Linda Dröfn Gunnars­dóttir hefur verið ráðin ný fram­kvæmdar­stýra Sam­taka um kvenna­at­hvarf, en í byrjun ágúst tekur hún við af Sig­þrúði Guð­munds­dóttur sem hefur stýrt at­hvarfinu í rúm­lega 16 ár.

„Ég er bara virki­lega þakk­lát, auð­mjúk og spennt að byrja í þessu starfi og taka að mér þetta flotta og verðuga verk­efni. Það er búið að vera al­gjör­lega frá­bær starf­semi þarna og það eru spennandi tímar fram undan hjá Kvenna­at­hvarfinu,“ segir Linda.

Síðustu misseri hefur Linda starfað sem verk­efnis­stjóri þróunar­verk­efna og stað­gengill for­stöðu­manns hjá Fjöl­menningar­setri, sem hún segir muni nýtast vel í nýju starfi.

„Ég hef mikla reynslu og hef unnið mikið með fólki af er­lendum upp­runa og inn­flytj­endum á Ís­landi, en meira en helmingur þeirra sem dvelja í Kvenna­at­hvarfinu eru konur af er­lendum upp­runa,“ segir Linda.

Að­spurð segir Linda enn ekki út­séð með á­herslu­breytingar til að byrja með. Það fyrsta sem hún ætli að gera sem stjórnandi sé að vera auð­mjúk og hlusta á sam­starfs­fólk sitt.

„Þarna býr alveg of­boðs­lega mikil þekking og reynsla sem ég mun byrja á að sanka að mér og vinna svo úr til að fá heildar­sýn. Það er búið að setja stefnu­bundin mark­mið til ársins 2027 sem eru mjög flott og ég er mjög hlynnt og við störfum að þeim á­fram, segir Linda.

Gríðar­lega miklar breytingar hafa orðið á rekstri Kvennaat­hvarfsins á síðustu árum að sögn Lindu, en framundan er uppbygging nýs og stærra neyðarathvarfs í Reykjavík, í stað þess sem nú er starfandi.

„Það er komið á teikni­borðið og við munu halda á­fram með það verk­efni sem er risa­stórt. Og svo eru viss fjár­öflunar­verk­efni sem eru komin af stað sem ég mun fylgja eftir með haustinu,“ segir Linda.

Þá hafi hún hug­myndir að aukinni staf­rænni þróun inn á heima­síðu Kvenna­at­hvarfsins sem byrjaði í co­vid heims­far­aldrinum.

„Ég vil halda á­fram með þessa vitundar­vakningu sem hefur verið lagt af stað með og byrjaði í co­vid-inu, sér­stak­lega vegna þjónustu við konur á lands­byggðinni, svo þær geti nýtt sér betur okkar þjónustu,“ segir Linda. Með þessari vitundar­vakningu hafi til dæmis vinnu­lagi lög­reglunnar verið breytt, sem sé að skila góðum árangri.

„Ég vil halda á­fram með það og taka það upp á næsta stig ásamt okkar sam­starfs­aðilum og systur­fé­lögum.“