Endurtalning í Norðvesturkjördæmi hafði einskonar dómínó-áhrif á jöfnunarsætin þar sem jöfnunarsæti flokka fluttust á milli kjördæma með þeim afleiðingum að fimm breytingar urðu á þingfólki.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, segir oft ekki þurfa nema nokkur atkvæði til eða frá til að hafa áhrif á jöfnunarsætin.
„Þetta er innbyggt í þetta kerfi,“ segir hann. „Það þarf ekki að þýða að það sé neitt slæmt við þetta kerfi en það þarf að tryggja að það sé allt rétt gert. Að svona lagað komi ekki upp.“
Svekkjandi að vera þingmaður í hálfan sólarhring
Líklegast er að einhver mannleg mistök hafi átt sér stað í upprunalega talningarferlinu. „Ef endurtalningin er rétt talning þá er þetta bara svona,“ segir Grétar. „En auðvitað hlýtur það að vera svekkjandi að vera þingmaður í hálfan sólarhring.“
„Það þarf svo lítið til að þetta ruglist til,“ segir Grétar. „Svo er það líka þannig að hvert atkvæði í Norðvesturkjördæmi vegur svo mikið, mest af öllum.“
Kjörstjórnin tók sjálf ákvörðun um að telja atkvæðin upp á nýtt þegar ljóst var hve litlu munaði. Enginn flokkur kærði talninguna og svo virðist vera að flokkarnir hafi jafnvel ekki vitað af henni. „Það hefur greinilega komið upp einhver grunur um að þetta hafi ekki verið rétt gert,“ segir Grétar.
Ekki lengur sögulegar kosningar fyrir konur
Þá stendur upp úr endurröðuninni að þeim sögulega áfanga að hafa meirihluta kvenna á þingi næst ekki í þetta sinn. Fyrir endurröðun voru 33 konur á leið á þing en nú eru þær 30. Heildarfjöldi þingfólks er 63.
„Jöfnunarsætin fluttust ekki á milli flokka heldur á milli kjördæma með þeim afleiðingum að kosningarnar voru ekki sögulegar fyrir konur allt í einu,“ segir Grétar. „Því miður urðu þarna einhver mistök og það þarf að taka því eins og hverju öðru hundsbiti.“