Atlantshafsbandalagið (NATO) er þakklátt fyrir framlag Íslendinga til þess. Þetta sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, á blaðamannafundi með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í Ráðherrabústaðnum í gær. Stoltenberg var á Íslandi í gær í boði Katrínar. Norðmaðurinn hitti einnig Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra og ræddi til að mynda við fulltrúa Landhelgisgæslunnar er hann lenti á Keflavíkurflugvelli.

„Helstu skilaboð mín eru í dag að þakka ykkur fyrir framlagið,“ sagði Stoltenberg. Hann nefndi eftirlit á Norður-Atlantshafi og framlag Íslands til ýmissa verkefna og aðgerða bandalagsins, til að mynda í Írak og Kósovó. Þá ræddi hann einnig um mikilvægi staðsetningar Íslands. Sagði hana hjálpa til við að „að binda Evrópu og Norður-Ameríku saman“.

Að því er Katrín sagði frá á blaðamannafundinum ræddu þau Stolten­berg um málefni norðurslóða, loftslagsmál, kjarnorkuafvopnun og svokallaðar blandaðar ógnir. Það er að segja öryggisógnir sem eru fjölþættar.

Norðurslóðir pólitískari

Forsætisráðherrann sagði þau Stoltenberg sammála um að norðurslóðir væru orðnar pólitískari og því fylgdi ýmislegt, bæði neikvætt og jákvætt. „Okkar sýn á Íslandi er að norðurslóðir skuli vera togstreitulaust svæði og við höfum einbeitt okkur að því sem formenn Norðurslóðaráðsins. Ekki einungis í loftslagsmálum heldur einnig á sviði friðsællar samvinnu,“ sagði Katrín.

Undir þetta tók Stoltenberg. „Boðskapurinn er að á norðurslóðum sé lítil togstreita. Við vinnum að því að viðhalda þeirri stöðu þrátt fyrir að hernaðarviðvera á svæðinu, einkum Rússa, aukist þar.“

Áhyggjur af kjarnorkuvopnum

Norðmaðurinn lýsti áhyggjum sínum af því að INF-kjarnorkusamningurinn, er gerður var eftir leiðtogafund þeirra Reagans og Gorbasjevs í Höfða, væri í hættu „vegna rússneskra samningsbrota“ og sagði bandalagið ætla að halda áfram að kalla eftir því að Rússar færu eftir samningnum.

„Ég held að það hafi auðvitað allir áhyggjur af aukinni togstreitu í þessum málaflokki,“ sagði Katrín og bætti því við að hún vonaði að lausn fyndist á málinu.

Forsætisráðherra sagði einnig auknar áhyggjur af blönduðum ógnum og stafrænu öryggi. Stoltenberg sagði þann málaflokk hluta af þeirri aðlögun Atlantshafsbandalagsins sem nú ætti sér stað. „Við munum halda þeim umræðum áfram þegar við hittumst á ný á leiðtogafundi NATO í Lundúnum í byrjun desember.“

Andstaðan engin fyrirstaða

Aðspurður um hvort andstaða Katrínar og flokks hennar við Atlantshafsbandalagsaðild Íslands hefði áhrif á samstarfið sagði Stolten­berg það af og frá. NATO væri bandalag 29 lýðræðisríkja og innan slíkra þrifust mismunandi sjónarmið og skoðanir.

Framkvæmdastjórinn tók fram að hann hefði áður verið forsætisráðherra Noregs í ríkisstjórn þar sem einn flokkanna var andvígur aðild. Samið hefði verið um stefnu ríkisstjórnarinnar og hún hefði verið fylgjandi aðild í heild. „Svarið er nei, þetta hefur ekki valdið neinum vandamálum.“

Helst mátti greina ágreining á fundi Katrínar og Stoltenbergs er þau ræddu um þjóðerni Leifs Eiríkssonar, að því er Katrín sagði sjálf frá á blaðamannafundinum. „Ég held það hafi verið erfiðasta umræðuefnið á fundi okkar.“