Ingvar Þór­odds­son, odda­dómari í úr­slita­keppni MORFÍS milli Flens­borgar og Verzló í ár, er ekki fyrsti odda­dómarinn í úr­slitum sem fyrir slysni hefur til­kynnt rangan sigur­vegara. Það gerði grín­istinn Jóhann Al­freð Kristins­son í sögu­frægri úr­slita­keppni milli FB og Verzló líka árið 2005. Bragi Þór Sigurðs­son, ljóð­skáld var í liði FB og segir liðs­fé­laga sína í­huga að bjóða Flens­byrgingum út að borða.

Líkt og Frétta­blaðið greindi frá á mið­viku­dags­kvöld lenti Ingvar Þór­odds­son í því að greina frá vit­lausum sigur­vegara keppninnar. Horfði Ingvar fyrst á stiga­mun og til­kynnti Flens­borg sem sigur­vegara, enda Flens­borg með fleiri stig. Vegna knapps mis­munar gilti hins­vegar fjöldi dómara sam­kvæmt nú­verandi reglum og dæmdi meiri­hluti þeirra Verzló tæpan sigur og því fór sem fór.

Þegar sagan endur­tók sig.....ekki

Árið 2005 var Jóhann Al­freð í sömu sporum og Ingvar, hann var odda­dómari í úr­slitum þar sem Verzló og FB mættust með menn innan­borðs á borð við Björn Braga Arnars­son grín­ista og Braga Pál Sigurðar­son, ljóð­skáld.

Níu árum áður, árið 1996, höfðu sömu skólar mæst í úr­slitum. Þá sigraði FB og veltu því allir fyrir sér hvort að sagan myndi endur­taka sig.

Þetta vissi Jóhann Al­freð sem steig upp í pontu til að kynna úr­slitin, rétt eins og Ingvar nú á dögunum. „Það munaði litlu áðan og það setti stemninguna fyrir kvöldið því að sagan endur­tekur sig...“ sagði Jóhann Al­freð og komst ekki lengra því salurinn trylltist í fagnaðar­látum FB-inga.

Það heyrði því enginn þegar Jóhann bætti við því sem öllu máli skipti, orðinu „Ekki!“ í lok setningarinnar. Verzló hafði sigrað en ekki FB og sagan því alls ekki endur­tekið sig.

Horfa má á stundina víðfrægu þegar Jóhann tilkynnir sigurvegara á mínútu 2:00:30 í myndbandinu hér að neðan:

Á alla samúð Jóhanns

„Hann hafði alla mína sam­úð,“ segir Jóhann Al­freð um málið í sam­tali við Frétta­blaðið og viður­kennir að það hafi verið á­takan­legt að horfa á mynd­skeið af Ingvari stíga í svipuð fót­spor 16 árum síðar.

„Þetta virkar ein­falt verk­efni en svo getur þetta þróast á alla vegu. Það er raf­mögnuð spenna í salnum og þetta sat í manni lengi vel, þannig við stofnum stuðnings­klúbb,“ segir hann. Jóhann keppti sjálfur í Morfís fyrir MR, varð ræðu­maður Ís­lands árið 2003 en sigraði aldrei keppnina og veit því vel hvað er í húfi.

Að­spurður að því segir Jóhann að hann sé enn minntur á þetta af og til. „Og við skulum bara orða það þannig að fyrstu næturnar eftir að þetta gerðist þá svaf maður ekki vel,“ út­skýrir Jóhann. „Það fyndna er að hvort sem þú ert þjálfari eða odda­dómari í úr­slitum að þá tekur það oft meira á þig heldur en að keppa, því að þú upp­lifir stemninguna öðru­vísi.“

„Þessir krakkar auð­vitað leggja gríðar­lega mikið á sig og svo bæði í mínu til­viki og ég held það hafi nú verið svipað þarna, munar bara eigin­lega engu og nánast hending ein hver vinnur og gríðar­lega jafnar keppnir,“ segir Jóhann.

Hann segist lík­lega aldrei hafa verið jafn stressaður og í pontunni þetta kvöld þegar hann til­kynnti úr­slitin. „Miklu frekar heldur en þegar ég var að keppa sjálfur, ég var bara ný­út­skrifaður og þekkti kepp­endur í báðum liðum, þannig þetta var erfitt,“ segir Jóhann.

„En þetta er bara ó­trú­legt því þetta getur gerst og þetta er mann­legt. Þetta eru bara mann­leg mis­tök,“ segir Jóhann. Hann rifjar upp sam­bæri­leg at­vik líkt og þegar Höskuldur Þór­halls­son var ó­vart nefndur for­maður Fram­sóknar­flokksins og fenginn upp á svið þrátt fyrir að hafa tapað fyrir Sig­mundi Davíð árið 2009 og þegar kvik­myndin La La Land hlaut Óskars­verð­laun í skamma stund 2017 þrátt fyrir að það hafi verið kvik­myndin Moon­light sem vann.

„Ó­trú­legt en satt þá er þetta gletti­lega al­gengt. Maður myndi halda að það væru ekki til pott­þéttari prótó­kolar og það var endur­skoð­enda­fyrir­tæki sem sá um að allt væri í lagi. Þannig að ef svona lagað getur komið fyrir á Óskars­verð­laununum þá getur það svo sannar­lega komið upp á í ræðu­keppnum.“

Hér að neðan má sjá frétt Stöðvar 2 þar sem fjallað var um það þegar Höskuldur var lýstur sigurvegari en Vísir rifjaði það upp árið 2015:

Skipti miklu máli í miðjum Morfís stormi

Bragi Páll Sigurðar­son var keppandi í liði FB og hélt í ör­skots­stund að hann hefði loksins náð tak­marki sínu og sigrað keppnina. Það veit því enginn betur en hann og liðs­fé­lagar hans hvernig kepp­endum í liði Flens­borgar líður eftir mið­viku­dags­kvöldið.

Bragi segir að­spurður að at­vikið á mið­viku­dags­kvöld hafi kallað fram minningar um at­vikið í Há­skóla­bíó fyrir 16 árum síðan. Liðið bjó til hóp­spjall þar sem þetta var rifjað upp, eftir að gömlu FB-ingarnir fylgdust með liði Flens­borgar ganga í gegnum það sama.

„Þetta var tölu­vert mikið á­fall fyrir okkur, þó að nú séum við ekkert mikið að velta okkur upp úr Morfís eða fastir í þessum at­burðum,“ segir Bragi. „Morfís er svo bjána­legur staður ef þú ert ekki þar en mjög al­var­legur og merkingar­þrunginn staður þegar þú ert í miðjum Morfís storminum.“

Bragi var í Morfís liði FB í þrjú ár og segir allt hafa snúist um keppnina á þeim tíma. „Það að vinna Morfís var það eina sem skipti mig máli,“ segir Bragi og viður­kennir að námið hafi mætt af­gangi. „Árið bara byrjaði í 16. liða úr­slitum Morfís og það endaði í úr­slitum Morfís og allt annað skipti ekki máli.“

Bragi gat ekki sleppt takinu á Morfís eftir úrslitin 2005 og varð árið eftir þjálfari Morfís liðs Menntaskólans í Hraðbraut.
Fréttablaðið/Vilhelm

Að­spurður að því hvernig hafi verið að horfa á mynd­bandið af úr­slitunum núna rifjar Bragi það upp að liðið hafi brotnað gjör­sam­lega saman. „Morfís er eins og aðrar list­greinar, það er mjög erfitt að ætla að dæma og finna ein­hvern sigur­vegara, sér­stak­lega í svona jöfnum keppnum,“ segir Bragi.

„Þegar ég horfi á þetta mynd­band af þessum krökkum tapa rifjast það upp fyrir mér hvað þetta eyði­lagði í kjöl­farið mörg ár af mínu lífi,“ segir Bragi ein­lægur. Hann út­skýrir að sitt sjálf á þeim tíma hafi verið múl­bundið við það að hann væri Morfís stjarna.

„Sem er al­gjör­lega pínu­lítill heimur upp í Fjöl­braut í Breið­holti þar sem ég var eitt­hvað legend, að ég hélt. Svo töpum við þessari keppni og skolumst ein­hvern­veginn úr skóla,“ út­skýrir Bragi.

„Svo ég bara tali fyrir sjálfan mig, að þá var ég mjög týndur þarna í tölu­vert langan tíma í kjöl­farið. Af því að ég upp­lifði ein­hvern­veginn að það hefði verið brotið á mér,“ segir Bragi. Hann segir að úr­slitin 2005 hafi verið eina keppnin sem hann hafi tapað og raun­veru­lega upp­lifað úr­slitin ó­sann­gjörn.

Í þokka­bót hafi Jóhann Al­freð verið til­nefning þeirra fé­laga í FB í dómara­samningum milli liðanna. Í Morfís tíðkast það að liðin semji um dómara fyrir keppni. Bragi var sjálfur í MR með Jóhanni áður en hann fór í FB og þeir góðir vinir. „Og við vorum mjög góðir fé­lagar,“ út­skýrir Bragi.

Til í að setjast niður með keppendum Flensborgar

„Svo var ég bara í nokkur ár að finna sjálfan mig í kjöl­farið út af þessu öllu. Ekki bara út af einum at­burði, líka bara vegna þess hvað Morfís er mikill hvirfil­bylur og svo þegar þú slítur þig úr honum þá veistu bara ekkert hver þú ert lengur,“ segir Bragi.

„Ég get ekki farið að blasta á sam­býlis­konu mína ein­hverjar Morfísræður, eða sigrað hana í ein­hverjum rök­ræðum um það hvað á að vera í kvöld­matinn, því þá er ég bara að vera mjög obn­oxious manneskja. Þannig margir fara og finna sér ein­hvern far­veg í fjöl­miðlum eða stjórn­málum,“ út­skýrir Bragi.

„Ef þú ert ekki þar, hvað er maður þá? Ég þurfti bara að fara að leita að mér í kjöl­farið af Morfís. Sem hljómar mjög fá­rán­lega því Morfís er svo petty og bjána­leg en í mínu til­viki er það þannig.“

Bragi fór í Mennta­skólann í Hrað­braut eftir að hann hætti í FB. Þar setti hann á fót innan­skóla­ræðu­keppni og setti saman Morfís lið sem hann þjálfaði sjálfur. „Ég keppti ekki sjálfur því ég var kominn með al­gjört ógeð af því að keppa en samt var ég svo fastur í þessu egó­trippi að ég gat ekki sleppt höndunum af því.“

Síðan eru liðin 16 ár og Bragi segir að sér þyki þrátt fyrir allt vænt um að hafa gengið í gegnum þetta. „Þetta var mjög mótandi en enn þann dag í dag á ég bara erfitt með að tala frammi fyrir fólki. Ég get það alveg og er mjög flinkur í því en mér finnst það mjög ó­þægi­legt af því að þetta er svo bein­tengt þessum árum þar sem ég var að skúlptúra sjálfan mig sem ein­hvern ræðu­mann og ein­hvern óratór og þetta var bara það eina sem skipti máli,“ segir hann.

Fögnuður nemenda Flensborgarskólans entist ekki lengi rétt eins og fögnuður Braga og félaga fyrir sextán árum síðan.
Fréttablaðið/Skjáskot

„Ég held í al­vörunni, og við vorum að ræða þetta í gær, að það væri mjög sniðugt að krakkar sem kæmu út úr Morfís fengu ein­hverja leið­sögn eða ein­hverja mark­þjálfun frá ein­hverjum eldri Morfís kempum, bara til að átta sig á því að það er eitt­hvað líf eftir Morfís og þó þú tapir eða vinnir þá segir það þér ekkert og er ekkert upp­haf eða endir á þínum per­sónu­leika eða þínum ferli, það breytir engu, haltu bara á­fram með líf þitt og gerðu svo eitt­hvað nýtt,“ segir Bragi.

Hann bendir á að hann sé ekki sá eini sem hafi legið eftir í sárum eftir ræðu­keppnina vin­sælu. Þar nefnir hann rapparann og bar­eig­andann Dóra DNA sem sjálfur tapaði í úr­slitum Morfís árið 2004 í liði MH. Dóri talaði í sex sekúndur yfir tíma og hreppti því sex refsis­stig fyrir lið MH gegn Verzló. Verzló sigraði keppnina með sex stiga mun.

„Þetta er svo mikil sleggja í and­litið. Og við höfum alveg talað um það að þetta sé bara mjög mann­skemmandi reynsla. Jú jú þú lærir á­kveðna tækni, með­höndlun á texta og að koma fram fyrir fólk en það er allt­of mikil vigt lögð í þetta. Innan skólanna og af þjálfurum og enginn stuðningur í kjöl­farið. Þetta hljómar mjög dramatískt, það er allt í lagi með okkur en við vorum í steik eftir þetta!“ segir Bragi léttur.

Hann segir að­spurður að raunir Flens­byrginga og mis­tök Ingvars í anda Jóhanns Al­freðs hafi ein­fald­lega fært sig aftur tímann og mynd­bandið virkað eins og tíma­vél. „Já, þú heyrir það alveg. Við vorum að tala um að við þyrftum að hafa sam­band við þau og bjóða þeim út að borða og gera þeim ljóst að þetta sé allt í lagi,“ segir Bragi.

„Við erum allir sem vorum í þessu liði boðnir og búnir til þess að fara og éta einn ham­borgara með þessum krökkum og klappa þeim á bakið og segja þeim að sex­tán árum seinna þá ættu þau kannski að vera búin að gleyma þessu.“