Kosning fer fremur hægt af stað í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem hófst í gær og lýkur í kvöld.

Þegar kjörstöðum lokaði í gær höfðu 1.226 kosið en áður höfðu 539 kosið utan kjörfundar. Alls hafa því 1.765 kosið áður en kjörstaðir opna í dag.

Til samanburðar tóku alls 7.208 þátt í prófkjöri flokksins fyrir alþingiskosningarnar í fyrra.

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður kjörstjórnar, segir tölurnar ekki endilega gefa til kynna að þátttaka verði dræm enda lítil hefð fyrir tveggja daga prófkjöri. Í gær hafi flestir verið í vinnu og aðaldagurinn sé í dag.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar hófstklukkan 11 í gær og stendur til klukkan 18 í dag.

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi og Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir varaborgarfulltrúi gefa báðar kost á sér til að leiða lista flokksins.

Mikil barátta er um 2. sæti listans en í það sæti gefa kost á sér borgarfulltrúinn Marta Guðjónsdóttir, varaþingmennirnir Friðjón Friðjónsson, Kjartan Magnússon og Þorkell Sigurlaugsson framkvæmdastjóri. Auk þeirra gefur Birna Hafstein, formaður félags íslenskra leikara, kost á sér í 2. til 3. sæti.

Alls gefa 26 kost á sér í prófkjörinu, þrettán konur og þrettán karlar. Meðal frambjóðenda eru sjö sitjandi borgarfullrúar auk nokkurra varaborgarfulltrúa.

Kosið verður á fimm stöðum í Reykjavík: í Valhöll, á Fiskislóð 10 á Granda og í félagsheimilum flokksins í Árbæ, Grafarvogi og Breiðholti.

Flokkurinn er með átta borgarfulltrúa í borgarstjórn en flokkurinn fékk flesta borgarfulltrúa allra flokka í síðustu kosningum. Samkvæmt nýrri könnun sem gerð var fyrir Fréttablaðið fengi flokkurinn 5 borgarfulltrúa.