Sig­ríður Gísla­dóttir ólst upp hjá al­var­lega veikri móður og upp­lifði full­komið sinnu­leysi heil­brigðis­kerfis og þeirra er ættu að sinna vel­ferð barna.

Eftir skilnað og tálmun á um­gengni var föður hennar dæmt for­sjá yfir henni og þremur syst­kinum hennar en Sig­ríður upp­lifði ríka á­byrgðar­til­finningu gagn­vart móður sinni og bað í­trekað um að flytja til hennar.

„Hluti af hennar rang­hug­myndum eru um pabba. Að hann hafi beitt hana og okkur of­beldi og að mörgu leyti upp­lifi ég að ég hafi farið með henni inn í rang­hug­myndirnar, þetta var hálf­gerður heila­þvottur.“

Tólf ára hljóp Sig­ríður út eitt kvöldið til móður sinnar og sneri ekki aftur.

„Það var margt reynt til að fá mig til baka en á þessum tíma var það ekki hægt. Ég sagði pabba þó aldrei hversu veik mamma var enda vissi ég að þá yrði ég tekin frá henni.“

Dagmamma tólf ára

Það var á þessum tíma­punkti sem veikindin urðu enn al­var­legri.

„Ég hafði séð hana mjög veika en aldrei svona veika. Ég segi það oft að ég hafi orðið dag­mamma 12 ára enda hætti ég nánast alveg að mæta í skólann.

Mamma hringdi mig inn veika og skólinn lét pabba aldrei vita. Eitt sinn labbaði ég inn heima þar sem hún lá á gólfinu og börnin, sem voru í kringum tíu talsins, voru bara ein að leika sér. Hún bara gat ekki meira svo ég á­kvað að ég þyrfti að passa þessi börn. Þetta var lifi­brauðið og hélt okkur í þessari íbúð svo ég varð að láta það ganga.“

Fljót­lega fóru að berast kvartanir for­eldra og aðilar frá Leik­skólum Reykja­víkur sem þá héldu utan um starf­semi dag­mæðra, fóru að mæta á heimilið reglu­lega til að taka út að­stæður.

„Það endaði með því að hún missti leyfið. Ég er auð­vitað þakk­lát fyrir það en ég var þarna þegar þau komu í allar þessar heim­sóknir. Þau vissu að ég væri dóttir hennar en veittu því enga at­hygli. Þau úr­skurðuðu að hún gæti ekki séð um börn, en þarna var ég, barn - þegar ég átti að vera í skólanum - og þau at­huga ekkert með mig! Þetta fólk fór með eftir­lit með vel­ferð barna og það bara gekk út. Ég hugsa bara: „Hvernig gerist þetta?“