Starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa staðið í ströngu í dag við að hreinsa frá niðurföllum vegna vatnselgs sem víða hefur myndast í kjölfar hlýrra veðurs og rigningar í dag. Hjalti Guðmundsson skrifstofustjóri reksturs og umhirðu segir að starfsfólk hafi farið snemma út í dag og sé úti að leita að stíflum og sé að hreinsa.
„Það eru að myndast pollar og vatnselgur víða og þegar snjórinn bráðnar er oft eitthvað rusl í honum. Við þekkjum lágpunkta og ákveðin vandræðaniðurföll,“ segir Hjalti sem á von á því að staðan verði svipuð alla helgina og starfsfólk því á vakt.

Hann segir að hægt verði að senda inn ábendingar á ábendingavef Reykjavíkurborgar og að vel verði fylgst með tilkynningum næstu daga. Hann segir að starfsfólk borgarinnar reyni eftir fremsta megni að hreinsa það sem það getur en segir að hafi fólk áhyggjur geti það til dæmis farið á vef borgarvefsjárinnar til að sjá hvar niðurföll eru við þeirra götur. Með því að skrá inn götuheiti og svo velja inn í þekjuleit holræsi og niðurföll og þá er hægt að sjá hvar þau eru staðsett.
„Það er hægt að senda inn ábendingar til okkar en ef fólk hefur miklar áhyggjur þá á það auðvitað bara að heyra í lögreglu og þau senda slökkviliðið á vettvang. Það er best,“ segir Hjalti að lokum.

Hvetja fólk í fyrirbyggjandi aðgerðir
Lárus Steindór Björnsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu vonast til að mesti skaðinn í dag sé skeður. Hann ítrekar við fólk að moka frá niðurföllum svo vatn leki ekki í hús.
„Það eru búnar að koma um tíu tilkynningar um vatnstjón sem við höfum farið í það sem af er degi. Ég held að mesti skaflinn sé búinn, en það er spurning núna þegar fólk er að koma heim eftir vinnu og fer að taka eftir vatnstjóni heima hjá sér,“ segir Lárus og bætir við að vatnslekarnir inn í hús hafi oftast verið minniháttar.
„Það hefur gengið vel hjá okkur að takast á við vatnselginn. En við þurfum að brýna fyrir fólki að moka, þar sem það er aftur vatnsveður á morgun. Fólk þarf að moka frá niðurföllum og aðrar fyrirbyggjandi aðgerðir, svo vatn leki ekki inn í hús,“ segir Lárus.