„Þegar ég seig niður byrjaði sprungan að þrengjast svo svaðalega að hún byrjar að pressa brjóstkassann saman. Þú verður einhvern vegin að ná að stýra önduninni svo þú þurftir ekki að þenja brjóstkassann of mikið út,“ segir Þórður Guðnason björgunarsveitarmaður frá Akranesi.
Óttar Sveinsson ræðir við Þórð í þættinum Útkall sem frumsýndur verður á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í kvöld klukkan 19:30.
Þórður þurfti að síga öfugur niður í hyldýpi jökulsprungu sem var á dýpt við átta hæða hús. Slys hafði átt sér stað uppi á Langjökli í janúar 2010 þegar móðir og 7 ára drengur féllu skyndilega niður í sprunguna þegar jeppaleiðangur var á ferð uppi á jöklinum í janúar 2010.
Hér áttu sér stað afar tvísýnar björgunaraðgerðir – móðirin lést en mjög var óttast um líf drengsins áður en Þórður og félagar sýndu af sér ótrúlega hetjudáð.
Í Útkallsþættinum á Hringbraut talar Óttar við Þórð þar sem hann lýsir björgunaraðgerðinni og hvernig tókst að bjarga drengnum á síðustu stundu. Hér að neðan má sjá sýnishorn úr þætti kvöldsins.