„Það fer í gang ákveðin sjálfsíhygli og menn þurfa náttúrulega að horfast í augu við bæði ásökunina og svo líka það hvort að þeir geti gengist við þessu að hafa framið þetta ofbeldi og það tekur oft svoldið langan tíma fyrir þá,“ segir Katrín Ólafdóttir sem vinnur að doktorsverkefni sem fjallar um ofbeldismenn og hvernig þeir horfast í augu við - og vinna úr því ofbeldi sem þeir hafa beitt.

Katrín ræðir við Margréti Erlu Maack á Fréttavaktinni í kvöld.

Þegar ofbeldiskarlar gera sér grein fyrir því sem þeir hafa gert eða upp um þá kemst segir Katrín þá fá áfall.

„Þeir menn sem ég hef rætt við þeir upplifa allir mikið áfall og þeir fara í gríðarlega mikla sjálfsmyndarkrísu því náttúrulega flest öll upplilfum við það að við séum góðir einstaklingar, að það sé eitthvað gott í okkur,“ útskýrir hún og áfallið sé mikið þegar upp kemst um einhvern að hann beiti nánum ástvini slíka grimmd.

Ofbeldismenn eru ekki skrímsli eða einangraðir menn heldur fjölskyldumenn sem eiga vini. Mikilvægt sé að gefa slíkum körlum tækifæri á að taka ábyrgð á gjörðum sínum, segir Katrín.

Katrín ræddi við Margréti Erlu Maack á Fréttavaktinni á Hringbraut
Mynd/Hringbraut

Munur er á því hvaða augum samfélagið lítur brot viðkomandi eftir því hvar gerandinn er staddur í samfélaginu. „Við tölum stundum í fræðunum um stigveldi ofbeldisbrota,“ segir Katrín og ákveðnar hugmyndir til um hvernig skrímsli hegða sér. „Það er til dæmis maðurinn sem dregur konu inn á skemmtistað „, segir Katrín og þannig brot séu einfaldari og auðveldara að trúa slíkum frásögnum.

Kærastinn sem kýlir kærustuna

Svo séu önnur brot og miklu algengari, segir hún og sem dæmi eru það nauðgangir á milli vina eða nauðgun sem gerist í föstu sambandi. „Eða kærastinn sem kýlir kærstuna sína bara einu sinni og lofar að gera það aldrei aftur. Og þetta er það sem við eigum yfirleitt erfiðara með að átta okkur á og skilgreina sem ofbeldi.“

Góði fjölskyldufaðirinn eða dópistinn

Hún segir að hafi gerandi átt í baráttu við fíkniefni eða alkóhólisma sé samfélagið tilbúnara að trúa því að sá einstaklingur beiti ofbeldi vegna sögu um stjórnleysi. „Þegar einstaklingar eru virtir fjölskyldufeður, sá sem fléttar hárið á dóttur sinni eða er duglegur að mæta á skólaskemmtanir og annað, við eigum mjög erfitt með að trúa því að sá einstaklingur geti beitt ofbeldi.“

Hún segir sjálfa karlana líka eiga erfitt með að trúa því að þeir hafi beitt ofbeldi. „Þeir sjálfir trúa því líka að þeir séu góðir menn.“