„Ég var að koma frá lög­reglu­stöðinni og var að koma aftur í skólann,“ segir Jon­a­t­han Moto Bisagni, íbúi á Seyðis­firði og eig­andi fyrir­tækisins Austur­lands Food Coop, í sam­tali við Frétta­blaðið en hann var í haldi lög­reglunnar fyrr í dag til að ræða ó­stað­festar hótanir gegn for­sætis­ráð­herra.

Í til­kynningu frá lög­reglunni á Austur­landi segir að þeim hafi borist upp­lýsingar um hótanir sem áttu að hafa beinst að for­sætis­ráð­herra en hún var þá stödd á Seyðis­firði á­samt þremur öðrum ráð­herrum ríkis­stjórnarinnar. Í til­kynningu kemur fram að sá sem borinn var fyrir hótuninni hafi ekki verið á Seyðis­firði sjálfur og að eftir að lög­regla ræddi við hann að engin frekari á­stæða sé til frekari að­gerða gagn­vart honum eða við­bragða að öðru leyti.

Jon­a­t­han segir í sam­tali við Frétta­blaðið að hann hafi skynjað á lög­reglu­stöðinni að yfir­völd hafi ekki óskað þess að hann væri við­staddur þegar ráð­herrar heim­sóttu staði á Seyðis­firði og Egils­stöðum. Því hafi hann verið beðinn að koma á lög­reglu­stöðina. Sem hann gerði sjálf­viljugur.

„Ég er að fá mér kaffi á Egils­stöðum,“ segir Jon­a­t­han sem er enn í miklu upp­námi vegna at­burða síðustu daga á Seyðis­firði. Eins og kom fram í frétt fyrr í dag telur hann að það hefði verið hægt að koma í veg fyrir svo mikla eyði­leggingu vegna aur­skriðanna sem féllu í síðustu viku og um helgina á Seyðis­firði.

Áttu að koma til að hlusta

„Þetta er ekki lýð­ræði og það er ekki í lagi að stjórn­mála­menn noti sitt vald til að þagga niður í kjós­endum. Það er ekki í lagi og það er það sem er að gerast hér. Þau áttu að koma hingað til að hlusta á mig en tóku mig í hald til að komast hjá því. Þau vildu ekki heyra hvað ég hef að segja því ég vil láta þau axla á­byrgð,“ segir Jon­a­t­han.

Hann segir að honum þyki ekki trúan­legt að ekki hafi verið hægt að koma í veg fyrir svo mikla eyði­leggingu og vísar til bæði skýrsla og í­búa­funda á Seyðis­firði þar sem ofanflóðavarnir hafi verið ræddar í þaula.

„Það hefði verið hægt að koma á ein­hverjum for­vörnum eða að rýma fyrr,“ segir Jon­a­t­han.

Ekki illa við Katrínu

Hann segir að sé á­byrgð þing­manna að koma á staðinn til að hlusta á fólk og þeirra sögur svo þau skilji í raun hvað gerðist og hvað eigi sér stað austur á landi. Þá kallar hann eftir því að sömu við­brögð séu við ofan­flóða­vörnum vegna aur­skriða og snjó­flóða.

„Þau spiluðu rúss­neska rúllettu með líf okkar og kenna veðrinu um. Þau spiluðu rúss­neska rúllettu með líf okkar og töpuðu. En samt kenna þau veðrinu um og svo munu tryggingarnar leysa þau út. Það er ekki í lagi,“ segir Jon­a­t­han.

Hann segir að hann hafi ekkert á móti for­sætis­ráð­herra, honum þyki hún í raun fínasta kona, en honum þyki hún ekki í snertingu við sam­fé­lagið á Seyðis­firði.