Dagur B. Eggertsson er í dag fimmti þaulsætnasti borgarstjóri Reykjavíkur og hefur samtals setið í stólnum í rúm átta ár. Verði hann borgarstjóri áfram fer hann upp í 3. sæti yfir þaulsætnustu borgarstjóra Reykjavíkur frá upphafi og skákar Davíð Oddssyni, sem var borgarstjóri í níu ár, einn mánuð og nítján daga á árunum 1982 til 1991, úr því sæti.

Dagur B. Eggertsson getur á næsta ári orðið þriðji þaulsætnasti borgarstjóri sögunnar
Fréttablaðið/Valli

Ef miðað er við samfellda setu í stóli borgarstjóra verður það 24. júlí næsta ár sem Dagur skákar Davíð úr 3. sætinu, en Dagur sat í rúma þrjá mánuði sem borgarstjóri frá október 2007 fram í janúar 2008.

Í 4. sætinu situr Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem var borgarstjóri í átta ár, sjö mánuði og nítján daga á árunum 1994 til 2003.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er eina konan sem kemst á topp fimm listann.
Fréttablaðið/Stefán

Þaulsætnasti borgarstjóri Reykjavíkur frá upphafi er Gunnar Thoroddsen, sem var borgarstjóri frá því í febrúar 1947 og fram í október 1960, eða í þrettán ár, átta mánuði og tvo daga. Gunnar tók raunar við embætti fjármálaráðherra í Viðreisnarstjórninni 19. nóvember 1959 og fór í leyfi sem borgarstjóri og lét ekki formlega af embætti fyrr en í október 1960. Hann náði því í raun ekki þrettán árum.

Sá sem í raun hefur setið lengst er Geir Hallgrímsson, sem sat í stólnum frá því í nóvember 1959 til 1. desember 1972. Þegar Geir lét af embætti var hann orðinn þingmaður Reykvíkinga. Davíð Oddsson, sem sat í rúm níu ár, 1982 til 1991, hefur sérstöðu meðal reykvískra borgarstjóra. Í tvo og hálfan mánuð, 30. apríl til 16. júlí 1991, gegndi hann embætti borgarstjóra, ásamt því að vera forsætisráðherra lýðveldisins. Enginn annar Íslendingur hefur leikið það eftir.

Davíð Oddsson sat í rúm níu ár sem borgarstjóri og var forsætisráðherra síðustu vikur borgarstjóraferilsins.
Fréttablaðið/Anton

Segja má að Davíð hafi farið að dæmi Frakka, en rík hefð er fyrir því þar í landi að forsætisráðherra gegni jafnframt embætti borgarstjóra. Jacques Chirac, sem síðar varð forseti Frakklands, var til dæmis borgarstjóri Parísar þegar hann gegndi embætti forsætisráðherra, fyrst í forsetatíð Valery Giscard d’Estaing á 8. áratug síðustu aldar og aftur í forsetatíð Francois Mitterand á 9. áratugnum. Þegar hann var kosinn forseti Frakklands, 1995, lét hann af embætti borgarstjóra.

Davíð gerði atlögu að því að feta á ný í fótspor Chirac þegar hann bauð sig fram til forseta 2016 en hafði ekki erindi sem erfiði.

Á næstu dögum kemur í ljós hvort Dagur nær þriðja sætinu.

Uppfært: Við samanburð á embættissetu borgarstjóra Reykjavíkur var ekki nefnt að Knud Zimsen sat í 18 ár sem borgarstjóri, 1914-1932. Hann var upphaflega ráðinn samkvæmt auglýsingu í blöðum en í samanburðinum var horft til þeirra sem orðið hafa borgarstjórar sem pólitískir leiðtogar.