Tveir ein­staklingar sem greindust með kóróna­veirunna síðast­liðinn mánu­dag reyndust vera með nýtt Delta af­brigði sem ekki hefur sést áður hér á landi en báðir ein­staklingar voru bólu­settir og greindust utan sótt­kvíar. Þetta stað­festir Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir í sam­tali við Frétta­blaðið.

Fimm ein­staklingar greindust með veiruna í gær og voru þeir allir utan sótt­kvíar við greiningu en af þeim sem greindust voru þrír full­bólu­settir. Enn á eftir að rekja þau smit og er því ekki hægt að segja með vissu hvort þau smit séu einnig af völdum Delta af­brigðisins, sem talið er að hafi komið til landsins út frá landa­mærunum.

„Það er erfitt að rekja þau alveg saman en sum [tengjast], það er að segja fólk hefur verið þarna á skemmtana­lífinu á sömu skemmti­stöðum og tengjast þannig,“ segir Þór­ólfur og vísar þar til ein­stak­lings sem var á skemmti­stað í mið­bæ Reykja­víkur um helgina og greindist á mánu­dag.

Mjög líklegt að fleiri greinist

Að sögn Þór­ólfs er ekki ó­vænt að fleiri smit greinast þar sem smitin eru utan sótt­kvíar og hjá ó­tengdum aðilum. Flestir sem hafa verið að greinast eru þó ungir bólu­settir ein­staklingar og því vonir bundnar við að veikindi þeirra verði væg, líkt og það hefur verið hjá bólu­settum sem greinast.

„Þetta segir okkur það að veiran er þarna úti í sam­fé­laginu og við vonum bara að hún fari ekki að valda sýkingum hjá við­kvæmum hópum, það er það sem málið snýst um,“ segir Þór­ólfur. „Mér finnst mjög lík­legt að við munum fara að greina fleiri núna á næstunni.“

Lifum áfram í óvissu

Að­spurður um hvort frekari að­gerðir séu til skoðunar til að bregðast við út­breiðslu veirunnar segir Þór­ólfur svo alltaf vera. Ó­líkt fyrri bylgjum far­aldursins eru þó flestir bólu­settir gegn veirunni að svo stöddu sem spilar inn í.

„Nú er stór hluti lands­manna bólu­settur og ég vona að það muni skila okkur í bæði færri smitum og líka miklu vægari sjúk­dómum, það er það sem málið kannski gengur út á líka. Þannig að við þurfum bara að­eins að hinkra við en þetta er alltaf til skoðunar, hvort það þurfi að grípa til ein­hverra að­gerða.“

„Þetta er ekkert það síðasta sem við göngum í gegnum hvað þetta varðar. Far­aldurinn er á hvínandi siglingu í mörgum löndum,“ segir Þór­ólfur. „Þannig að meðan far­aldurinn er í gangi í út­löndum að þá lifum við í þessari ó­vissu, og munum gera.“