„Ég var að koma frá lögreglustöðinni og var að koma aftur í skólann,“ segir Jonathan Moto Bisagni, íbúi á Seyðisfirði og eigandi fyrirtækisins Austurlands Food Coop, í samtali við Fréttablaðið en hann var í haldi lögreglunnar fyrr í dag til að ræða óstaðfestar hótanir gegn forsætisráðherra.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi segir að þeim hafi borist upplýsingar um hótanir sem áttu að hafa beinst að forsætisráðherra en hún var þá stödd á Seyðisfirði ásamt þremur öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Í tilkynningu kemur fram að sá sem borinn var fyrir hótuninni hafi ekki verið á Seyðisfirði sjálfur og að eftir að lögregla ræddi við hann að engin frekari ástæða sé til frekari aðgerða gagnvart honum eða viðbragða að öðru leyti.
Jonathan segir í samtali við Fréttablaðið að hann hafi skynjað á lögreglustöðinni að yfirvöld hafi ekki óskað þess að hann væri viðstaddur þegar ráðherrar heimsóttu staði á Seyðisfirði og Egilsstöðum. Því hafi hann verið beðinn að koma á lögreglustöðina. Sem hann gerði sjálfviljugur.
„Ég er að fá mér kaffi á Egilsstöðum,“ segir Jonathan sem er enn í miklu uppnámi vegna atburða síðustu daga á Seyðisfirði. Eins og kom fram í frétt fyrr í dag telur hann að það hefði verið hægt að koma í veg fyrir svo mikla eyðileggingu vegna aurskriðanna sem féllu í síðustu viku og um helgina á Seyðisfirði.
Áttu að koma til að hlusta
„Þetta er ekki lýðræði og það er ekki í lagi að stjórnmálamenn noti sitt vald til að þagga niður í kjósendum. Það er ekki í lagi og það er það sem er að gerast hér. Þau áttu að koma hingað til að hlusta á mig en tóku mig í hald til að komast hjá því. Þau vildu ekki heyra hvað ég hef að segja því ég vil láta þau axla ábyrgð,“ segir Jonathan.
Hann segir að honum þyki ekki trúanlegt að ekki hafi verið hægt að koma í veg fyrir svo mikla eyðileggingu og vísar til bæði skýrsla og íbúafunda á Seyðisfirði þar sem ofanflóðavarnir hafi verið ræddar í þaula.
„Það hefði verið hægt að koma á einhverjum forvörnum eða að rýma fyrr,“ segir Jonathan.
Ekki illa við Katrínu
Hann segir að sé ábyrgð þingmanna að koma á staðinn til að hlusta á fólk og þeirra sögur svo þau skilji í raun hvað gerðist og hvað eigi sér stað austur á landi. Þá kallar hann eftir því að sömu viðbrögð séu við ofanflóðavörnum vegna aurskriða og snjóflóða.
„Þau spiluðu rússneska rúllettu með líf okkar og kenna veðrinu um. Þau spiluðu rússneska rúllettu með líf okkar og töpuðu. En samt kenna þau veðrinu um og svo munu tryggingarnar leysa þau út. Það er ekki í lagi,“ segir Jonathan.
Hann segir að hann hafi ekkert á móti forsætisráðherra, honum þyki hún í raun fínasta kona, en honum þyki hún ekki í snertingu við samfélagið á Seyðisfirði.