Hera Sólveig Ívarsdóttir, meistaranemi, er búsett í Seattle í Bandaríkjunum en greindist með COVID-19 kórónaveiruna stuttu eftir komu sína til Íslands í frí. „Ég kom heim með smá kvef og hélt að ég væri ekki neitt veik en varð svo veik næstum um leið og ég lenti,“ segir Hera í samtali við Fréttablaðið.
Fyrstu einkennin voru kvef og sviði í augun og því næst tók mikill hiti við. Hera ákvað strax að halda sig heima þar til búið væri að greina sýni úr henni. Sýnið reyndist vera jákvætt fyrir COVID-19 veirunni og við tók 14 daga einangrun.
Orðlaus yfir viðbrögðunum
„Eftir greininguna hér heima hef ég verið nánast orðlaus yfir hversu dásamlega heilbrigðisstarfsmennirnir hafa séð um mig.“ Hera er nú á áttunda degi einangrunar og þrátt fyrir að veikindin hafi verið strembin er hún full þakklætis fyrir heilbrigðiskerfið á Íslandi.
„Á hverjum degi fæ ég hringingu frá lungnalækni á Landspítalanum þar sem ég er með astma og viðkvæm lungu. Hann athugar stöðuna á mér og metur hvaða ákvarðanir skal taka svo að mér batni sem fyrst. Þessi umönnun hefur létt svo mikið á stressi hjá mér og fjölskyldunni og haldið huganum rólegum.“ Það hafi þó verið bæði sárt og erfitt að komast í gegnum öndunarerfiðleikana á meðan verst var.
Fengu ekki að fara í sýnatöku
Mikill munur er á viðbrögðum við sjúkdómnum á Íslandi og í Seattle að mati Heru og tekur hún dæmi um að samnemendur hennar hafi ekki fengið að fara í sýnatöku þrátt fyrir að sýna einkenni veirusmits. Sjálf fór Hera í skimun við komuna til Íslands áður en hún var farin að finna fyrir miklum einkennum.
„Mér skilst að þetta sé að lagast þarna úti og skólinn brást fljótt og vel við að koma upplýsingum um smit mitt til allra þeirra sem voru nálægt mér á vegum skólans síðustu viku.“ Hera stundar nám við Háskólann í Washington þar sem mikið er af alþjóðlegum nemendum og því hafi viðbúnaður þar verið hærri þar en annars staðar.
„Strax í byrjun árs voru nemendur í bekknum sem eiga skyldmenni í Asíu byrjaðir að vera með grímur og sótthreinsa nærumhverfið á meðan við hin virtumst tiltölulega róleg. Enn eftir því sem á leið var fólk almennt byrjað að vera varkárt og skólinn lokaði skólasvæðinu og færði kennsluna yfir á netið.“

Óttaðist um aðra
Hera kveðst hafa fundið fyrir miklum kvíða vegna COVID-19 veirunnar í kjölfar mikillar umfjöllunar um veiruna á netinu. „Aðallega hvað varðar aðra í kringum mig sem teljast mögulega í áhættuhópum. Um leið og ég fékk veiruna var fókusinn ennþá á fólkið í kringum mig, að reyna að passa að aðrir verði í lagi.“
Það skipti gríðarlega miklu máli að sýna hugulsemi og fylgja tilmælum sérfræðinga svo unnt sé að vernda aðra sem kunna að vera í áhættuhóp.
„Þetta ástand núna í heiminum er svo sannarlega alvarlegt og hugurinn er hjá þeim sem þurfa að sjá ástvini sína kveðja of fljótt, en þá er einmitt svo mikilvægt að njóta lífsins með fólkinu sínu, þó í að minnsta kosti tveggja metra fjarlægð, og reyna að gera það sem gleður mann,“ segir Hera kíminn.
Grín og kærleikur allra meina bót
Hennar leið til að kljást við vandamál hefur ávalt verið í gegnum grín og eru veikindin núna engin undantekning. „Þess vegna held ég áfram að grínast með “hvað súkkulaði iðnaðurinn skyldi nú gera ef ég dræpist, þá myndi allt fara á hausinn” þar sem ég er nú dyggur styrktaraðili hans geti ég nú ekki farið að gera það.“
Öll umhyggjan, hjálpsemin og kærleikurinn sem Hera hefur fundið fyrir hjá sínum nánustu hefur einnig hjálpað mikið. „Ég er enn í þeirri hugsun að verið sé að sinna mér og að ég reddist, en jeminn eini hvað það er gott að sjá hvað allir eru frábærir.“