„Þetta var bara ein lína sem hann sagði og svo sendi hann mér allt í smsi. Þetta var ekkert þannig að hann væri að herma eftir honum í klukku­tíma,“ segir Gunnar Bender, veiðiskríbent í sam­tali við Frétta­blaðið.

Frétta­blaðið leitaði til Gunnars vegna um­mæla Bubba Morthens í við­tali á Bylgjunni í morgun. Bubbi var gríðar­lega ó­sáttur við Gunnar fyrir að hafa keypt lygar ó­prúttins manns sem hringdi í Gunnar á laugar­dag og þóttist vera söngvarinn. Sagðist hann hafa landað 108 sentí­metra sjó­birting í Meðal­fells­vatni.

„Ég hef oft talað við Bubba,“ segir Bender sem kveðst hafa misst af út­varps­við­talinu við Bubba í morgun. Hann viti þó af ó­á­nægju söngvarans, enda hafi Gunnar og aðrir á veiði­rit­stjórninni litið málið al­var­legum augum.

„Já, Bubbi hefur talað um þetta ein­mitt. En þetta var bara ein lína og svo var þetta allt í sms sam­skiptum. Ég sá að þetta var ekki númerið hans. Maðurinn er náttúru­lega marg­sinnis búinn að biðjast af­sökunar og ég held það þurfi ekkert að skrifa um þetta meira, þetta er ef­laust orðið gott,“ segir Gunnar og hlær.

„Ég heyrði ekkert í honum nema eitt­hvað einu sinni um að hann væri í stúdíói og svo sendi hann mér myndina. Þeir voru bara á blinda­fylleríi í Eld­vatni þessir gæjar. Það er varla hægt að skrifa um þetta meira, nema kannski með því að fá við­tal við þennan gæja og spyrja hann hvort hann ætli ekki í eftir­hermu­bransann. Hann er marg­búinn að biðjast af­sökunar greyið og er alveg í rúst.“

Gunnar segist ætla að hlusta á við­talið við Bubba frá því á Bítinu í Bylgjunni í morgun.

„Ég ætla að hlusta á þetta í Bítinu. Við höfum alltaf verið miklir vinir og ég hefði betur átt að tjékka á númerinu. Hann hringdi líka í Eggert Skúla og þóttist vera Tóti tönn. en Eggert fattaði það,“ rekur Gunnar á­fram hrekki drukkna hrekkja­lómsins úr Eld­vatni.

Tóti tönn er tann­læknirinn Þórarinn Sig­þórs­son, einn al­frægasti og afla­hæsti stang­veiði­maður landsins í ára­tugi.

„Mér fannst eins og hann væri í stúdíóinu og það var svo mikill há­vaði í kringum hann að hann hefði getað hringt úr hvaða númeri sem væri.“