Um­hverfisaktív­istinn Greta Thun­berg segir að heimurinn hafi sóað síðast­liðnum tveimur árum þegar kemur að loft­lags­málum en tvö ár eru síðan að Thun­berg, þá fimm­tán ára gömul, fór í sitt fyrsta skóla­verkall fyrir lofts­lagið. Frá þeim tíma hafa fjöl­margir nem­endur um allan heim fylgt hennar for­dæmi og barist fyrir breytingum.

Í grein sem Thun­berg skrifar á­samt öðrum aktív­istum fyrir Guar­dian kemur fram að ýmis­legt hafi gerst í loft­lags­málum síðast­liðin tvö ár, til að mynda hafi Evrópu­þingið lýst yfir neyðar­á­standi vegna loft­lags- og um­hverfis­mála. Þrátt fyrir það hafi losun gróður­húsa­loft­tegunda aukist og víða um heim glími fólk við náttúru­ham­farir.

Fáfræði og afneitun kjarni vandamálsins

„Í dag tala leið­togar um allan heim um „til­vistar­kreppu“. Rætt er um neyðar­á­standið í loft­lags­málum í ó­teljandi pall­borðs­um­ræðu­hópum og á leið­toga­fundum. Skuld­bindingar eru gerðar, miklar ræður fluttar. En þegar það kemur að að­gerðum erum við enn í af­neitun,“ segir í greininni. „Við höfum tapað tveimur árum til við­bótar vegna að­gerðis­leysis stjórn­valda.“

Thun­berg og fé­lagar í­treka að til að árangur náist í bar­áttunni við lof­lags­vánna þurfi ríkar þjóðir að minnka mengun þeirra en það virðist vera eitt­hvað sem fólk í valda­stöðu neiti að viður­kenna. „Þessi blanda af fá­fræði, af­neitun og ó­vitund er kjarni vanda­málsins.“

Tíminn að renna frá okkur

Að mati vísinda­manna þarf að minnka kol­efnislosun heimsins um helming áður en ára­tugnum lýkur ef mann­kynið vill eiga raun­veru­legan mögu­leika á að halda hlýnun jarðar undir 1,5 gráðum, líkt og kveðið er á í Parísar­sam­komu­laginu. Þrátt fyrir að CO­VID-19 heims­far­aldurinn hafi haft ein­hver á­hrif muni það hafa ó­veru­leg á­hrif til fram­tíðar.

„Við erum enn með fram­tíðina í okkar höndum. En tíminn rennur hratt frá okkur. Við getum enn forðast verstu af­leiðingarnar. En til þess þurfum við að horfast í augu við loft­lags­vánna og breyta hátt­semi okkar. Það er ó­þægi­legi sann­leikurinn sem við getum ekki forðast.“