Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, gefur lítið fyrir at­huga­semdir Per­sónu­verndar vegna rann­sóknar fyrir­tækisins á kóróna­veirufar­aldrinum svo­kallaða. Hann segir það skyldu vísinda­manna að koma þekkingu sinni á fram­færi. Þetta kom fram í Reykja­vík síð­degis á Bylgjunni.

Á vef Per­sónu­verndar í dag kemur fram að stofnunin telji að æski­legt hefði verið að Ís­lensk erfða­greining hefði upp­lýst strax í upp­hafi um að til stæði að rann­saka sýni sem fyrir­tækið tók vegna skimunar á kóróna­veirunni, en ekki bara í klíníska vinnu. Kári fór hörðum orðum um stofnunina um helgina.

„Lýsti ÍE því þá yfir að ekki ræddi um slíka rann­sókn heldur klíníska vinnu. Fallist var á þetta mat ÍE í sam­eigin­legri yfir­lýsingu Vísinda­siða­nefndar og Per­sónu­verndar sunnu­daginn 8. mars 2020. Nú hefur hins vegar komið í ljós að auk klínískrar vinnu er fyrir­huguð vísinda­rann­sókn. Æski­legt hefði verið að þetta hefði legið fyrir strax í upp­hafi,“ segir Per­sónu­vernd.

Misskilningur

„Þeir sem þar vinna hafa ekki hug­mynd um það sem þeir eru að gera. Þeir veita okkur leyfið en í lok bréfsins þar sem það var sagt sögðu þeir að það yrði að skoða þessa um­sókn í ljósi þess sem gerðist 7. mars þegar við fórum af stað með skimunina. Þeir gefa það í skyn í þessu loka­máls­grein að við höfum verið að plata, höfum alltaf ætlað að gera vísinda­rann­sókn en ekki bara verið að vinna klíníska vinnu,“ segir Kári.

„Mis­skilningurinnn í þessu er sá að hver einasta rann­sókn sem við höfum gert byrjar á því að við vinnum með gögn sem verða til þegar klínísk þjónusta er veitt. Venju­lega líður lengri tími en í dag er þetta stuttur tími vegna þess að það geysar hér far­aldur. Hann er að hreyfa sig hratt, hann er að meiða fólk, hann er að deyða fólk og hann er að leggja sam­fé­lagið á hlðina.

Við öfluðum gagna fyrir Sótt­varna­lækni, til að fá sýn á þa ðsem er að gerast á Ís­landi. Það var eini til­gangurinn með því að afla þessara gagna. En eins og alltaf þegar menn fá ein­hverja sýn á sjúk­dóm í okkar sam­fé­lagi, í gegnum þau gögn sem eru búin til við að veita kliníska þjónustu er það ekki bara svo að menn reyni oftast að leggja það fram þannig að aðrir geti lært af því, það er skylda manna að gera slíkt.“

Sátu á á­kvörðuninni

„Nú skulum við taka skref aftur á bak og segja að þessi vit­leysa Per­sónu­verndar sé rétt. Að við höfum verið undir­förulir og alltaf ætlað að fram­kvæma svona rann­sókn. Hver hefði þá glæpurinn verið? Glæpurinn heð­fi verið að auka þekkingu á sjúk­dómi sem er að geysa í sam­fé­laginu.

Ef þú lest bréfið er alveg ljóst að þau sátu á þessu yfir helgina, í þrjá daga á meðan til­fellin í heiminum þre­földuðust. Þau sátu á þessu til þess eins að sýna hver hefur valdið. Þau gerðu enga at­huga­semd við nokkurn skapaðan hlut í um­sókninni.

Í þessu felst slík mann­fyrir­litning að það er engin tak­mörk á því. Það er allt að fara á hliðina og á meðan þetta gerist er á­stæða til þess að hægja á því að það sé hægt að senda sýni frá sér svo það sé hægt að setja Kára Stefáns­son á sinn stað.“

Hvað þýðir þetta fyrir fram­haldið?

„Það þýðir það að við fáum leyfi til að setja niður­stöðurnar í það sam­hengi að það sé hægt að skrifa það upp sem rit­rýnda grein. Það er mjög erfitt fyrir heiminn að taka al­var­lega niður­stöður sem verða til í far­aldri sem þessum án þess að ein­hver hafi tæki­færi til að skoða þetta, hvort það sé vel að þessu staðið. Það er ekki önnur leið til að hjálpa heiminum með reynslunni úr þessu öðru­vísi en að setja það í rit­rýnda grein.

Við setjum nú, tveimur dögum síðar en við hefðum viljað, að hamra saman ein­hvers­konar grein. Venju­lega tekur það tvo til sex mánuði.“

Einn ein­stak­lingur með stökk­breytta og ó­stökk­breytta veiru

Að hverju hafið þið komist?

„Við höfum komist að því að í því þýði úr­taki þjóðarinnar sem fór í turn til að láta prófa sig, er eitt prósent sem reynist já­kvætt. Þegar maður horfir á að hér sé um að ræða slembi­úr­tak úr þjóðinni, sem þetta var ekki, myndi þða þýða að á Ís­landi væru 3600 Ís­lendingar sem væru sýktir.

En í fyrsta lagi held ég að þetta sé of­mat, því ég held að í turninn hafi verið meiri líkur á því að fólk hafi komið með á­hyggjur. Visst meðal­tal fólks sem hefur á­hyggjur hefur svo á­stæðu til að hafa á­hyggjur.

Svo er annað að börn sýkjast síður svo ég tel að þessi tala, 3600 er allt­of há, en þetta sýnir fram á ljós­lega að veiran er að dreifa sér í sam­fé­laginu, um­fram þá hópa sem við þekkjum sem á­hættu­hópa.

Annað er að við erum að rað­greina þessar veirur. Og við vitum noikkurn veginn hvaðan veiran hefur komið, frá hvaða landi í hvern einasta mann sem hefur sýkst á Ís­landi. Vegna þess að veiran er með tölu­vert mikla fjöl­breytni í röðum hennar. Það er á­kveðin sam­setning sem kemur frá Austur­ríki, Ítalíu, Eng­landi, Banda­ríkjunum og svo fram­vegis.

Til að byrja með var allt það sem var greint upp á Land­spítala með raðirnar frá Ítalíu og Austur­ríki. Nú hefur það breyst og er komið meira af röðum frá öðrum löndum sem á rætur sínar að rekja itl þess sem við höfum sýnt fram á, að það er hætta að veiran komi annars staðar frá.

Við höfum engin gögn sem stað­festa að hinir ýmsu stofnar af veirunni hegði sér mis­jafn­lega þegar þeir eru komnir í mann­skepnuna. Við höfum eitt dæmi sem er at­hyglis­vert en sýnir manni ekkert örugg­lega, bara að það á eftir að vinna í þessu. Við erum með einn ein­stak­ling með tvenns­konar veirur. Hann var með veiru með og án stökk­breytingu. En allir þeir sem hafa sýkst af þessum ein­stak­lingi eru með veiruna einungis með stökk­breytingu. Sem gæti verið af til­viljun einni saman en líka vegna þess að stökk­breytingin gæti hafa gert veiruna meira smitandi eða grimmari mann­skepnunni.

Það er líka at­hyglis­vert að sjá að það er ekki bara það að börn veikjast minna ef þau smitast. Þau hafa minni til­hneigingu til þess að smita. Þau eru í for­rétinda­hópi hvað tvennt snertir, smitast sjaldnar og ef þau smitast verða þau síður lasin. Sem eru mjög góðar fréttir, að minnsta kosti í mín eyru.“

Kemur greinin til með að hjálpa í bar­áttunni?

„Hún kemur til með að færa heiminum á­kveðið líkan og gögn sem við getum sett inn í þau líkön. Sem sýna fram á að þegar þú ert kominn með á­kveðinn á­hættu­hóp er hættan á því að þú lokir augunum fyrir öðrum glufum. Eins og í þessu til­felli þegar menn beina sjónum sínum a ð­Ölpunum laumast veiran bak­dyra­megin inn.

Það er ekki oft sem maður vonar að niður­stöður manns séu vit­lausar en ég vona í þessu til­felli að niður­stöður okkar um eina prósentið séu ekki réttar. Vegna þess að annars værum við með ansi stóran hóp í sam­fé­laginu sem væri smitaður og við vissum ekki af. Og eina leiðin til að geta haldið þessu í skefjum þá er að skima meira, leita uppi þetta fólk sé sjúkt. Sótt­kvíin er að virka.“

Sýna­tökupinnarnir eru upp­urnir. Stefnið þið á að skima þegar þeim fjölgar?

„Við erum að prófa pinna sem við fengum frá Össuri. Þeir gætu virkað, við erum að prófa þá núna og vonandi í kvöld getum við sagt hvort þeir virki eða ekki. Ef þeir virka þá eru til tuttugu þúsund pinnar í landinu og þá vonast ég til að allt fari á fullt.“