Formenn meistarafélaga innan Samtaka iðnaðarins hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem því er lýst yfir að endurskoða þurfi iðnaðarlög svo hægt sé að stöðva ófaglærða aðila sem starfa við lögverndaðar iðngreinar. Þetta sé sérstaklega mikilvægt í byggingargreinum og hvetja félögin stjórnvöld til þess að koma á virku eftirliti „og tryggja þannig að öryggi og heilsu landsmanna sé ekki stefnt í hættu.“

Engin úrræði til að stöðva fúskara

Í yfirlýsingunni segir að Meistaradeild Samtaka iðnaðarins hafi í mörg ár barist fyrir því að gripið sé til aðgerða svo að hægt sé að stöðva starfsemi ófaglærðra sem starfa við lögverndaðar iðngreinar. Iðnaðarlögin bjóði í dag ekki upp á nein úrræði til að stöðva starfsemi ófaglærðra, þrátt fyrir kærur til Neytendastofu.

„Dæmin sanna að engin úrræði eru til staðar til að stöðva ólögmæta starfsemi í lögvernduðum iðngreinum.“ Til þess að bregðast við þessu þurfi að endurskoða iðnaðarlög svo að hægt sé að bæta eftirlit með lögunum og „grípa þegar í stað til úrræða sem stöðva fúskara.“