Endur­talning í Norð­vestur­kjör­dæmi hafði eins­konar dómínó-á­hrif á jöfnunar­sætin þar sem jöfnunar­sæti flokka fluttust á milli kjör­dæma með þeim af­leiðingum að fimm breytingar urðu á þing­fólki.

Grétar Þór Ey­þórs­son, prófessor í stjórn­mála­fræði við Há­skólann á Akur­eyri, segir oft ekki þurfa nema nokkur at­kvæði til eða frá til að hafa á­hrif á jöfnunar­sætin.

„Þetta er inn­byggt í þetta kerfi,“ segir hann. „Það þarf ekki að þýða að það sé neitt slæmt við þetta kerfi en það þarf að tryggja að það sé allt rétt gert. Að svona lagað komi ekki upp.“

Svekkjandi að vera þing­maður í hálfan sólar­hring


Lík­legast er að ein­hver mann­leg mis­tök hafi átt sér stað í upp­runa­lega talningar­ferlinu. „Ef endur­talningin er rétt talning þá er þetta bara svona,“ segir Grétar. „En auð­vitað hlýtur það að vera svekkjandi að vera þing­maður í hálfan sólar­hring.“

„Það þarf svo lítið til að þetta ruglist til,“ segir Grétar. „Svo er það líka þannig að hvert at­kvæði í Norð­vestur­kjör­dæmi vegur svo mikið, mest af öllum.“

Kjör­stjórnin tók sjálf á­kvörðun um að telja at­kvæðin upp á nýtt þegar ljóst var hve litlu munaði. Enginn flokkur kærði talninguna og svo virðist vera að flokkarnir hafi jafn­vel ekki vitað af henni. „Það hefur greini­lega komið upp ein­hver grunur um að þetta hafi ekki verið rétt gert,“ segir Grétar.

Ekki lengur sögulegar kosningar fyrir konur


Þá stendur upp úr endur­röðuninni að þeim sögu­lega á­fanga að hafa meiri­hluta kvenna á þingi næst ekki í þetta sinn. Fyrir endur­röðun voru 33 konur á leið á þing en nú eru þær 30. Heildar­fjöldi þing­fólks er 63.

„Jöfnunar­sætin fluttust ekki á milli flokka heldur á milli kjör­dæma með þeim af­leiðingum að kosningarnar voru ekki sögu­legar fyrir konur allt í einu,“ segir Grétar. „Því miður urðu þarna ein­hver mis­tök og það þarf að taka því eins og hverju öðru hunds­biti.“