Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, skorar á borgarstjórn að samþykkja tillögu borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins um bætt loftgæði í Reykjavík. Tillagan verður flutt á fundi borgarstjórnar í dag. Vitnað er í skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu þar sem kemur fram að hér á landi séu 60 ótímabær dauðsföll á ári af völdum svifryksmengunar.

Í tilkynningunni segir að borgarstjórn hafi samþykkt árið 2018 að svifryk fari ekki yfir heilsuverndarmörk. Síðan þá hafi magnið farið a.m.k. 25 sinnum yfir heilsuverndarmörk. Tillagan er þríþætt. „Í fyrsta lagi að auka þrif á götum borgarinnar. Ljóst er að þrif í borgunum sem við viljum bera okkur saman við eru mun metnaðarfyllri en hjá Reykjavíkurborg,“ segir í tilkynningunni.

„Til samanburðar má nefna að miðborg Óslóar er þrifinn einu sinni á sólahring á meðan miðborg Reykjavíkurborgar er þrifin mun sjaldnar. Auk þess eru stofnbrautir þrifnar tvisvar í mánuði í Ósló á meðan í Reykjavík eru þær þrifnar tvisvar til þrisvar á ári.“

Þá auki það viðbragðstíma snjómoksturs og í þriðja lagi að þeir sem ekki notast við nagladekk fái afslátt af stöðugjöldum í gjaldskyldum stæðum borgarinnar.