Þakplötur fuku af húsi í Mosfellsbæ um sexleytið í gærkvöld vegna hvassviðris. Þakplöturnar lentu á bílum sem eru mögulega skemmdir eftir atvikið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en þar segir að aðili hafi verið mættur á vettvang til að tryggja ástand.

Þá var lögregla einnig kölluð til vegna þjófnaðar. Tilkynnt var um hnupl í verslun á Seltjarnarnesi laust fyrir klukkan sjö í gærkvöld. Maður reyndi að stela tveimur lambahryggjum en hann hafði sett kjötið undir úlpu sína en missti það er hann yfirgaf verslunina.

Skömmu síðar var tilkynnt um þjófnað úr verslun í Laugardalnum. Þrír einstaklingar komu saman inn í verslunina. Að því er fram kemur í dagbók lögreglu keyptu tveir varning en einn fór úr versluninni með varning sem hann hafði ekki greitt fyrir. Maðurinn var með varninginn innan klæða og öryggishlið gaf hljóðmerki er hann fór út. Starfsmaður fór á eftir manninum og náði hluta varningsins en maðurinn komst undan með félögum sínum í bifreið sem beið fyrir utan. Málið er í rannsókn lögreglu.

Klukkan eitt í nótt var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki í Vesturbæ Reykjavíkur. Par var handtekið á vettvangi og vistað í fangaklefa fyrir rannsókn málsins.

Þó nokkrir ökumenn voru stöðvaðir í gærkvöld og í nótt grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og áfengis.

Skömmu fyrir miðnætti var kona í annarlegu ástandi handtekinn í Garðabæ en hún er grunuð um eignaspjöll. Konan var vistuð fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.