Barnaverndarmál „Eins og mál hafa þróast þá fór þetta á besta veg,“ segir Árni H. Kristjánsson, sagnfræðingur og einn forsvarsmanna samtakanna Réttlætis, sem barist hafa fyrir því að rekstur vöggustofunnar á Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins, sem Reykjavíkurborg bar ábyrgð á, verði rannsakaður. Talið er að um 1.300 börn á aldrinum 0–2 ára hafi verið vistuð á vöggustofunum frá árinu 1949 til 1979.

Borgarráð samþykkti í fyrradag skipun nefndar um heildstæða athugun á starfsemi vöggustofanna. Kjartan Björgvinsson héraðsdómari verður formaður nefndarinnar og með honum í nefndinni eru Urður Njarðvík, prófessor í barnasálfræði og fyrrverandi deildarforseti sálfræðideildar HÍ, og Ellý Alda Þorsteinsdóttir félagsráðgjafi.

Fjölmörg vitni hafa komið fram, meðal annars í umfjöllun Fréttavaktarinnar á Hringbraut, um að mikið hafi vantað upp á að andlegum þörfum barnanna sem vistuð voru á vöggustofum Reykjavíkurborgar hafi verið sinnt.

Börnin voru látin vera í rúmum sínum mest allan sólarhringinn, foreldrar máttu ekki heimsækja þau og starfsfólki uppálagt að mynda ekki tengsl við börnin. Líkamlegum þörfum var hins vegar sinnt og mikið lagt upp úr hreinlæti og máttu börnin til dæmis ekki hafa leikföng og útivist var mjög takmörkuð. Margir félagsmenn í hópnum Réttlæti telja að fjöldi fólks hafi orðið fyrir óbætanlegum skaða af því að vera vistaður á þessum stofnunum.

Árni segir að sum heimili hafi fengið takmarkaða skoðun.
Fréttablaðið/Eyþór

„Við vonumst innilega til þess, fulltrúar Réttlætishópsins, að fá áheyrn hjá nefndinni þannig að við getum komið ábendingu á framfæri um það sem við höfum orðið vísari,“ segir Árni, sem kveðst vera kunnugur svokallaðri vistheimilanefnd og hafa verið ánægður með margt í hennar störfum, til dæmis úttektina á barnaheimilinu Silungapolli.

„En því miður tók nefndin alvarlega hluti, svo sem rekstur vöggustofanna, alveg út fyrir sviga,“ segir Árni og bætir við að önnur heimili, eins og barnafangelsið að Elliðahvammi, hafi fengið takmarkaða skoðun.

„Það voru rimlar fyrir gluggum og þarna voru aðallega drengir vistaðir, svokallaðir óknyttadrengir, en líka unglingsstúlkur sem höfðu strokið úr vist eða að heiman. Lögreglan kom með börnin að Elliðahvammi, aðallega drengina, og þeir voru læstir inni og yfirheyrðir,“ svarar Árni spurður hvers vegna hann kalli Elliðahvamm barnafangelsi.

„Þarna voru framin mjög alvarleg mannréttindabrot að mínu mati sem einnig þurfa ítarlegrar rannsóknar við. Síðan var hitt hlutverk Elliðahvamms að vista börn á meðan langtímavistunar var leitað og ég og bróðir minn vorum vistaðir þar á þeim forsendum, það er að segja ekki sem fangar,“ bætir Árni við.

Hin nýskipaða vöggustofunefnd skal vera sjálfstæð og óháð og verður henni heimilt að kalla eftir aðstoð og upplýsingum frá aðilum innan og utan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar. Nefndarmenn og starfsmaður hennar eru bundnir þagnarskyldu um hvað eina er varðar einkalíf fólks sem þeir fá upplýsingar um við störf nefndarinnar. Nefndin á að ljúka störfum eigi síðar en 31. mars 2023 og ákveður borgarráð meðferð skýrslna nefndarinnar sem það fær.

„Mér sýnist af skipunarbréfinu að nefndin hafi nokkuð frjálsar hendur sem er gott. Ég vonast einnig til að nefndin skoði ábendingar okkar um ættleiðingar og fóstur á börnum, sem oft voru viðhöfð á mjög vafasömum forsendum fyrir milligöngu vöggustofanna og félagsmálayfirvalda borgarinnar. Það er einnig alvarlegt mál sem þarfnast ítarlegrar skoðunar hjá nefndinni,“ segir Árni Kristjánsson.