Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands ræddi við formenn ríkisstjórnarflokkanna símleiðis í morgun til að ganga úr skugga um að þeir myndu ræða um samstarf sín á milli eins og áformað var ef stjórnin héldi meirihluta.
Stjórnarflokkarnir héldu vissulega meirihlutanum sínum í alþingiskosningunum og gott betur. Ef ríkisstjórnin heldur áfram þá er það með góðum meirihluta, 37 þingsætum, fjórum fleiri en á seinasta kjörtímabili.
Guðni segir í samtali við mbl.is að ef stjórnin heldur þá reyni ekkert á stjórnarmyndunarumboðið „og allt sem því fylgir.“ Hann segir ekki liggja á að negla niður tímasetningar fyrir viðræður sem stendur. „Við sýnum því fullan skilning ef fólk sem búið er að standa í annasamri kosningabaráttu í daga og vikur verði hvíldinni fegið í dag.“
„Staðan er gerólík núna því sem var uppi fyrr í minni kosningatíð, bæði 2016 og 2017. í þau skipti var staðreyndin sú að mynda þurfti nýja ríkisstjórn, nú er allt annað upp á teningnum. Fyrirmyndin gæti verið 1999 og 2003, þegar ríkisstjórnin hélt bara áfram. Þá reynir ekkert á stjórnarmyndunarumboðið og allt sem því fylgir,“ segir Guðni.
Þá segir Guðni það að átta þingflokkar hafi komist inn á þing gefa til kynna að þjóðin sé margradda en þó tali það sínu máli að ríkisstjórnin haldi meirihlutanum.