Sam­kvæmt á­ætlun Reykja­víkur­borgar verða yngstu börnin í leik­skólum borgarinnar á vor­mánuðum ekki eldri en 16 mánaða. Elst verða þau í út­hverfum borgarinnar og yngst, 14 mánaða, í Vestur­bæ, Mið­borg og Hlíðum.

„Al­mennt er staðan þannig að það hefur verið auð­veldara að komast inn með ung börn í hverfum í austur­borginni en með fjölgun leik­skóla­plássa á næstunni mun staðan vænkast veru­lega í mið- og vestur­borginni,“ segir Skúli Þór Helga­son, for­maður skóla- og frí­stunda­ráðs, um bið barna eftir leik­skóla­plássi í borginni í dag.

Sam­kvæmt nýjustu tölum frá skóla- og frí­stunda­sviði Reykja­víkur­borgar bíða færri en 20 börn 18 mánaða og eldri eftir því að komast inn á leik­skóla í út­hverfum borgarinnar, þar sem best hefur gengið að inn­rita í sam­ræmi við sam­þykkt við­mið um inn­ritun barna í leik­skóla við 18 mánaða aldur á hverju hausti. Það er í Árbæ, Breið­holti, Grafar­holti og Úlfarsár­dal og Grafar­vogi. Til saman­burðar eru 47 börn á sama aldri í bið í Mið­borg, Hlíðum og Vestur­bæ og 44 börn í Háa­leiti og Bú­stöðum og Laugar­dal.

„Það eru fá eldri börn á bið­lista og margir leik­skólar búnir að klára sína bið­lista á þessum hefð­bundna inn­töku­aldri,“ segir Skúli Þór.

Hann segir að á­kjósan­legast væri að börn kæmust inn á sama aldri alls staðar í borginni. Þannig hafi það þó ekki verið vegna mis­munandi stærðar leik­skóla, ó­líkrar eftir­spurnar eftir leik­skóla­plássi o.s.frv.

„Skiptingin er mis­munandi eftir hverfum, eftir­spurnin er mis­jöfn í leik­skólana og stærð þeirra líka. Þar sem hefur verið mikil eftir­spurn í fá­menna leik­skóla hefur verið erfiðara að komast inn með ung börn en svo eru á móti leik­skólar í öðrum hverfum þar sem um­sóknir eru færri og þá komast börnin yngri inn. En með Brúum bilið-að­gerða­á­ætluninni erum við að bæta stöðuna veru­lega með mikilli fjölgun plássa um alla borg, ekki síst utan hins hefð­bundna inn­ritunar­tíma á haustin, og horfum því fram á betra jafn­vægi í borginni varðandi að­gengi barna að leik­skólunum,“ segir Skúli Þór.

Staðan betri í Háaleiti og Bústöðum og Laugardal

Gerð var spá á þremur tíma­punktum varðandi hversu gömul yngstu börnin verða í leik­skólum borgarinnar og tekið inn í út­reikningana þau pláss sem á að bæta við í vetur í Ævin­týra­borgum og í þeim nýju leik­skólum sem eiga að taka til starfa. Tíma­punktarnir eru 1. janúar, 1. mars og 1. maí.

Í út­hverfum borgarinnar er gert ráð fyrir að yngstu börnin þann 1. janúar verði 14 mánaða, í Háa­leiti og Bú­stöðum og Laugar­dal er staðan verst, en þá er gert ráð fyrir að yngstu börnin á bið­lista séu 25 mánaða, eða tveggja ára. Í Vestur­bæ, Mið­borg og Hlíðum er gert ráð fyrir að yngstu börnin séu eins árs.
Þann 1. mars 2022 verður búið að bæta við Ævin­týra­borg við Vörðu­skóla, en með því bætast við 60 pláss í Vestur­bæ, og annarri við Voga­byggð sem bætir 100 plássum við í Laugar­dal.
Þá er staðan orðin nokkuð betri í Háa­leiti og Bú­stöðum og Laugar­dal og er þá gert ráð fyrir að yngstu börnin verði 15 mánaða, yngstu börnin í út­hverfum verða 16 mánaða og í Vestur­bæ, Mið­borg og Hlíðum verða þau 14 mánaða vegna þess að þau hafa elst um tvo mánuði.

„Það hefur verið mest þörf á nýjum plássum í Vestur­bæ, Háa­leiti og Bú­stöðum og í Laugar­dal og við mætum þeirri þörf hratt á komandi mánuðum og misserum. Við fjölgum veru­lega leik­skóla­plássum, fyrst með um 60 nýjum plássum sem bætast við á þessu hausti í þremur leik­skólum, í Vestur­bæ, Breið­holti og Grafar­vogi. Í kjöl­farið verða fjórir nýir leik­skólar opnaðir í Ævin­týra­borgum mið­svæðis í borginni sem við stefnum að því að opna sitt hvorum megin við næstu ára­mót með rými fyrir alls 340 börn. Það eru Ævin­týra­borgir við Eggerts­götu sem þjóna mun Vestur­bæ, á Naut­hóls­vegi sem þjónar Mið­borg og Hlíðum, svo við Vörðu­skóla og í Voga­byggð og svo verða á næsta ári opnaðir nýir leik­skólar til við­bótar á ýmsum stöðum í borginni sem mun bæta stöðuna enn frekar. Þetta er ó­trú­lega spennandi tíma­bil og mesta upp­bygging í leik­skóla­málum sem sést hefur í ára­tugi,“ segir Skúli.

Íbúafjölgun meiri en gert var ráð fyrir

Til að reikna út þörf þarf að taka til greina mann­fjölda­spá og skoða hvar og hversu mikið er verið að byggja í nýjum hverfum. Skúli segir að fyrstu til­lögum hafi verið skilað í mars 2018 og að þörfin sé meiri en gert var ráð fyrir þá þegar miðað var við að þyrfti 700-750 ný pláss til að geta boðið börnum frá 12 mánaða aldri í leik­skóla. Í­búum hefur hins vegar fjölgað meira í borginni en gert var ráð fyrir og þess vegna sé nú verið að leggja loka­hönd á endur­skoðun á­ætlunarinnar með enn frekari fjölgun plássa á komandi misserum og árum.
Þá kemur fram að á vor­mánuðum á næsta ári sé ráð­gert að bæta við tals­verðum fjölda nýrra plássa í nýjum leik­skólum og starfandi leik­skólum í borginni. Nánari upp­lýsingar um fjölda og tíma­setningar verða birtar þegar nær dregur.

Tekið skal fram að inn í þessa út­reikninga eru ekki tekin plássin í stærstu út­hlutun plássa sem hefst í mars á hverju ári en þá er boðið í þau pláss sem losna þegar börn út­skrifast úr leik­skóla og fara í grunn­skóla eða flytja um hverfi.

Fréttin hefur verið uppfærð.