Metropolitan listasafnið í New York mun sýna nýtt margmiðlunarverk íslenska listamannsins Ragnars Kjartanssonar í vor. Listasafnið pantar þrjú verk fyrir komandi ár.

Metropolitan-safnið er stærsta listasafn Bandaríkjanna og heimsóttu 7,3 milljónir manna listasafnið árið 2016. Safnið er því fjórða fjölsóttasta listasafn heims.

Verk Ragnars ber enska heitið Death is Elsewhere, sem mætti þýða sem Dauðinn er annars staðar. Því er lýst sem gagnvirku myndbandsverki á heimasíðu listasafnsins og verður til sýningar í Robert Lehman-álmu safnsins frá 30. maí til 2. september.

Ragnar Kjartansson er menntaður í Listaháskóla Íslands og Konunglegu Akademíunni í Stokkhólmi. Hann hefur sýnt list sína um heim allan og var árið 2009 yngsti listamaðurinn til að sækja Feneyjartvíæringinn fyrir Íslands hönd.