Guðni Th. Jóhannes­son for­seti Ís­lands ræddi við for­menn ríkis­stjórnar­flokkanna sím­leiðis í morgun til að ganga úr skugga um að þeir myndu ræða um sam­starf sín á milli eins og á­formað var ef stjórnin héldi meiri­hluta.

Stjórnar­flokkarnir héldu vissu­lega meiri­hlutanum sínum í al­þingis­kosningunum og gott betur. Ef ríkis­stjórnin heldur á­fram þá er það með góðum meiri­hluta, 37 þing­sætum, fjórum fleiri en á seinasta kjör­tíma­bili.

Guðni segir í sam­tali við mbl.is að ef stjórnin heldur þá reyni ekkert á stjórnar­myndunar­um­boðið „og allt sem því fylgir.“ Hann segir ekki liggja á að negla niður tíma­setningar fyrir viðræður sem stendur. „Við sýnum því fullan skilning ef fólk sem búið er að standa í anna­­samri kosn­inga­bar­áttu í daga og vik­ur verði hvíld­inni fegið í dag.“

„Staðan er ger­­ólík núna því sem var uppi fyrr í minni kosn­inga­tíð, bæði 2016 og 2017. í þau skipti var stað­reynd­in sú að mynda þurfti nýja rík­is­­stjórn, nú er allt annað upp á ten­ingn­um. Fyr­ir­­mynd­in gæti verið 1999 og 2003, þegar rík­is­­stjórn­in hélt bara á­fram. Þá reyn­ir ekk­ert á stjórn­ar­­mynd­un­ar­um­­boðið og allt sem því fylg­ir,“ segir Guðni.

Þá segir Guðni það að átta þing­flokkar hafi komist inn á þing gefa til kynna að þjóðin sé marg­radda en þó tali það sínu máli að ríkis­stjórnin haldi meiri­hlutanum.