“ segir hún.