„Það þarf engan geim­vísinda­mann til að sjá það að það voru miklar falsanir í gangi og það virðist vera sem að það hafi ekki verið neitt eftir­lit með þessum pappírum hjá okkur sem vorum ætt­leidd á þessum árum,“ segir Ívar Hlynur Inga­son sem var ætt­leiddur frá Srí Lanka um mið­bik níunda ára­tugarins. Ný­lega kom í ljós að ætt­leiðingar­pappírar Ívars eru falsaðir, sem Ívar segir að sýni hversu illa ís­lensk stjórn­völd hafi staðið að ætt­leiðingum barna frá Srí Lanka á þessum árum.

Syst­kinin Ívar og Harpa voru þátt­tak­endur í nýjustu þátta­röð Leitin að upp­runanum sem sýnd var á Stöð 2, en loka­þátturinn var í gær­kvöldi. Þar fylgdust á­horf­endur með þeim syst­kinum ferðast um Srí Lanka, í þeirri von um að finna mæður sínar eða fjöl­skyldur. Leitin bar árangur hjá Hörpu, en þegar pappírar Ívars voru skoðaðir betur kom á daginn að þeir voru falsaðir.

„Það kemur sem sagt í ljós að ég er tekinn af spítalanum af ein­hverjum barna­möngurum og það er ekkert vitað hvar ég var fyrstu fjórar vikur í lífi mínu, hver var með mér né hver kom með mig í dóms­salinn þegar ég var af­hentur for­eldrum mínum,“ segir Ívar.

Ívar Hlynur Ingason og Ása Nishanti voru ættleidd frá Sri Lanka en í ljós hefur komið að ættleiðngaskjöl hafi verið fölsuð.
Fréttablaðið/Anton Brink

Upplifði þvílíka gleði og brjálaða sorg á sama tíma

Þetta hafi fengið mikið á hann og lýsir því sem á­kveðnum „skell“ þegar hann gerði sér grein fyrir því að því að hann myndi mögu­lega aldrei finna ættingja sína.

„Þetta er búið að vera mjög erfitt ferli. Við fórum út í júní og það var erfitt fyrir mig per­sónu­lega. Ég fór út og vildi styðja við systur mína, en á sama tíma var ég að upp­lifa því­líka gleði hjá henni og brjálaða sorg hjá mér. Og ég stend frammi fyrir því að ég mun mjög lík­lega aldrei finna neitt,“ segir Ívar.

Ívar segir það ó­boð­legt hversu illa var staðið að ætt­leiðingum frá Srí Lanka hingað til lands á þessum árum. Hann vilji opna á sam­fé­lags­lega um­ræðu þar sem fleiri séu í hans sporum.

„Við erum alveg stór hópur af fólki sem vorum ætt­leidd frá Srí Lanka. Við hittumst hérna mörg heima hjá mér á laugar­daginn og vorum að bera saman pappírana okkar. Við sáum strax að það var margt sem var bara alveg eins í öllum okkar pappírum,“ segir Ívar, og heldur á­fram:

„Til dæmis er skrifað af hverju for­eldrar voru að ætt­leiða börnin frá sér, og þetta var bara hand­rit sem var verið að skrifa upp. Þetta er nánast orð­rétt og sama rit­hönd hjá okkur öllum. Þarna sér maður strax að það meikar engan sens. Sama á­stæða og sama staða hjá okkur öllum af hverju blóð­for­eldrar gáfu okkur til ætt­leiðingar. Ef rétt hefði verið haldið utan um málið, bara horft á pappírana, hefði við­komandi spottað að pappírarnir væru ná­kvæm­lega eins og það hringt ein­hverjum við­vörunar­bjöllum. Sem sýnir manni svart á hvítu að það var bara ekkert verið að fylgjast með þessu hérna,“ segir Ívar.

Engin svör borist frá ráðuneytum

Að sögn Ívars er hann búinn að senda fyrir­spurnir á fjölda ráðu­neyta sem og for­seta í leit að svörum, en hingað til hafi engin svör borist.

„Við viljum bara fá ein­hver svör við okkar málum og fá að vita af hverju þetta gerðist. Við erum mörg komin með börn og okkar fjöl­skyldur og getum ekki svarað börnunum okkar. Vitum ekki sjúkra­söguna okkar. Síðan er bara allt falsað og ís­lensk stjórn­völd eru lok lok og læs. Senda yfir­lýsingu fyrir helgi þar sem þau kenna Ís­lenskri ætt­leiðingu um þetta. Þetta er svona sand­kassa­leikur,“ segir Ívar.

Spurður segir Ívar að þau ætli með málið lengra. Það sé þegar komið á borð lög­fræði­skrif­stofu.

„Það er svipað mál í Hollandi þar sem kona sem var ætt­leidd frá Srí Lanka hefur höfðað mál gegn hollenska ríkinu og vann það mál. Það eina sem á eftir að dæma í því eru miska­bætur. Það er smá munur á því máli og okkar máli, en aðal­at­riðið er að það voru falsanir í gangi sem stjórn­völd vissu af og voru ekki að taka al­var­lega. Þannig að það er margt líkt með þessum málum. Við sem erum með falsaða pappíra erum búin að tala við lög­fræðinga og erum með for­sendur fyrir skaða­bóta­mál við ís­lenska ríkið. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir okkur,“ segir Ívar.