Hera Sól­veig Ívars­dóttir, meistara­nemi, er bú­sett í Seatt­le í Banda­ríkjunum en greindist með CO­VID-19 kóróna­veiruna stuttu eftir komu sína til Ís­lands í frí. „Ég kom heim með smá kvef og hélt að ég væri ekki neitt veik en varð svo veik næstum um leið og ég lenti,“ segir Hera í sam­tali við Frétta­blaðið.

Fyrstu ein­kennin voru kvef og sviði í augun og því næst tók mikill hiti við. Hera á­kvað strax að halda sig heima þar til búið væri að greina sýni úr henni. Sýnið reyndist vera já­kvætt fyrir CO­VID-19 veirunni og við tók 14 daga ein­angrun.

Orð­laus yfir við­brögðunum

„Eftir greininguna hér heima hef ég verið nánast orð­laus yfir hversu dá­sam­lega heil­brigðis­starfs­mennirnir hafa séð um mig.“ Hera er nú á áttunda degi ein­angrunar og þrátt fyrir að veikindin hafi verið strembin er hún full þakk­lætis fyrir heil­brigðis­kerfið á Ís­landi.

„Á hverjum degi fæ ég hringingu frá lungna­lækni á Land­spítalanum þar sem ég er með astma og við­kvæm lungu. Hann at­hugar stöðuna á mér og metur hvaða á­kvarðanir skal taka svo að mér batni sem fyrst. Þessi um­önnun hefur létt svo mikið á stressi hjá mér og fjöl­skyldunni og haldið huganum ró­legum.“ Það hafi þó verið bæði sárt og erfitt að komast í gegnum öndunarerfiðleikana á meðan verst var.

Fengu ekki að fara í sýna­töku

Mikill munur er á við­brögðum við sjúk­dómnum á Ís­landi og í Seatt­le að mati Heru og tekur hún dæmi um að samnemendur hennar hafi ekki fengið að fara í sýna­töku þrátt fyrir að sýna ein­kenni veiru­smits. Sjálf fór Hera í skimun við komuna til Ís­lands áður en hún var farin að finna fyrir miklum ein­kennum.

„Mér skilst að þetta sé að lagast þarna úti og skólinn brást fljótt og vel við að koma upp­lýsingum um smit mitt til allra þeirra sem voru ná­lægt mér á vegum skólans síðustu viku.“ Hera stundar nám við Há­skólann í Was­hington þar sem mikið er af al­þjóð­legum nem­endum og því hafi við­búnaður þar verið hærri þar en annars staðar.

„Strax í byrjun árs voru nem­endur í bekknum sem eiga skyld­menni í Asíu byrjaðir að vera með grímur og sótt­hreinsa nær­um­hverfið á meðan við hin virtumst til­tölu­lega ró­leg. Enn eftir því sem á leið var fólk al­mennt byrjað að vera var­kárt og skólinn lokaði skóla­svæðinu og færði kennsluna yfir á netið.“

Búið er að greina tæplega fjögur þúsund sýni hér á landi.
Mynd/Íslensk erfðagreining

Óttaðist um aðra

Hera kveðst hafa fundið fyrir miklum kvíða vegna CO­VID-19 veirunnar í kjöl­far mikillar um­fjöllunar um veiruna á netinu. „Aðal­lega hvað varðar aðra í kringum mig sem teljast mögu­lega í á­hættu­hópum. Um leið og ég fékk veiruna var fókusinn enn­þá á fólkið í kringum mig, að reyna að passa að aðrir verði í lagi.“

Það skipti gríðar­lega miklu máli að sýna hugul­semi og fylgja til­mælum sér­fræðinga svo unnt sé að vernda aðra sem kunna að vera í á­hættu­hóp.

„Þetta á­stand núna í heiminum er svo sannar­lega al­var­legt og hugurinn er hjá þeim sem þurfa að sjá ást­vini sína kveðja of fljótt, en þá er ein­mitt svo mikil­vægt að njóta lífsins með fólkinu sínu, þó í að minnsta kosti tveggja metra fjar­lægð, og reyna að gera það sem gleður mann,“ segir Hera kíminn.

Grín og kær­leikur allra meina bót

Hennar leið til að kljást við vanda­mál hefur á­valt verið í gegnum grín og eru veikindin núna engin undan­tekning. „Þess vegna held ég á­fram að grínast með “hvað súkku­laði iðnaðurinn skyldi nú gera ef ég dræpist, þá myndi allt fara á hausinn” þar sem ég er nú dyggur styrktar­aðili hans geti ég nú ekki farið að gera það.“

Öll um­hyggjan, hjálp­semin og kær­leikurinn sem Hera hefur fundið fyrir hjá sínum nánustu hefur einnig hjálpað mikið. „Ég er enn í þeirri hugsun að verið sé að sinna mér og að ég reddist, en jeminn eini hvað það er gott að sjá hvað allir eru frá­bærir.“