Vanda Sigurgeirsdóttir var einn af strákunum í fótboltanum á Króknum í gamla daga, síðar varð hún fyrst kvenna til að þjálfa karla­lið hér á landi og síðasta haust varð hún fyrst kvenna í Evrópu til að taka að sér formennsku knattspyrnusambands. Glerþök ógna ekki þessari konu sem býður áfram fram krafta sína í flókin verkefni.

Vanda er eins og stór hluti þjóðarinnar nýkomin heim frá Tenerife þar sem hún naut langþráðs frís með fjölskyldunni yfir hátíðirnar. Einn fjölskyldumeðlima reyndist svo smitaður við heimkomu og er Vanda því í sóttkví þegar viðtalið fer fram í gegnum fjarfundarbúnað.

„Ég bjóst alltaf við álagshausti í vinnunni og við tókum því í vor ákvörðun um að vera erlendis yfir jólin. En ég hef sjaldan verið ánægðari með nokkra ákvörðun,“ segir Vanda og hlær en haustmánuðirnir reyndust strembnari en hún hafði gert ráð fyrir enda tók hún við stöðu formanns Knattspyrnusambands Íslands í október síðastliðnum við vægast sagt erfiðar kringumstæður.

„Ég náði alveg að hlaða batteríin,“ segir Vanda og ekki veitir af því hún hefur tekið ákvörðun um að bjóða fram krafta sína í formannskjöri KSÍ sem fram fer í næsta mánuði.

Vanda er fyrir löngu landsþekkt knattspyrnukona og hefur á ferli sínum þurft að mölva þau nokkur glerþökin, þó að nýjasta útspilið, að setjast fyrst kvenna í Evrópu í formannsstól knattspyrnuhreyfingar, hafi líklega verið það stærsta.

Nennti ekki búningaleikjum


Vanda ólst upp fyrir norðan, á Sauðárkróki og Dalvík auk nokkurra ára í Danmörku þegar móðir hennar var þar við nám.

„Ég fór til Danmerkur í öðrum bekk í grunnskóla og uppgötvaði þar fótboltann. Stelpurnar voru inni í einhverjum búningaleikjum sem ég nennti ekki að taka þátt í svo ég fór út þar sem bekkjarbræður mínir voru í fótbolta og spilaði bara með,“ segir Vanda sem strax heillaðist af boltanum.

Fjölskyldan bjó á stúdentagörðum þar sem voru fleiri Íslendingar.

„Þar spilaði ég mikið fótbolta við vin minn, Jóhannes Björnsson og fleiri krakka og þannig byrjaði þetta.“

Þó Vanda hafi líka leikið sér í Barbie leikjum við vinkonu sína segist hún hafa verið klassískur „tomboy,“ eða það sem þá var kallað strákastelpa. Hún hafði meiri áhuga á útileikjum og ævintýrunum sem þeim fylgdu.

„Ég held að þetta hafi bjargað lífi mínu, þegar ég lenti í ýmsum atvikum hjálpaði það mér að hafa verið mikið að klifra utan á húsbyggingum og í ljósastaurum. Undan mér hrundi til að mynda stillans, ég datt niður um vök og eitt sinn datt hjólið mitt í sundur á fullri ferð. Ég lenti þá á jörðinni og náði að hlaupa með og slapp við að stórslasast.“

Það trix hafði Vanda lært þegar krakkarnir hlupu á eftir bláa bílnum sem keyrði karlana frá höfninni á Sauðárkróki og heim í hádegismat, en bíllinn var með stiga aftan á sem var vinsæll hjá krökkunum.

„Við hlupum þá á eftir bílnum og stukkum aftan á til að næla okkur í far. Ef maður ætlaði svo að fara af bílnum á ferð varð maður að hlaupa með til að detta ekki. Þegar hjólið fór í sundur kunni ég þetta trix og það bjargaði mér frá því að slasast. En svo má á móti segja að ég hefði kannski ekki verið á allri þessari ferð ef ég hefði ekki verið þessi „tomboy“ sem ég var.“

Fékk að vera hún sjálf


Vanda segist þakka fyrir að hafa fengið að vera hún sjálf í litlu samfélögunum á Sauðárkróki og Dalvík.

„Mér var ekki strítt þó ég væri mikið í fótbolta með strákunum og mikið að leika við þá. Það sagði enginn neitt þó ég væri bara í bikinibuxunum en engum topp þangað til ég varð 13 ára,“ rifjar hún upp og hlær.

„Toppurinn þvældist fyrir mér þegar við vorum í eltingaleikjum á bakkanum og ofan í lauginni því það var hægt að toga í hann og ná manni þannig. Ég leit alveg eins út og strákarnir og fannst þetta því óþarfi.“

„Mér var ekki strítt þó ég væri mikið í fótbolta með strákunum og mikið að leika við þá. Það sagði enginn neitt þó ég væri bara í bikinibuxunum en engum topp þangað til ég varð 13 ára,“

Vanda bendir á mikilvægi þess að fá að vera maður sjálfur á uppvaxtarárunum. „Ég er raunverulega þakklát enda veit ég ekkert hver ég hefði orðið ef ég hefði fengið þau skilaboð að ég þyrfti að breyta mér.“

Ég var bara góð í fótbolta


Vanda kom til baka frá Danmörku níu ára gömul og fór þá að æfa fótbolta með strákunum á Dalvík og á Sauðárkróki enda ekkert stúlknalið í boði á þeim tíma.

„Ég veit ekki hvort það þurfti eitthvað að berjast fyrir þessu hjá Tindastóli en ég veit þó að einhverjir strákanna úr hinum liðunum fengu að heyra það ef ég til dæmis sólaði þá,“ segir hún í léttum tón.

„En ég fann ekkert fyrir því að vera eina stelpan. Þetta var bara sjálfsagður hlutur. Ég var bara góð í fótbolta!“

Vanda hér með strákunum í Tindastóli fyrir örfáum árum síðan. Vanda fimmta í efri röð.Mynd/Ómar Bragi Stefánsson

Vanda var að eigin sögn seinþroska og því lítil eftir aldri en það háði henni ekki framan af og hún var mjög fljót að hlaupa.

„Ég man svo í þriðja flokki, þegar ég var komin í tíunda bekk, að við kepptum á móti Þór og KA og þá voru þeir orðnir ansi stórir nokkrir. Ég var svo rosalega lítil.“

Aðspurð segir Vanda að öðru leyti lítið hafa fundið fyrir því að vera eina stelpan í strákaliði.

„Þetta er bara fótbolti – það skiptir mig engu máli hvort það eru konur eða karlar sem spila hann. Þegar við fórum í útileiki fór ég bara annað hvort ekki í sturtu eða í sturtu fyrst og svo hinir og þegar við spiluðum heima mætti ég bara klædd.“

Valdi alltaf fótboltann


Þó fótboltinn hafi alltaf verið í fyrsta sæti hjá Vöndu stundaði hún einnig aðrar íþróttir; körfubolta, sund, skíði, frjálsar og blak. Hún náði meira að segja að leika með tveimur landsliðum, í fótbolta og körfubolta og mætti á unglingalandsliðsæfingar í blaki.

„Hér áður fyrr var fótboltinn sumaríþrótt og körfubolti vetraríþrótt. Yfir veturinn var því lítið eða ekkert um fótboltaæfingar. Það var því auðvelt að vera í báðum greinum,“ segir Vanda sem gerir þó ekki mikið úr því að hafa verið valin í tvö landslið og nefnir fólk sem hafi komist í þrjú.

„Þetta var kannski auðveldara á þessum tíma en rannsóknir sýna að það er gott að hafa fjöbreyttan íþróttabakgrunn. Þegar fótboltinn varð meiri ársíþrótt varð þó of mikið að vera í fleiru og ég valdi fótboltann. Ég valdi alltaf fótboltann.“

Kvennalandsiðið í knattspyrnu hér fyrir leik á móti Þýskalandi árið 1986. Vanda hér þriðja frá vinstri. Mynd/Brynjar Gauti Sveinsson

Íþróttaáhuginn hefur augljóslega alltaf fylgt Vöndu og stefndi hún á að læra að verða íþróttakennari.

„Fyrsta árið mitt í kvennafótbolta var með KA. Ég spilaði með þeim í fyrstu deild en ég var með landsliðsdrauma og taldi því að ég þyrfti að fara í efstu deild. Ég fór því að spila með Skaganum og var í Menntaskólanum á Akureyri á veturna og á Akranesi á sumrin.“

Eftir að hafa prófað sumarstarf í grásleppu og byggingarvinnu fékk Vanda flokkstjórastarf í vinnuskóla bæjarins og fann þar hvað hana langaði að leggja fyrir sig.

„Mér fannst ofsalega gaman að vinna með unglingum og langaði að fara að vinna í félagsmiðstöð, frekar en að verða íþróttakennari. Sem betur fer, því þar hitti ég manninn minn.“


Eiginmaðurinn beið í fimm ár


Vanda lærði frítímafræði í Gautaborg þar sem hún spilaði einnig fótbolta. „Ég kom heim árið 1989 og fór að vinna í Árseli þar sem Kobbi er fyrir,“ segir Vanda og á þá við eiginmann sinn Jakob Frímann Þorsteinsson.

„Hann var með permanent og spangir þegar við hittumst auk þess sem hann var fjórum árum yngri en ég,“ segir Vanda hlæjandi en það tók hann fimm ár að fá Vöndu til að skipta um skoðun og gefa sér séns.

„Ég hef oft sagt börnum mínum að það sé algjörlega pabba þeirra að þakka að við séum öll þar sem við erum í dag. Hann hefur sagt það sjálfur að hann fann að ég ætti að verða konan hans og eltist við mig árum saman.

Mér fannst erfitt að allir vinir okkar vissu að hann væri hrifinn af mér og var því ekkert alltaf voða næs - átti líka annan kærasta á tímabili. Hann bara beið og beið og aðra eins þrautseigju hef ég varla heyrt um, sem betur fer,“ segir Vanda fegin því að hafa séð ljósið.

Vanda ásamt eiginmanni sínum og börnum þeirra þremur á Tenerife nú um jólin. Hún segir fríið hafa verið kærkomið eftir erilsama mánuði.Mynd/Aðsend

„Þegar ég svo hætti að ofhugsa þetta og hugsa um hvað öðrum fannst, varð ég ástfangin af honum. Ég setti niður varnirnar og leyfði mér að sjá betur hversu frábærlega frábær hann er,“ rifjar hún upp en síðan eru liðnir tæpir þrír áratugir og þau hjónin hafa ekki aðeins verið samstíga í einkalífinu heldur starfað saman stóran hluta ferilsins.

„Fyrst í félagsmiðstöðinni og svo störfuðum við saman í yfir tíu ár við Háskóla Íslands við námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræði.


Á eftir bolta kemur barn


Saman eiga Vanda og Jakob þrjú börn en þau komu í heiminn þegar Vanda var 33, 35 og 44 ára.

„Ég sagði alltaf þegar ég var spurð um barneignir: „Á eftir bolta kemur barn,“ sem tilvitnun í auglýsingu Sjóvá. Ég hætti því fyrst í fótboltanum áður en ég fór í barneignir en ég ber mikla virðingu fyrir þeim konum sem gera bæði. Margar fyrrverandi og núverandi landsliðskonur í fótbolta eru gott dæmi um að hægt er að eiga börn og farsælan íþróttaferlil á sama tíma.

Líkamlega séð hefði ég getað haldið áfram í mörg ár í viðbót en þegar ég tók við starfi landsliðsþjálfara var ekki í boði að vera einnig leikmaður,“ segir Vanda sem þjálfaði kvennalandsliðið frá 1997 til 1999 eftir að hafa verið leikmaður þess í 11 ár og lengst af fyrirliði.

Hélt að Neistamenn væru að grínast


Einungis 20 mánuðir eru á milli tveggja fyrstu barna Vöndu og þegar hún gekk með annað barn sitt flutti fjölskyldan á Sauðárkrók þar sem forsvarsmenn Neista komu að máli við hana og buðu henni að þjálfa meistaraflokk karla.

„Það var stutt í mót þegar þau dingluðu hjá mér og ég hélt fyrst að þau væru að grínast þegar þau báru þetta upp. Ég kíkti út til að sjá hvort það væru faldar myndavélar, kona hafði þá aldrei þjálfað meistaraflokk karla.“

„Ég kíkti út til að sjá hvort það væru faldar myndavélar, kona hafði þá aldrei þjálfað meistaraflokk karla.“

Vanda var aftur á móti með mikla reynslu sem þjálfari og hafði þjálfað stráka í yngri flokkunum.

„Þetta hafði þó enginn gert. Ég hafði þjálfað meistaraflokk Breiðabliks í þrjú ár. KR í eitt ár og landsliðið í tvö ár. Ég átti því rosalegan feril að baki og þau hljóta að hafa hugsað að þarna væri þjálfari sem vissi hvað hún væri að gera og næði árangri.“

Vanda segist ekki hafa fundið fyrir neinu en þó heyrt frá leikmönnum sínum að upphaflega hafi þeim fundist tilhugsunin skrítin.

„En þegar þeir sáu að ég vissi alveg hvað ég væri að gera hvarf það. Ég held að þeir hafi ekki hugsað: „Ég er að fara á fótboltaæfingu og þjálfarinn minn er kona.“

Nema þá kannski á fyrstu æfingunni. Ég kalla þá enn Neistamennina mína,“ segir Vanda og þykir augljóslega vænt um þennan tíma.

„Ég hefði léttilega getað haldið áfram að þjálfa karlalið. Það bara bað mig enginn um það.“

Vanda ásamt vinkonu sinni og frænku, Kristrúnu Lilju Daðadóttur, þegar þær léku saman með Breiðablik en með þeim eru mæður þeirra Dóra Þorsteinsdóttir og Bára Eiríksdóttir. Mynd/Aðsend

Ákvörðunin tók margar vikur

Vanda tók í október síðastliðnum við formennsku Knattspyrnusambands Íslands í kjöflar hneykslismála sem skekið höfðu sambandið. Vanda var fyrsta konan til að gegna þeirri stöðu, ekki bara hér á landi heldur í allri Evrópu.

„Ég var fyrsta konan sem varð landsliðsþjálfari hér á landi og að ég held sú þriðja í heiminum. Ég hef því verið í þessu umhverfi áður en ég held að ég hafi ekki verið eins meðvituð um að ég hafi verið fyrsta konan eins og ég er núna. Ekki síst þegar í ljós kom að ég var sú fyrsta í Evrópu líka þó tvær hafi nú bæst við.“

Ákvörðunin var þó ekki auðveld enda Vanda í góðri stöðu við Háskóla Íslands ásamt því að reka fyrirtækið KVAN ásamt eiginmanni sínum og öðrum hjónum.

„Þetta var margra vikna ákvörðun. Hún var flókin og við maðurinn minn ræddum þetta fram og til baka. Ég ákvað að gera þetta og hætti við nokkrum sinnum. Aðstæður voru mjög erfiðara og flóknar ákvarðanir framundan. Ég þurfti að spyrja mig hvort ég ætlaði mér inn í þetta,“ segir hún.

„Þetta var margra vikna ákvörðun. Hún var flókin og við maðurinn minn ræddum þetta fram og til baka. Ég ákvað að gera þetta og hætti við nokkrum sinnum."

„Ég var mjög ánægð í starfi og að vinna að málum sem ég brenn fyrir. En mig langaði, ég er auðvitað fótboltamanneskja og hef lengi tilheyrt þessari frábæru hreyfingu sem mér þykir vænt um og langaði að hafa áhrif á hana til góðs. Ég er hugsjónamanneskja og baráttumanneskja og langaði að vera partur af þeim breytingum sem voru óumflýjanlegar.“

Fráfall vinar vendipunktur


Eftir langa umhugsun segist Vanda hafa upplifað vendipunkt þegar æskuvinur hennar og frændi Þorsteinn Valsson féll frá þann 8. september.

„Ég var einfaldlega viss um að hann hefði stutt mig í þessari ákvörðun,“ segir Vanda og það er augljóst að það kemur á hana að tala um fráfall frænda síns.

„Ég bara sá hann fyrir mér segja mér að láta slag standa. Ég hugsaði líka mikið til foreldra minna og tengdaforeldra, sem öll eru látin. Það er okkar mesta sorg í lífinu að hafa misst þau frá okkur allt of snemma en ég veit í hjarta mínu að þau hefðu stutt mig.“

„Það er okkar mesta sorg í lífinu að hafa misst þau frá okkur allt of snemma en ég veit í hjarta mínu að þau hefðu stutt mig.“

Ársþingið er í lok febrúar næstkomandi og segist Vanda alltaf hafa verið ákveðin í að bjóða sig aftur fram þá.

„En svo tók ég smá dýfu,“ segir Vanda og lýsir hvað helst hafi tekið á hana undanfarna mánuði í starfi.

„Starfsfólk KSÍ hefur tekið mjög vel á móti mér, eins fólkið í hreyfingunni og stjórnarfólk, það hefur allt saman gengið mjög vel og mér finnst vinnan skemmtileg þó erfið mál hafi verið uppi á borði. Það sem hefur reynst mér erfiðast er fjölmiðlaumfjöllunin og það skrifast að einhverju leyti á reynsluleysi af minni hálfu.“


Eðlilegt að líða stundum illa


Í nóvember síðastliðnum komst stjórn KSÍ að samkomulagi við aðstoðarþjálfara karlalandsliðsins, Eið Smára Guðjohnsen, um starfslok hans. Vanda nefnir gagnrýni sem hún hafi fengið á sig fyrir að neita að ræða málið í fjölmiðlum strax í fyrstu.

„Ég fékk að heyra að ég væri að valda vonbrigðum, væri óhæf og ekki rétti leiðtoginn, áður hafði verið sagt að ég gæti ekki tekið ákvarðanir. Það er erfitt að taka slíku ekki persónulega.

Ég er ekki eina manneskjan sem hef afþakkað viðtöl. Að segja að ég væri ekki hæf út af þessu þykir mér ósanngjarnt og ætti að mínu mati ekki að vera mælikvarði á mína hæfni.“

„Ég fékk að heyra að ég væri að valda vonbrigðum, væri óhæf og ekki rétti leiðtoginn, áður hafði verið sagt að ég gæti ekki tekið ákvarðanir."

Vanda sagði að þessi erfiði tími hefði fengið hana til að hugsa, ásamt því að hún hafi fengið ráð frá góðum konum.

„Ef það eru einhverjir sem vilja losna við mig er einfaldast að ég bugist og fari sjálf frá. Mig langar ekki að fara neitt þrátt fyrir að hafa verið smá buguð um tíma og þurft að hugsa hvort ég ætlaði að útsetja sjálfa mig og mína fyrir þessu.

Mér finnst eðlilegt að líða stundum illa, að þykja hlutir erfiðir og mér finnst ekkert að því að viðurkenna það. Ég þekki leiðtogafræðin, ég er auðmjúk gagnvart verkefninu og ef einhvern dettur í hug að ég sé verri leiðtogi fyrir vikið þá verður sá hinn sami að eiga það við sjálfan sig.“

Gagnrýnin hrinti þó að sögn Vöndu af stað ákveðnum stuðningi sem hún er þakklát fyrir. „Sumir bentu á að ég væri betri leiðtogi fyrir vikið og ég held að það sé rétt.“

Þakklát þolendum


Hin erfiðu mál sem Knattspyrnusambandið hefur staðið frammi fyrir hafa flest snúist um kynferðisbrot eða áreitni og hefur fjölmiðlaumfjöllun farið hátt. Vanda segist ekki veigra sér við að taka á slíkum málum en það þurfi að gera á réttan hátt.

„Við í stjórninni eigum ekki að vera að vasast í þessu og það er partur af mistökunum sem voru gerð. Árið 2020 var settur á samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs og nú er það svo að við leitum til hennar ef mál koma upp,“ segir Vanda um leið og hún þakkar fyrir þá aðstoð sem stjórnin hafi fengið.

„Við í stjórninni eigum ekki að vera að vasast í þessu og það er partur af mistökunum sem voru gerð."

Starfshópur innan ÍSÍ skilar svo áætlun í mars. Við viljum að íþróttahreyfingin sé með sömu reglur og aðgerðaráætlanir eins og unnt er.“

Vanda segir sitt hlutverk í þessum málum fyrst og fremst að koma þeim í réttan og faglegan farveg.


„Ég er þakklát öllum þeim þolendum sem hafa stigið fram. Við erum í leið í átt að betra samfélagi og fyrir það er ég þessum baráttukonum þakklát - því þetta er ekki auðvelt. Það þarf líka mikið að gerast á dómstiginu og íþróttahreyfingin verður að standa við að ætla að bæta sig. Þolendur verða að geta leitað til okkar og fundist þeir öruggir. Við erum ekki komin alla leið en ég vona að við sem samfélag séum á góðri leið.“


Framundan er meiri fræðsla og skýrt verklag. Við viljum ekki að þetta gerist aftur og þess vegna ætlum við að vera í forvörnum en líka með inngripsáætlanir ef eitthvað kemur upp.“

Tækifærin í krísunum

Vanda hefur trú á því að í krísum felist jafnframt tækifæri.

„Við þurfum að taka ábyrgð sem íþróttahreyfing. Ég held að þegar við lítum til baka þá verði þetta viðsnúningur. Að upplifunin verði að hér snerum við, við og fórum að gera enn betur. Ég held og vona að þetta gildi ekki bara um íþróttahreyfinguna heldur um okkur sem samfélag.“

Vanda bendir á að hún hafi verið gagnrýnd fyrir að vera ekki með neina stefnu en segir það ekki rétt.

„Stefna mín er þó kannski ólík því sem margir eru vanir, því hún er um samtal og samráð. Ég trúi að best sé að byrja á að greina stöðuna, afla upplýsinga, hafa fólk með í ráðum og taka svo ákvarðanir út frá því. Ég hef notað undanfarna mánuði til að hefja þessa vinnu og hef meðal annars haldið fundi með félögunum í landinu.“