Malaríu­lyfið, sem Donald Trump Banda­ríkja­for­seti segist taka dag­lega til að koma í veg fyrir kórónu­veiru­smit, virkar ekki gegn veirunni og getur raunar verið skað­legt fyrir þá sem eru með CO­VID-19 sjúk­dóminn sem veiran veldur. Þetta eru niður­stöður rann­sóknar á lyfinu, sem var í fyrstu talið not­hæft gegn veirunni.

Greint er frá niður­stöðum rann­sóknarinnar á The New York Times en lyfið var prófað á tæp­lega 15 þúsund sjúk­lingum og á­hrif þess borin saman við hóp 81 þúsund sjúk­linga sem tóku lyfið ekki. Þeir sjúk­lingar sem tóku malaríu­lyfið Hydr­oxychlor­oqu­ine voru lík­legri til að fá hjart­sláttar­truflanir og lík­legri til að látast úr CO­VID-19.

Trump til­kynnti um það á mánu­dag að hann tæki lyfið dag­lega til að koma í veg fyrir að smitast af veirunni. „Ég hef verið að taka þetta lyf í eina og hálfa viku og hér stend ég enn,“ sagði for­setinn á blaða­manna­fundi í Hvíta húsinu. Hann hefur talað mikið fyrir lyfinu en The New York Times greindi frá því í síðasta mánuði að Trump ætti lítinn hlut í fyrir­tækinu sem fram­leiðir lyfið. Eftir að Trump fór að gefa lyfinu hátt undir höfði rauk sala þess upp í Banda­ríkjunum.

Úr­tak sjúk­linga sem tóku þátt í rann­sókninni var ekki valið af handa­hófi heldur var sjúk­lingum með CO­VID-19 á 671 spítala í heiminum gefinn kostur á að taka þátt í henni. Eins og Frétta­blaðið greindi frá í mars urðu Norð­menn fyrstir til að hefja prófanir á lyfjunum á Há­skóla­sjúkra­húsinu í Osló. Alls tóku rúm­lega 96 þúsund sjúk­lingar þátt og var, sem fyrr segir, tæp­lega 15 þúsund þeirra gefið malaríu­lyfið Hydr­oxychlor­oqu­ine.


Þar sem úr­tak rann­sóknarinnar var ekki handa­hófs­kennd geta niður­stöður hennar aldrei verið alveg á­reiðan­legar en þessar telja þó gefa nokkuð góða mynd af á­hrifum lyfsins gegn sjúk­dómnum. Að minnsta kosti er nú talið ljóst að það verður ekki hægt að nota gegn veirunni og að lík­lega geri það batann að­eins erfiðari fyrir sjúk­linga.


Rann­sak­endurnir hafa nú mælt al­farið gegn því að lyfið sé notað gegn veirunni utan vísinda­legra rann­sókna. Enn eru nokkrar slíkar á lyfinu í gangi um heiminn.