Nýtt kerfi við flokkun mannvirkja hefur tekið gildi samkvæmt nýrri reglugerð en því er ætlað að straum­línu­laga leyfis­veitinga­ferlið við hús­byggingar. Í til­kynningu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) kemur fram að nýtt kerfi við flokkun mann­virkja muni hafa bein á­hrif á eftir­lit sveitar­fé­laga, með­ferð um­sókna og út­gáfu leyfa vegna allrar mann­virkja­gerðar.

Nýja flokkunar­kerfið þýðir að bygging ein­faldari mann­virkja mun ekki lengur vera háð út­gáfu byggingar­leyfis, heldur nægir að hafa svo­kallaða byggingar­heimild sem mun draga veru­lega úr flækju­stigi í slíkum fram­kvæmdum.

Á sama tíma verður eftir­lit með stórum og flóknum byggingum aukið en á­fram þarf byggingar­leyfi vegna byggingar hefð­bundins í­búðar­hús­næðis og að upp­fylla ríkar kröfur sem gerðar eru til þess.

„Ég tel þetta vera mikil­vægt skref á þeirri leið sem við höfum markað um að ein­falda veru­lega alla stjórn­sýslu og leyfis­veitingar. Það hefur verið kallað eftir því lengi að minnka ó­þarfa flækju­stig í ein­földum fram­kvæmdum. Við þurfum að nýta skyn­sam­lega þá fjár­muni sem við leggjum í eftir­lit með mann­virkjum frekar en að senda fólk út og suður í að afla leyfa til að reisa ein­falda skjól­veggi eða girðingar. Ég tel að með sam­einingu stjórn­sýslu hús­næðis-, skipu­lags- og byggingar­mála í einu ráðu­neyti, sem nú er að verða að veru­leika, verði hægt að stíga fleiri skref til að ein­falda leyfis­veitingar, auka staf­ræna upp­lýsinga­gjöf og þannig lækka hús­næðis­verð, sem skiptir höfuð­máli fyrir al­menning,“ segir Sigurður Ingi Jóhanns­son, inn­viða­ráð­herra, í til­kynningu.

Ekki þarf sérstakt leyfi fyrir bílskúrum lengur.
Mynd/Aðsend

Á­kvæði sem varða palla, girðingar, skjól­veggi og heita potta ein­földuð

Mark­mið með setningu reglu­gerðarinnar er að draga úr kostnaði við fram­kvæmdir og gera eftir­lit með mann­virkja­gerð skil­virkara og ein­faldara með því að flokka mann­virki, m.a. eftir stærð, flækju­stigi hönnunar og sam­fé­lags­legu mikil­vægi. Þannig verður um­sóknar­ferli byggingar­leyfis og eftir­lit með mann­virkja­gerð sniðið að hverjum flokki fyrir sig á þann hátt að um­fangs­lítil mann­virkja­gerð verður mun ein­faldari í fram­kvæmd sem ætti að leiða til lægri byggingar­kostnaðar.

Þessi breyting kemur í kjöl­far þess að OECD gagn­rýndi kerfið við leyfis­veitingar í mann­virkja­gerð í sam­keppnis­mati sínu á ís­lenskum byggingar­iðnaði sem kynnt var á síðasta ári.

Fram kemur í til­kynningunni að breytingin sem nú er inn­leidd í reglu­gerðinni sé einungis fyrsta skrefið af nokkrum sem stigin verða á næstunni til að stytta og ein­falda leyfis­veitingar vegna bygginga­fram­kvæmda. Mark­miðið er að stytta veru­lega byggingar­tíma og með því sporna gegn ó­hóf­legum verð­sveiflum á hús­næðis­markaði.

Þá segir að breytingin sé í takt við á­form um ein­földun stjórn­sýslu bygginga­mála sem fram koma í nýjum stjórnar­sátt­mála.

Fram­undan er frekari endur­skoðun m.a. með hlið­sjón af til­lögum OECD sem gagn­rýndi fyrra kerfi leyfis­veitinga í mann­virkja­gerð í sam­keppnis­mati sínu á ís­lenskum byggingar­iðnaði á síðasta ári.

Helstu breytingar sem verða sam­fara gildis­töku reglu­gerðarinnar eru eftir­farandi:

Mann­virki verða flokkuð eftir um­fangi, eðli og sam­fé­lags­legu mikil­vægi í þrjá um­fangs­flokka:

Í um­fangs­flokk 1 fellur ein­föld mann­virkja­gerð, s.s. bíl­skúrar og frí­stunda­hús, sem undan­þegin verður byggingar­leyfi en háð byggingar­heimild, sem er nýtt hug­tak í byggingar­reglu­gerð. Í þessum flokki verður t.a.m. hvorki skylt að skila sér­upp­dráttum við um­sókn né er gerð krafa um á­byrgðar­yfir­lýsingu iðn­meistara.

Í um­fangs­flokk 2 fellur mann­virkja­gerð sem felur í sér flestar al­mennar fram­kvæmdir, s.s. ein­býlis­hús, fjöl­býlis­hús og at­vinnu­hús­næði og verður á­fram háð byggingar­leyfi.

Í um­fangs­flokk 3 falla mjög flóknar eða um­fangs­miklar fram­kvæmdir, sem hafa jafn­vel mikið sam­fé­lags­legt mikil­vægi, s.s. sjúkra­hús, skólar og verslunar­mið­stöðvar. Þessi mann­virkja­gerð verður háð byggingar­leyfi og er fyrir­hugað að gera ítar­legri kröfur um eftir­lit með hönnun þeirra en áður hefur verið.

Gerður verður skýr greinar­munur á til­kynninga­skyldri mann­virkja­gerð og mann­virkja­gerð sem undan­þegin er byggingar­leyfi, en áður hafði verið fjallað um hvoru tveggja í sama á­kvæði. Þá eru á­kvæði sem varða palla, girðingar og skjól­veggi ein­földuð auk þess sem heitir pottar verða nú einungis til­kynningar­skyldir, en voru áður byggingar­leyfis­skyldir.

Nánar hér á vef HMS.