„Þegar ég seig niður byrjaði sprungan að þrengjast svo svaða­lega að hún byrjar að pressa brjóst­kassann saman. Þú verður ein­hvern vegin að ná að stýra önduninni svo þú þurftir ekki að þenja brjóst­kassann of mikið út,“ segir Þórður Guðna­son björgunar­sveitar­maður frá Akra­nesi.

Óttar Sveins­son ræðir við Þórð í þættinum Út­kall sem frum­sýndur verður á sjón­varps­stöðinni Hring­braut í kvöld klukkan 19:30.

Þórður þurfti að síga öfugur niður í hyl­dýpi jökul­sprungu sem var á dýpt við átta hæða hús. Slys hafði átt sér stað uppi á Lang­jökli í janúar 2010 þegar móðir og 7 ára drengur féllu skyndi­lega niður í sprunguna þegar jeppa­leið­angur var á ferð uppi á jöklinum í janúar 2010.

Hér áttu sér stað afar tví­sýnar björgunar­að­gerðir – móðirin lést en mjög var óttast um líf drengsins áður en Þórður og fé­lagar sýndu af sér ó­trú­lega hetju­dáð.

Í Út­kalls­þættinum á Hring­braut talar Óttar við Þórð þar sem hann lýsir björgunar­að­gerðinni og hvernig tókst að bjarga drengnum á síðustu stundu. Hér að neðan má sjá sýnis­horn úr þætti kvöldsins.